Hlöðver Þórarinsson fæddist 17. október 1939. Hann lést 20. júní 2015.

Útför Hlöðvers fór fram föstudaginn 3. júlí 2015.

Í dag kveð ég góðan vin minn og mág.

Ég minnist hans með hlýju og þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við hjónin áttum með Hlöðveri og Erlu. Það er í raun og veru ótrúlegt að við systurnar höfum þurft að kveðja ástkæra eiginmenn okkar með rétt rúmlega árs millibili en þeir tveir voru miklir félagar.

Ég kynntist Hlöðveri fyrir rúmum 50 árum þegar hún Erla tvíburasystir mín kynnti mig fyrir honum. Hlöðver var góður maður, traustur, blíður, stríðinn og rólyndur. Hann var góður faðir og mikill vinur barna sinna.

Hlöðver og Erla hófu búskap í Lágmúla á Skaga. Ég og fjölskyldan mín eigum ófáar minningar þaðan þar sem við heimsóttum þau á hverju sumri á meðan þau bjuggu þar. Eftir að þau fluttu á Sauðárkrók héldum við áfram að heimsækja þau og þá fórum við einnig að ferðast mikið saman. Við fórum aðallega í ferðir innanlands og var Hlöðver mjög fróður um landið.

Hlöðver var góður vinur og forréttindi að hafa fengið að kynnast honum. Elsku Erla, Laufey, Tóti, Kalla, Gunnur Björk og fjölskyldur, ég votta ykkur mína innilegustu samúð. Við fráfall vinar fyllist ég sorg og trega en ylja mér við ánægjulegar minningar og þakka sanna vináttu.

Hvíldu í friði, elsku Hlöðver.

Stella Guðvarðardóttir.

Nú sefur jörðin sumargræn.

Nú sér hún rætast hverja bæn

og dregur andann djúpt og rótt

um draumabláa júlínótt.

Elsku vinur, frændi, afi. Það er erfitt að finna réttu orðin yfir tengslin á milli okkar. Óskyld en samt svo skyld enda fjölskyldurnar samofnar eftir áratugalanga vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Það var órjúfanlegur þáttur í hverju sumri að þið Erla kæmuð í nokkra daga í Kotið og við minnumst nú með mikilli hlýju þeirra fjölmörgu samverustunda. Seinna átti þeim skiptum sem þið dvölduð í Egilsstaðakoti eftir að fjölga og við vorum líka svo heppin að fá að kynnast börnum ykkar og barnabörnum sem dvöldu og unnu með okkur. Nærvera þín einkenndist af trausti og laðaði til sín unga sem gamla, jafnt menn sem dýr. Það fór ekki mikið fyrir þér en þegar litið er til baka er skarðið sem þú skilur eftir stórt. Alltaf nálægur hvort sem var við vinnu eða tómstundir. Okkur innan handar án þess að vera með afskipti. Traustur, glettinn og góður félagi.

Nú er skartar sumarið sínu fegursta, jörðin er sumargræn. Það var á þessum árstíma sem komu ykkar í Kotið var beðið með óþreyju enda hlaðin gjöfum og gleði. Það er skrítið að hugsa til þess að þeim kafla sé nú lokið en minningin lifir í hjörtum okkar.

Nú dreymir allt um dýrð og frið

við dagsins þögla sálarhlið,

og allt er kyrrt um fjöll og fjörð

og friður drottins yfir jörð.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Elsku Erla og fjölskylda, megi algóður guð styrkja ykkur í sorginni.

Guðbjörg Hulda, Þorsteinn Logi, Halla, Laufey og Sveinn Orri Einarsbörn.

Elsku afi okkar, það er erfitt að kveðja en þegar minningarnar rifjast upp er ekki annað hægt en að brosa því við erum svo heppin að eiga þig sem afa, við unnum sko í genalottóinu! Við áttum svo margar góðar og dýrmætar stundir með þér. Við systkinin nutum þeirra forréttinda að hafa ykkur ömmu í næstu götu og var alltaf opið hús fyrir okkur.

Afi var aldrei að flýta sér, hann hafði allan tímann í heiminum eins og hann sagði oft. Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum með honum, þvers og kruss um landið. Ef við settum út á ökuhraða hans, sem við oft gerðum, þá hægði afi meira á sér, eingöngu til að æsa okkur upp. Þetta fannst honum fyndið.

Afi gerði öll ferðalög skemmtilegri og bílferðirnar bærilegri. Afi fræddi okkur um alla staði á leiðinni, kaupstaði, örnefni, sveitabæi og jafnvel ábúendur vítt og breitt um landið. Á heimleiðinni hlýddi hann okkur svo yfir „hvaða bær er þetta?“ spurði hann og vorum við virkilega kappsöm að svara rétt svo við lögðum okkur öll fram að hlusta. Einnig átti hann til að segja þegar við renndum inn á Akureyri: „Jæja, þá erum við komin á Blönduós“ og heyrðist hátt í okkur: „Nei, afi, þetta er Akureyri!“ „Nú er það?“ sagði hann og glotti. Einnig virtust allar bílferðirnar styttri, þar sem við spurðum reglulega hvað það væri langt eftir og sýndi afi okkur með fingrunum hvað það væri margir sentimetrar eftir á landakorti, það var svo gott að sjá hvað það var „stutt“ eftir.

