Samræmd próf Sumum mun gefast kostur á að sækja framhaldsskóla að loknum samræmdum prófum.
Samræmd próf Sumum mun gefast kostur á að sækja framhaldsskóla að loknum samræmdum prófum. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur formlega óskað eftir viðræðum við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um hugmyndir um aukinn sveigjanleika á milli skólastiga.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur formlega óskað eftir viðræðum við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um hugmyndir um aukinn sveigjanleika á milli skólastiga. Í bréfi til menntamálaráðherra kemur fram að hugmyndirnar snúist um að kanna kosti þess og galla að flytja samræmd próf 10. bekkjar til vors í 9. bekk, og gefa þeim nemendum sem það kjósa kost á að hefja fyrr nám í framhaldsskóla. Útskrift geti orðið að vori í 9. bekk eða um áramót í 10. bekk.

Borgin reki framhaldsskóla

Í öðru lagi að hleypt verði af stokkunum verkefni, í borginni í heild eða einstökum hverfum, þar sem nemendum á efstu árum grunnskóla verði gert ennþá auðveldara að ljúka skilgreindum áföngum fyrsta árs í framhaldsskólanámi samhliða námi í níunda og tíunda bekk.

Í þriðja lagi að efnt verði til viðræðna um rekstur Reykjavíkurborgar á einum eða fleiri framhaldsskólum í tilraunaskyni, til að auka samfellu í námi og vinna að ofangreindum áherslum.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að þegar hafi farið fram óformlegar viðræður og að málið hafi verið í skoðun í ráðuneytinu um hríð. Hann segir að ágætur samhljómur sé á milli borgarinnar og ráðuneytisins um aukinn sveigjanleika.

„Ég fagna þessum áhuga. Reykjavík er stærsta sveitarfélagið og eins hefur komið fram áhugi hjá öðrum sveitarfélögum um að þau komi að rekstri framhaldsskóla,“ segir Illugi.

Ekki til þess að spara krónur

Spurður segir hann að tillögurnar séu ekki hugsaðar til þess að spara peninga. „Ég held að í svona málum eigi menn ekki endilega að horfa á að hér sparist einhverjar krónur og aurar. Ég held að það sem sett sé í menntakerfið sé fjárfesting sem skilar sér margfalt út í samfélagið. Þarna er eingöngu verið að hugsa um umbætur í kerfinu sem leiði til þess að hægt verði að sinna ólíkum þörfum nemenda,“ segir Illugi.