Samvinna listamanna Pétur Ben, tónskáld, Helga Rut, tónlistarfræðingur, og Mæja myndlistarmaður.
Samvinna listamanna Pétur Ben, tónskáld, Helga Rut, tónlistarfræðingur, og Mæja myndlistarmaður. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljúft er að raula Kalt er litlu lummunum, Klappa saman lófunum, Krummi krunkar úti, Vindum, vindum, vefjum band og fleiri gamlar vísur með barn í fangi.

Ljúft er að raula Kalt er litlu lummunum, Klappa saman lófunum, Krummi krunkar úti, Vindum, vindum, vefjum band og fleiri gamlar vísur með barn í fangi. Doktor í tónlistarfræðum, tónskáld og myndlistarkona leituðu fanga í þjóðlegum arfi skráðra og munnlegra heimilda og gefa út bókina og geisladiskinn Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Við skulum þreyja, þorrann og hana góu og fram á miðjan einmánuð; þá ber hún Grána.“ Þessi rammíslenski kveðskapur er barnagæla sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi kann niðurlagið á: Bí, bí og blaka, álftirnar kvaka, ég læt sem ég sofi, en samt mun ég vaka.

Textinn er meðal þrjátíu vísna- og þulutexta í bókinni Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi. Á geisladiski sem fylgir með myndskreyttri bókinni syngur dr. Helga Rut Guðmundsdóttir tónlistarfræðingur lagið, sem er eftir Jórunni Viðar.

Raunar syngur Helga flest lögin á disknum og fer jafnframt með þulurnar, en nýtur líka aðstoðar sjö ára systurdóttur sinnar, dóttur Péturs Ben tónskálds, en hann stendur með mágkonu sinni að útgáfunni.

„Markmið okkar er að tryggja yngstu kynslóðinni vandað aðgengi að þjóðararfinum, allt frá íslensku baðstofunni og fram á okkar daga,“ útskýrir Helga Rut. Sjálf hafði hún ekki heyrt áðurnefnt vísubrot um þorrann og góuna þegar hún var lítil. Og var þó mikið sungið á hennar æskuheimili.

„Sérstaklega fyrir börnin. Ég man eftir að hafa sungið fyrir yngri systur mínar þegar ég passaði þær. Síðar söng ég auðvitað allt sem ég kunni fyrir dætur mínar. En ég hefði viljað hafa svona bók eins og Vísnagull innan seilingar þegar þær voru litlar. Það er svo mikilvægt að stuðla að því að sungið sé með börnum en þeim ekki bara réttur snjallsíminn.“

Þriggja ára undirbúningur

Undirbúningur útgáfu Vísnagulls hófst fyrir þremur árum. Verkaskiptingin blasti vitaskuld við. Helga Rut safnaði efni og ritstýrði verkinu. Pétur hafði umsjón með tónlist og upptökum á geisladiski. Síðan fengu þau listakonuna Mæju, Maríu Sif Daníelsdóttur, til að myndskreyta bókina. Hvað barnagælurnar áhrærir virðist þjóðararfurinn því vera í býsna góðum höndum hjá doktor í tónlistarfræðum, tónskáldi og myndlistarkonu.

Enda hefur verkefnið gengið ljómandi vel og verið að þeirra sögn afar gefandi og skemmtilegt. Peningaleysi setur hins vegar strik í reikninginn á lokasprettinum og kann að tefja útgáfu, sem þau stefna að í lok sumars. Þau brugðust við fyrir nokkrum dögum með því að hefja forsölu afurðarinnar og söfnun á Karolina Fund og vonast til að ná upp í prentkostnað.

Setja markið á milljón

„Við ætlum að reyna að safna einni milljón króna. Líklega kostar prentunin eina og hálfa milljón, en við þorðum ekki að skjóta of hátt, því samkvæmt reglum sjóðsins fæst ekki neitt ef settu marki er ekki náð,“ segir Helga Rut.

