Sumarfrí Þingmenn stigu léttum sporum og sumarklæddir út úr þinghúsinu í gær, m.a. þingmenn Framsóknar.
Sumarfrí Þingmenn stigu léttum sporum og sumarklæddir út úr þinghúsinu í gær, m.a. þingmenn Framsóknar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Alþingi samþykkti undir lok seinasta þingfundarins fyrir þingslit í gær lög um 39% stöðugleikaskatt og nauðasamninga fjármálafyrirtækja, svonefnd haftafrumvörp. Var þverpólitísk samstaða um afgreiðslu þeirra.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alþingi samþykkti undir lok seinasta þingfundarins fyrir þingslit í gær lög um 39% stöðugleikaskatt og nauðasamninga fjármálafyrirtækja, svonefnd haftafrumvörp. Var þverpólitísk samstaða um afgreiðslu þeirra.

Frumvarpið um stöðugleikaskatt var samþykkt með 55 atkvæðum en einn þingmaður, Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, greiddi ekki atkvæði. Frumvarpið um fjármálafyrirtæki og nauðasamninga var samþykkt með 53 atkvæðum. Einn þingmaður, Ögmundur Jónasson í Vg, greiddi atkvæði á móti og tveir þingmenn sátu hjá, Andrés Ingi Jónsson, Vg, og Jón Þór Ólafsson, Pírati.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði við lokaumræðu um málið að þingið væri að samþykkja leið til þess að leysa stærsta efnahagsvandamál sem þjóðin hefði staðið frammi fyrir undanfarin ár. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vg, sagði að réttlæting skattsins væri vandasöm og það væri vel gert í greinargerð frumvarpsins. Stöðugleikaskatturinn væri fyllilega réttlætanlegur og stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng og sagði að mikilvægasti þáttur framhaldsins væri að tryggja að farið yrði þannig með þá fjármuni sem renna til ríkissjóðs að þeir valdi ekki efnahagslegum óstöðugleika. Þá mætti heldur ekki valda pólitískum óstöðugleika með loforðaflaumi í aðdraganda kosninga. „Það er verkefni okkar allra að standa við þá pólitísku samstöðu sem fram hefur komið í nefndinni að við ætlum öll að verjast þeirri freistingu,“ sagði hann.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þakkaði fyrir samstöðu þingsins. Um ráðstöfun fjármunanna sem um ræðir sagði Bjarni skýrt að þeim bæri að ráðstafa til að lækka skuldir ríkissjóðs. „Hér kemur fram heildstæð áætlun um það hvernig á að leysa vandann. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenska þjóð að finna fyrir þeirri samstöðu sem er hér á þinginu um aðferðafræðina við að ná því markmiði,“ sagði Bjarni.

Skatturinn verður einskiptisskattur sem lagður verður á 15. apríl 2016 og verða gjalddagar fjórir á árinu: 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst 2016.