Makindalegir Selir í sumarblíðu í fjörunni við Sigríðarstaðaós á Vatnsnesi, en fækkað hefur í stofni landsels.
Makindalegir Selir í sumarblíðu í fjörunni við Sigríðarstaðaós á Vatnsnesi, en fækkað hefur í stofni landsels. — Ljósmynd/Selasetur Íslands
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Heildartalning á landsel verður gerð frá lokum júlí og út ágústmánuð, en síðast var selur talinn um allt land árið 2011.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Heildartalning á landsel verður gerð frá lokum júlí og út ágústmánuð, en síðast var selur talinn um allt land árið 2011. Talningin verður gerð á þeim tíma þegar selurinn hefur háraskipti, en þá eru mestar líkur á að hann liggi uppi á landi þar sem hlýrra er en í sjónum. Flugvél verður notuð í verkefnið eins og gert hefur verið við selatalningar frá því 1980 og er verkefnið m.a. fjármagnað með styrk frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

Í nýútkominni ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar er fjallað um selastofna við landið og segir þar að efla þurfi selatalningar og bæta skráningu selveiða, beinna og óbeinna, til að hægt sé að leggja mat á ástand stofnanna.

Síðasta heildartalning á landsel fór fram árið 2011, með endurbættri aðferð sem fól í sér að flogið var yfir stærstu látrin þrisvar og minni látur tvisvar. Stofninn árið 2011 var metinn um ellefu þúsund dýr eða óbreyttur frá því sem var sumrin 2003 og 2006. Stofninn var hins vegar metinn um 34 þúsund dýr í talningum 1980.

Óskráðar veiðar eða óhagstæðar umhverfisbreytingar

Árið 2014 fór fram talning á helstu landselslátrunum, en ekki hafði fengist fjárveiting fyrir heildartalningu. Niðurstöður talninganna sýna verulega fækkun eða allt að 30%, segir í ástandsskýrslunni. Þar sem afföll vegna óbeinna veiða eru talin hafa minnkað undanfarin ár og dregið hefur úr hefðbundinni nýtingu selabænda á stofninum, er nærtækustu skýringuna á fækkun landsels að finna í óskráðum veiðum eða óhagstæðum breytingum á umhverfisþáttum.

2010 voru skilgreind stjórnunarmarkmið landsels við Ísland. Samkvæmt þeim skal stefnt að því að halda stofni landsels nálægt þeirri stærð sem hann var 2006, en þá var hann metinn um 12 þúsund dýr. Minnki stofninn verulega skal gripið til aðgerða til að snúa þróuninni við.

Hitamyndavélar í dróna

Tilraun verður gerð á vegum Selasetursins á Hvammstanga í sumar við að nota sérstaklega útbúinn dróna eða flygildi við selatalningu. Dróninn flýgur með hitamyndavélar yfir selalátur og fékkst styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til verkefnisins, en það er unnið í samstarfi við Svarma ehf., sem framleiðir flygildin.

Sandra M. Granquist, dýraatferlisfræðingur hjá Veiðimálastofnun og Selasetrinu á Hvammstanga, segir að í framtíðinni verði vonandi hægt að nýta hitamyndavélar sem skynja hita frá dýrunum, en margar ólíkar hitamyndavélar eru til skoðunar.

Þá má geta þess að Selasetrið verður með „selatalninguna miklu“ 19. júlí eins og árlega í um áratug. Þá eru selir taldir á Vatnsnesi með aðstoð ferðamanna og annarra sjálfboðaliða á svæðinu. Sandra segir að þær upplýsingar nýtist einnig við mat á stærð selastofnsins.