Afi kenndi okkur að spila og leggja kapal. Afi var ekkert að gefa eftir og vann hann okkur oftar en ekki. Það féll misvel í okkur og áttum við það til að grýta spilunum í hann og segjast aldrei ætla að spila við hann aftur, en það leið ekki á löngu þar til við vorum aftur mætt með spilastokkinn til afa.

Spenningurinn var alltaf mikill fyrir jólunum því þá vissum við að amma og afi myndu spila með okkur. Íslandsspilið varð nánast alltaf fyrir valinu undanfarin ár, því okkur þótti svo skemmtilegt að sjá hversu fróður afi var um Ísland. Við kepptumst um að fá að vera með afa í liði því það var öruggt að þá myndum við vinna, þar sem afi vissi allt. Við getum þakkað honum hversu vel við þekkjum landið okkar.

Það var alltaf hægt að treysta á afa ef eitthvað bjátaði á. Okkur er minnisstætt þegar mamma og pabbi skruppu út, við náðum að fullvissa þau um að við gætum alveg verið ein heima, enda amma og afi í næstu götu. Gleðin var svo mikil að okkur tókst að brjóta hjónarúmið. Þá voru góð ráð dýr og hringt í afa. Það var svo gott að leita til afa því við vissum að hann myndi redda þessu og segja engum frá því. Afi var ekki lengi að koma og laga rúmið.

Takk fyrir allt, elsku besti afi okkar, við trúum því að þú sért núna að spóka þig um í Sólvangi. Við munum passa ömmu vel fyrir þig og mun hún einnig halda vel um okkur, hún er sterkasta konan sem við höfum kynnst og sér alltaf um sína og eins og þú sagðir, „ég er ekkert án hennar“.

Sofðu rótt, elsku afi, við elskum þig og munum alltaf geyma þig í hjarta okkar.

Þín afabörn,

Kjartan Skarphéðinn, Þuríður Elín, Erla Hrund, Ásdís Sif og Hlöðver Þórarinsbörn.

Mig langar með fáum orðum að minnast Hlöðvers Þórarinssonar vinar míns. Hann fæddist á Skagaströnd 17. október 1939. Foreldrar hans voru Karla Berndsen og Þórarinn Jónsson. Hlöðver fluttist ungur maður með þeim að Fossi á Skaga, þar sem hann kynntist konu sinni Erlu Guðvarðardóttur. Þau bjuggu lengi á Lágmúla og Kleif og ásamt búskap þar var Hlöðver einnig póstur fyrir Skefilsstaðahrepp. Síðar fluttust þau til Sauðárkróks. Þar stundaði Hlöðver sjómennsku og fleiri störf við góðan orðstír.

Hann var einn af þeim mönnum sem þurfa að heyja harðvítuga baráttu við krabbamein. Hún var erfið, sérstaklega síðustu mánuðina, en hann stóð sig vel í því eins og öðru sem hann tókst á við og bar ekki tilfinningar sínar utan á sér. Erla kona hans stóð þétt við hlið hans og að mínu mati seint fullþakkað fyrir hvað hún var dugleg að hjálpa honum og létta undir í veikindum hans.

Við Hlöðver kynntumst þegar við vorum ungir menn og sú vinátta hélst óslitin meðan báðir lifðu og bar aldrei skugga á. Hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa mér þegar ég þurfti með og ég vona að það hafi verið gagnkvæmt. Við áttum margar góðar stundir saman í gegnum lífið, ekki síst í vélsleðaferðum upp um fjöll þegar best lét. Hlöðver var sérstaklega góður og heiðarlegur félagi.

Ég vil þakka honum fyrir samfylgdina og allt. Ég þakka fjölskyldu hans fyrir langa vináttu um leið og ég votta henni samúð mína.

Guðmundur Helgason.

Í dag þegar við kveðjum okkar kæra Hlöðver Þórarinsson leita margar minningar á hugann. Þessi dagfarsprúði öðlingur sem hefur verið svo tryggur og traustur vinur okkar alla tíð. Það ríkti alltaf eftirvænting og tilhlökkun í Egilsstaðakoti er fréttist að von væri á þeim Sauðárkrókshjónum. Mikið spjallað og hlegið í Kotaeldhúsinu og flestir fjölskyldumeðlimir komu til að hitta þau og gleðjast meðan þau dvöldu syðra. Hlöðver var hafsjór af fróðleik um menn og málefni, kom það berlega í ljós í orlofsferðum sem þau fóru með foreldrum okkar vítt og breitt um landið. Mömmu og pabba voru þessar ferðir mikils virði og ógleymanlegar. Sömu áhugamál, fræðast, ferðast, hitta fólk eða draga í spil. Við viljum af alhug þakka Hlöðver alla elskusemi og tryggð við fjölskylduna og biðjum honum blessunar í nýjum heimkynnum.

Sárt er vinar að sakna,

sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna,

margar úr gleymsku rakna,

svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta,

húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta

vinur þó félli frá.

Góðar minningar geyma,

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma,

þér munum við ei gleyma,

sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Elsku Erla og fjölskylda, við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Helga, Sigurbjörg,

Guðsteinn og Einar.