Ung stúlka með höfuðið niður að bringu, horfði stíft á snjallsímann sinn er hún kom stikandi inn í búð á Laugaveginum. Þegar hún var komin inn í anddyrið snarstoppaði hún, leit upp með spyrjandi augu og sagði við næsta starfsmann: „Hrútabúðin?
Ung stúlka með höfuðið niður að bringu, horfði stíft á snjallsímann sinn er hún kom stikandi inn í búð á Laugaveginum. Þegar hún var komin inn í anddyrið snarstoppaði hún, leit upp með spyrjandi augu og sagði við næsta starfsmann: „Hrútabúðin?“
Starfsmaðurinn svaraði: „Nei. Gamlabúðin.“ Þá sagði sú með snjallsímann af festu: „Nei, Hrútabúðin“og benti á forritið í símanum sem hafði vísað henni samviskusamlega veginn inn í Gömlubúðina. Snjallsímastúlkan var örvingluð á svip við svarið og var við það að stappa niður fæti þegar starfsstúlka Gömlubúðarinnar benti henni á að þessi búð hefði verið nákvæmlega þarna frá nánast örófi alda og hýst menningarvarning.
Stúlkan snjalla leit tómlega í augu starfsstúlkunnar og hentist út úr búðinni. Hún hélt áfram að rýna ofan í skjáinn er hún fetaði ögn reikul í spori framhjá rauðgulu skilti sem á stóð Hrútabúðin.
Þess ber að geta að nöfnum búðanna á Laugaveginum hefur verið breytt en það skal áréttað að samtölin fóru fram á íslensku en ekki ensku. Já, tæknin er góðra gjalda verð.
En að öðru, þá hefur Víkverji mælt notkun sína á snjalltækjunum síðasta misserið. Það þarf vart að koma á óvart að honum bregði nokkuð í brún við niðurstöðuna. Stundum kýs hann að vafra um á veraldarvefnum í stað þess að spjalla stuttlega við sambýlinginn eða opna bókarskruddu.