[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fallbeyging einstaka sérnafna vefst fyrir mörgum og hefur ávallt gert. Það þarf til að mynda að læra hvernig nöfnin Egill, Börkur og Þórarinn fallbeygjast. Ég hef tekið eftir að sérnöfn með tiltölulega einfalda beygingu eru stundum fallbeygð rangt.

Fallbeyging einstaka sérnafna vefst fyrir mörgum og hefur ávallt gert. Það þarf til að mynda að læra hvernig nöfnin Egill, Börkur og Þórarinn fallbeygjast. Ég hef tekið eftir að sérnöfn með tiltölulega einfalda beygingu eru stundum fallbeygð rangt. Rakel er eins í öllum föllum nema eignarfalli, þ.e. til Rakelar. Engu að síður skella sumir i-endingu á nafnið í þágufalli, sbr. frá *Rakeli. Sama villa hefur einnig loðað við nafnið Guðrún, þ.e. frá *Guðrúni í stað Guðrúnu . Nöfn sem fela í sér hljóðvarp eru líka oft fallbeygð rangt, sbr. til *Tanju í stað Tönju (u-hljóðvarp).

Nokkur nöfn hafa tvímyndir í eignarfalli eins og Ástvaldur, Haraldur, Rögnvaldur og Þorvaldur. Það er því heimilt að segja bæði til Þorvalds og til Þorvaldar o.s.frv. Þetta á þó ekki við um Ágúst sem er einungis Ágústs í eignarfalli en ansi margir segja ranglega *Ágústar.

Verst er þegar málnotendur sleppa því að fallbeygja nöfn í eignarfalli. Ég hef heyrt ungmenni segjast ætla að fara til *Dagmar. Þetta er alls ekki einsdæmi þegar um er að ræða kvenmannsnöfn sem hafa beygingarendinguna –ar í eignarfalli. Þetta á einnig við um karlmenn sem heita tveimur nöfnum. Sumir láta sér nægja að beygja aðeins seinna nafnið, þ.e. til *Jón Þórs, til *Geir Jóns.

Föðurnöfn sjást því miður oft óbeygð, sbr. um Jónu *Guðmundsdóttir. Þetta tengist vanda margra við að fallbeygja skyldleikaorðin faðir , móðir , dóttir , systir og bróðir . Í DV í maí stóð: „Þá blandaði hún einnig faðir Hólmfríðar í málið...“ Þarna á auðvitað að vera föður . Það er að vísu algengara að heyra ranga beygingu í eignarfalli, þ.e. til *föðurs í stað föður og *föðursins í stað föðurins . Í Vísi er vitnað í viðtal á Bylgjunni með fyrirsögninni „Var gert að láta börnin af hendi til föðurs í Bandaríkjunum“.

Þekkt staðarnöfn heyrast líka afbökuð. Fólk segist ætla til *Selfossar en ekki Selfoss og að það sé á leiðinni til *Borgarnesar en ekki Borgarness . Tilfinningu málnotenda fyrir samsettum orðum virðist ábótavant. Ég gef mér að sama fólk viti hvernig foss og nes eru í eignarfalli.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er gagnlegt hjálpargagn fyrir þá sem þurfa. Hana má finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar. Þar eru öll föll sýnd. Stafsetningarorðabókin er tilvalin fyrir þá sem vilja fletta upp í bók.

Nú er alþjóðavæðing í algleymingi og því ber að standa vörð um fallbeygingu í málinu. Erlendar samskiptasíður bjóða hættunni heim. Á Facebook er hægt að merkja vini við stöðufærslur en þar sem íslenska viðmótið er óvandað birtast nöfnin sjálfkrafa í nefnifalli, sbr. „Ég fór út að hlaupa með Jón Jónsson“. Hvaða áhrif hefur það á beygingu mannanafna þegar álíka villa sést oft á dag? Á endanum finnst sumum ekkert athugavert við að nöfn séu í nefnifalli þótt þau eigi að vera í aukafalli. Í kjölfarið gæti fallbeyging minnkað jafnt og þétt.

Eva S. Ólafsdóttir

Höf.: Eva S. Ólafsdóttir