Loftur Altice Þorsteinsson
Loftur Altice Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Loft Altice Þorsteinsson: "Ísland ætti að hafa forystu um að berjast gegn babýlonskum ranghugmyndum eins og naglasúputilgátunni um „hlýnun veðurfars af völdum manna“."

Um nokkurt skeið hefur þeirri babýlonsku (bábilju) verið haldið að fólki að veðurfar hafi farið hlýnandi vegna brennslu kolefna. Við bruna á lífrænum jarðefnum losnar frumefnið kolefni úr föstu formi og umbreytist í lífsanda, öðru nafni koldíoxíð (CO 2 ). Þar með er viðhaldið þeirri hringrás kolefnis sem er undirstaða lífs á jörðinni. Því meira sem er af lífsanda í andrúminu, þeim mun gróðursælla verður umhverfi okkar og fæða fyrir fleira fólk verður aðgengileg.

Naglasúputilgátan var í upphafi kennd við gróðurhús en samlíkingin er svo fráleit að nú reynir enginn að halda því fram að opið andrými jarðar eigi eitthvað sammerkt með lokuðu rými gróðurhúss. Hins vegar er staðreynd að lífsandinn hlýnar fyrir áhrif hitageislunar. Við hlýnunina þenst hann út og verður eðlisléttari. Hlutfallslega eðlislétt gasefni stíga til himins og kólna þar hraðar en niðri við jörðu. (Ég geri ráð fyrir að lesendur þekki söguna um naglasúpuna.)

Heimskuleg afstaða kaþólsku kirkjunnar

Forystu um blekkinguna um „hlýnun veðurfars af völdum manna“ hefur haft fólk sem að eðlisfari er öfgamenn. Þetta er fólk sem við á Íslandi sáum taka undir Icesave-kröfur nýlenduveldanna og sem horfir til Evrópusambandsins með sömu löngun og gyðingar horfðu til Gósenlandsins í Egyptalandi. Það sem er nýtt og ógnvekjandi við umræðuna er hin fráleita aðkoma kaþólsku kirkjunnar, en páfinn hefur sent heimsbyggðinni umburðarbréf þar sem hann tekur afstöðu til vísindalegs deiluefnis. Upp í hugann kemur glæpsamleg framganga páfastóls gegn Jordanus Brunus og Galileo Galilei. Menn hafa ekki heldur gleymt sölu páfans á aflátsbréfunum alræmdu.

Jordanus Brunus (1548-1600) var ítalskur stjarnfræðingur, heimspekingur og stærðfræðingur. Hann er í hávegum hafður fyrir tilgátur um veröldina, sem hann taldi vera endalausa og án tiltekinnar miðju. Jordanus taldi stjörnurnar vera fjarlægar sólir, sem hefðu eigin flandur-stjörnur (planetes asteres) og á þeim væru hugsanlega lífverur. Rannsóknarréttur kaþólsku kirkjunnar dæmdi Jordanus til dauða og var hann brenndur á báli.

Galileo Galilei (1564-1642) var ítalskur stjörnufræðingur, verkfræðingur og heimspekingur. Hann er talinn einn mesti vísindamaður allra tíma og forgöngumaður vísindabyltingarinnar á endurreisnartímanum. Í andstöðu við kirkjuna hélt Galileo einarðlega fram þeirri tilgátu að sólin væri miðja heimsins og flandur-stjörnurnar snerust um hana. Fyrir afstöðu sína hlaut hann ofsóknir og fangelsun.

Á okkar dögum gengur kaþólska kirkjan fram fyrir skjöldu og ræðst með glórulausu ofstæki gegn orkuframleiðslu með brennslu kolefna úr iðrum jarðar. Staðbundin vandamál vegna mengunar hafa víðast verið leyst og ekki verður andmælt að ódýr orkuframleiðsla er undirstaða þeirrar velmegunar sem stækkandi mannfjöldi nýtur. Jafnvel páfanum ætti að reynast auðvelt að skilja, hvers vegna aukning lífsanda getur ekki valdið hlýnandi veðurfari og þar að auki hefur hlýnunin sem mældist á síðustu öld ekki haldið áfram.

Vísindalegar staðreyndir afsanna naglasúputilgátuna

Naglasúputilgátan segir okkur að hlýnun einhverra hluta í andrúmi jarðar er sambærileg við hlýnun nagla í súpu. Sú varmaorka sem í súpunni fer til að hita naglann getur ekki komið annars staðar frá en úr súpunni sjálfri. Þetta hefur að einhverju litlu leyti þau áhrif að súpan sjálf kólnar, en alls ekki þau áhrif að allt sem er í pottinum hitni. Hliðstæð atburðarás verður í andrúminu þegar lífsandinn (CO 2 ) hitnar.

Lífsandinn tekur til sín varma og auðvitað þeim mun meiri sem andrúmið inniheldur meira af koldíoxíði. Þessi varmi kemur úr umhverfi lífsandans, sem að stærstum hluta er vatnsgufa. Heildarvarmaorka í andrúminu eykst ekki við þennan orkuflutning. Lífsandi sem hefur hitnað rís til himins eins og stóra systir vatnsgufan, þar sem varmaorkan streymir út í geiminn. Hvort varmajafnvægi ríkir á jörðinni ræðst af hlutfalli innstreymis frá sólu og útstreymis frá gufuhvolfinu.

Auk þess sem tilgátan um „hlýnun veðurfars af völdum manna“ stenst ekki eðlisfræðilega sýna mælingar að ekkert samband er annars vegar á milli magns lífsanda í andrúminu og hins vegar meðalhitastigs. Koldíoxíð í andrúminu eykst árlega nær samfellt um 0,54% en meðalhitinn hefur haldist stöðugur síðustu 18 ár og sex mánuði, eða í 222 mánuði samfleytt. Meðfylgjandi tvö línurit sýna þessar staðreyndir.

Það er illa komið fyrir mannkyni ef æsingamenn í páfagarði eiga að skera úr um vísindaleg álitaefni. Sérstaklega er þetta mikið áhyggjuefni ef um er að ræða undirstöðu hagkerfa margra ríkja eins og gildir um orkunotkun. Þá er ekki síður mikilvægt að losun lífsanda gefur lífríkinu aukna fæðu og milljónum manna líf. Ísland ætti að hafa forustu um að berjast gegn babýlonskum ranghugmyndum eins og naglasúputilgátunni um „hlýnun veðurfars af völdum manna“.

Höfundur er verkfræðingur og vísindakennari.

Höf.: Loft Altice Þorsteinsson