Fyrir þremur árum veitti Bókmenntasjóður henni lítilsháttar styrk til verksins og fyrir ári hlaut hún eina milljón úr Menningarsjóði Jóhannesar Nordal. Hvorki Helga Rut né Pétur hafa reiknað sér laun því styrkirnir hafa einungis dugað fyrir framleiðslukostnaði; myndskreytingum, hönnun, hljóðveri og hljóðvinnslu.

Helga Rut stofnaði Tónagull 2004 í þeim tilgangi að halda tónlistarnámskeið fyrir ung börn og foreldra þeirra auk þess að leiðbeina leikskólakennurum og tilvonandi grunnskólakennurum um tónlist með börnum. Hún segir mörg hundruð börn hafa farið í gegnum námskeiðin og sömu fjölskyldurnar komi aftur um leið og þeim fæðist nýtt barn.

„Hugmyndafræðin gengur út á að tónlist sé meðfædd þörf og tónlistaruppeldi eigi að miðast við tónlist með börnum en ekki fyrir börn. Þess vegna er virk þátttaka í tónlist lykilatriði á námskeiðum þar sem foreldrar og börn njóta þess að þroskast saman með tónlist á markvissan hátt. Á námsárum mínum í meistara- og doktorsnámi í menntunarfræðum tónlistar í Kanada tók ég ásamt ungri dóttur minni þátt í tónlistarnámskeiði fyrir 0 til 9 mánaða börn. Þar var fræinu sáð og ég hugsaði með mér að héldi ég svipuð námskeið á Íslandi væri mikilvægt að vinna með þjóðararfinn í stað þess að þýða bara erlendar þulur og söngva,“ segir Helga Rut.

Heillandi hljómheimur

Tónlistinni á Vísnagulli lýsir hún sem heillandi hljómheimi sem einkennist af órafmögnuðum hljóðfærum og sumum nokkuð sérstökum eins og bjöllum, vindlakassagítar og íslensku langspili. „Útsetningar eru lágstemmdar, tónlistin algjörlega tilgerðarlaus og raddirnar blíðar og mjúkar. Mér fannst ekki fara vel á að drekkja fallegum þulum og laglínum í of miklu skrauti. Vísurnar og þulurnar eru alltaf í forgrunni.“

Þótt Pétur sé töluvert í rokkinu, en hann samdi til dæmis tónlistina í kvikmyndinni Málmhaus, er augljóst að hann á sér mjúkar hliðar. Saman unnu þau Helga Rut geisladisk með íslenskum barnagælum, sem hún hefur notað á námskeiðum Tónagulls frá upphafi og Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi byggist á að hluta. „Við gáfum diskinn ekki út, enda var hann tekinn upp á einu kvöldi og átti bara að vera til bráðabirgða. Síðan hef ég varla annað eftirspurn og er stöðugt að brenna nýja því foreldrar á námskeiðunum vilja eiga hann til að spila fyrir börnin í bílnum, heima hjá sér eða bara hvar sem er,“ segir Helga Rut.

Bókina prýða 26 litrík málverk með ævintýralegum blæ eftir Mæju. Aftast eru ítarefni og fróðleikur um uppruna söngva og vísna auk skýringa og lýsinga á leikjum sem fylgja sumum þeirra.

Tók doktorsprófið í Kanada

Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fæddist í Reykjavík 1970.

Hún útskrifaðist sem tónmenntakennari frá Kennaraháskóla Íslands 1992 og lauk meistara- og doktorsnámi í menntunarfræðum tónlistar frá McGill-háskóla í Montreal í Kanada árið 2003.

Líf Helgu Rutar hverfist um tónlist, en hún syngur með kór Háteigskirkju, stundar rannsóknir á sviði tónlistarmenntunar og hefur birt greinar í erlendum fræðiritum.

Hún stofnaði Tónagull 2004 og hefur undanfarin þrjú ár unnið að gerð geisladisksins og bókarinnar Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi ásamt mági sínum Pétri Ben tónskáldi.

Nánari upplýsingar um útgáfuna ásamt tóndæmum eru á vefsíðunum: www.karolinafund.com/project/view/991 og www.tonagull.wordpress.com/visnagull