Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, er ræðukóngur 144. löggjafarþings Alþingis, sem lauk í gær. Þetta er annað árið í röð sem Steingrímur hlýtur þennan titil. Hann talaði í 2.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, er ræðukóngur 144. löggjafarþings Alþingis, sem lauk í gær. Þetta er annað árið í röð sem Steingrímur hlýtur þennan titil. Hann talaði í 2.419 mínútur samtals úr ræðustóli þingsins, eða í rúmar 40 klukkustundir. Flutti hann alls 293 þingræður á þinginu sem stóð yfir frá 9. september á síðasta ári skv. ræðulista þingsins og gerði 496 athugasemdir.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, flokkssystir Steingríms, vermir annað sætið yfir samanlagða ræðulengd á nýafstöðnu þingi. Hún talaði samtals í 1.964 mínútur, eða um 33 klukkustundir, í ræðustól Alþingis, flutti 254 ræður og kom 381 sinni í ræðupúltið til að gera athugasemdir.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er svo í þriðja sæti á lista þingmanna sem töluðu lengst á nýafstöðnu þingi. Hann talaði samtals í 1.824 mínútur, eða um 30 klukkustundir. Össur flutti 171 ræðu og gerði 543 athugasemdir. Er Össur í efsta sæti ef litið er á lengd athugasemda úr ræðustóli, en athugasemdir hans stóðu samtals yfir í 962 mínútur.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er eini stjórnarliðinn sem kemst á lista yfir þá tíu þingmenn sem töluðu mest á síðasta þingi. Bjarni er í 9. sæti. Hann talaði í 1.167 mínútur, eða um 20 klukkustundir, flutti 214 ræður og gerði 209 athugasemdir.

Enginn þingmaður Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar kemst á lista yfir þá tíu þingmenn sem töluðu lengst á þinginu. Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar og fjórir þingmenn Vinstri grænna eru á listanum og Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vermir tíunda sætið.

Elín Hirst, Sjálfstæðisflokki, er sá þingmaður sem talaði styst, eða í samtals 111 mínútur. Hún flutti 29 ræður og gerði sjö athugasemdir. Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokks, talaði í 122 mínútur á þinginu, flutti nokkru færri ræður en Elín, eða 21, og gerði 22 athugasemdir. Þórunn Egilsdóttir, flokkssystir hans og þingflokksformaður Framsóknar, talaði í 123 mínútur, flutti 36 ræður og gerði 26 athugasemdir.

Alls fluttu alþingismenn 7.267 þingræður á síðasta löggjafarþingi, sem stóðu yfir í rúmar 452 klukkustundir.

Athugasemdum úr ræðustól fjölgaði mikið miðað við fyrri þing, eða um 49,4% frá þinginu á undan, og voru alls gerðar 9.272 athugasemdir á þingfundum á nýafstöðnu þingi, sem stóðu yfir í rúmlega 233 klukkustundir samtals. omfr@mbl.is