Lúsmý veldur um þessar mundir usla í sveitum á Suðvesturlandi.
Lúsmý veldur um þessar mundir usla í sveitum á Suðvesturlandi. — Ljósmynd/Erling Ólafsson
Bjarni Steinar Ottósson bso@mbl.is Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur og rannsóknarstjóri hjá Landgræðslu ríkisins, segir það ekki mundu koma sér á óvart ef lúsmý yrði hér staðbundið í framtíðinni.

Bjarni Steinar Ottósson

bso@mbl.is

Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur og rannsóknarstjóri hjá Landgræðslu ríkisins, segir það ekki mundu koma sér á óvart ef lúsmý yrði hér staðbundið í framtíðinni. Svipaðar tegundir eru þekktar í nágrannalöndunum og í raun hafi t.d. verið beðið eftir því að moskítóflugur færu að nema hér land. Ekkert væri þekkt því til fyrirstöðu að slíkar flugur gætu þrifist hér og vetur ekki svo kaldir að það ætti að ganga af þeim dauðum.

Fréttir af lúsmýi hafa trúlega ekki farið framhjá mörgum síðustu daga en fregnir tóku að berast af þessum vágesti í vikunni. Mýið virðist eins og er halda sig í Kjósinni og Mosfellssveit og leggst þar bæði á heimamenn og sumarhúsaeigendur, svo að stórsér á þeim.

Nákvæm greining á þeirri tegund mýflugna sem um ræðir hefur ekki fengist staðfest en Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, telur hana líklegast tilheyra ættkvíslinni Culocoides . Tegundir úr henni hafa ekki þekkst hér á landi fyrr, en í nágrannalöndum okkar herja þær á menn og fé og geta borið á milli búfjársjúkdóma.

Alda nýrra tegunda á nýrri öld

Frá aldamótum hefur Guðmundur séð margar tegundir nema hér land, sumar skaðvalda. „Það er asparglytta sem menn á höfuðborgarsvæðinu hafa orðið mikið varir við og síðan birkikemba sem líka hefur valdið nokkrum usla. Þetta kemur hvort tveggja í kringum 2000.

Um 10-15 nýir skaðvaldar hafa numið hér land á undanförnum fáum árum. Það líður oft dálítill tími því að tegund er staðfest í landinu þar til maður sér hvað þetta er mikill skaðvaldur.“

Ekki er hægt að segja til um hvernig tegundirnar berast hingað. Einhverjar gera það af sjálfsdáðum en Guðmundur segir flutninga til landsins það umfangsmikla að engin leið sé að loka á þetta. Skordýr geta borist með jarðvegi með plöntum, utan á bílum og í dekkjum sem flytjast beint inn til landsins auk almennra vöruflutninga. Aðeins þurfi einstök tilvik til þess að ný tegund setjist að.

Festi tegundir sig í sessi er fátt til ráða. Eitrun feli í sér of skaðleg efni og sé ekki raunhæf.

Bitvargur
» Lúsmýið er talið tilheyra ætt blóðsugna sem finnst í löndunum í kring.
» Smávaxnar flugurnar þurfa helst logn til þess að athafna sig.
» Ekki verður vart við bitin strax en roði, kláði og bólga fylgja á eftir.
» Skyldar tegundir bera sumar með sér búfjársmit en smit i mönnum er ekki þekkt.