Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Með hverjum degi sem líður aukast líkurnar á því að síðasta haftið í Norðfjarðargöngum verði sprengt"
Tekið hefur um eitt og hálft ár að grafa 6,5 km inn í fjallið úr Fannardal í Norðfirði og frá Eskifirði. Fullvíst þykir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hafi gengið enn betur en menn sáu fyrir í upphafi þótt smávandamál hafi komið upp í stuttan tíma. Greinarhöfundur fagnar því hvað vinna við þessa gangagerð er langt komin þó að verklok hafi áður verið áætluð haustið 2017. Markmiðið með þessum jarðgöngum er að tryggja öryggi í samgöngumálum fjórðungsins sem hafa alltof lengi verið í miklum ólestri. Að loknum framkvæmdum við nýju Norðfjarðargöngin mun versnandi ástand á Fagradal alltaf koma í veg fyrir að Seyðfirðingar, Egilsstaða- og Héraðsbúar sem starfa í álveri Acoa á Reyðarfirði geti treyst þessari leið í 400 m hæð sem verður næstu áratugina engu betri en Fjarðarheiði. Með hverjum degi sem líður aukast líkurnar á því að síðasta haftið í Norðfjarðargöngum verði sprengt seint í ágúst eða um miðjan september ef engin teljandi vandamál koma upp. Þá hljóta einhverjir að spyrja hvort hægt verði að flýta verklokum við nýju göngin um eitt ár og taka þau formlega í notkun um mitt næsta ár á meðan illa gengur að stöðva vatnselginn í Vaðlaheiðargöngum. Spurningin er hvenær hægt verði að ákveða framkvæmdir við annað samgöngumannvirki undir Fjarðarheiði, sem Seyðfirðingar berjast fyrir til að stöðva brotthvarf Norrænu úr sinni heimabyggð fari svo að vinnu við Norðfjarðargöng ljúki að fullu fyrr en áætlað er. Það mun tíminn síðar leiða í ljós. Fjarstæðukennt tal um að öllum fjármunum sem fóru í göngin undir Almannaskarð, Fáskrúðsfjarðargöng og nú síðast í Norðfjarðargöng hafi verið stolið frá Öxi hefur sveitarstjórn Djúpavogs í góðri samvinnu við skoðanabræður sína notað til að reka hornin í samgöngumál Breiðdælinga af minnsta tilefni í stað þess að leggja meiri áherslu á bættar vegasamgöngur við stóra Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Með tilkomu nýju ganganna sem leysa af hólmi tvær hættulegar brekkur beggja vegna Oddsskarðsins – og einbreiðu slysagildruna í 620 m hæð fyrir ofan Eskifjörð – fá íbúar suðurfjarðanna á svæðinu norðan Breiðdalsvíkur í fyrsta sinn öruggari vegtengingu við þetta deildaskipta sjúkrahús í Fjarðabyggð. Meira vantar upp á til þess að hægt verði að tryggja heimamönnum á öllu svæðinu sunnan Stöðvarfjarðar styttri vegalengdir við stóra Fjórðungssjúkrahúsið á Mið-Austurlandi sem meirihluti Austfirðinga utan Norðfjarðar getur ekki treyst á alla vetrarmánuðina vegna of mikilla snjóþyngsla, illviðris og slysahættunnar sem eykst alltof mikið í Hvalnes-, Þvottár- og Kambaskriðum, fyrir ofan Eskifjörð, á Fjarðarheiði og Fagradal. Á þessum vandamálum finnst engin lausn fyrir alla suðurfirðina án jarðganga milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar, undir Lónsheiði, og neðansjávarganga undir Berufjörð. Fyrr skulu menn ekki tala um suðurfirði Austurlands sem eitt samfellt atvinnusvæði. Óhjákvæmilegt er að samgöngumálum Mið-Austurlands verði fyrst komið í viðunandi ástand eftir að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Arnbjargar Sveinsdóttur um að flýta undirbúningsrannsóknum á Fjarðarheiðargöngum sem tryggja Seyðfirðingum greiðari aðgang að innanlandsfluginu. Þarna skipta tvenn göng inn í Mjóafjörð líka miklu máli. Að sjálfsögðu eykst arðsemi jarðganga eftir því sem unnt er að fækka snjóþungum fjallvegum á illviðrasömum svæðum í 500-600 m hæð. Unnt er að afskrifa endanlega nýjan Axarveg verði ákveðið að bjóða út á næstu árum framkvæmdir við tvíbreiðar brýr og nýja vegi í botni Berufjarðar, Stöðvarfjarðar og við Fáskrúðsfjörð. Þessar samgöngubætur á suðurfjörðunum, sem þola enga bið, hefði fyrir löngu átt að ákveða á undan Vaðlaheiðar- og Héðinsfjarðargöngum. Tímabært er að allir þingmenn Norðausturkjördæmis berjist fyrir því að framkvæmdum við nýja brú milli Egilsstaða og Fellabæjar verði flýtt á þessu kjörtímabili áður en röðin kemur að útboði Fjarðarheiðarganga sem tryggja öryggi þungaflutninganna enn betur en núverandi vegur á heiðinni.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson