Einhver litríkasti skákmaður sem Bandaríkjamenn hafa eignast og tíður gestur á skákmótum hér á landi, Walter Shawn Browne, lést 24. júní sl. 66 ára að aldri. Browne var þá meðal þátttakenda á National open, skákmóti sem hann hafði unnið ellefu sinnum. Þar voru orkuútlátin söm við sig; meðan á mótinu stóð tefldi hann fjöltefli, tók að sér skákkennslu og sat dágóða stund við pókerborðið en þar hafði hann um dagana rakað saman dágóðum skildingi. Þannig hafði hann alltaf lifað lífinu. Svo lagðist hann til svefns í húsi vinar síns í Las Vegas og vaknaði ekki aftur.
Um tíma starfaði hann sem „gjafari“ við spilavíti í Las Vegas og kynntist ýmsum skrautlegum karakterum. Í bók sinni „The stress of chess and its infinite finesse“ birtist mynd af honum með Frank Sinatra, önnur með Kenny Rogers. Þegar skákferill hans er gerður upp stendur eftir að hann vann fleiri mót en nokkur annar skákmaður vestra og er einhver minnisstæðasti stórmeistari sem greinarhöfundur hefur teflt við. Síðasta viðureign okkar var á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra þar sem hann var heiðursgestur. Þar náði ég loks fram hefndum eftir töp í Lone Pine '78, Reykjavík '80 og í New York '84. Yasser Seirawan tók í sama streng í viðtali um daginn og hikaði ekki við að kalla Browne sinn langerfiðasta andstæðing. Að tefla við Walter Browne var sérstök lífsreynsla því maðurinn bókstaflega skalf og nötraði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og dró jafnan að sér mikinn fjölda áhorfenda. Browne kom fyrst til Íslands veturinn 1978 og tefldi þar á best skipaða Reykjavíkurskákmóti frá upphafi, skaust fram úr Bent Larsen á lokametrunum og varð einn efstur. Hann bar Íslendingum alltaf vel söguna og eignaðist hér marga vini.
Örlögin höguðu því svo að Walter Browne tók við því hlutverki sem beið Bobbys Fischers í Bandaríkjunum eftir einvígið í Reykjavík 1972. Browne nýtti sér út í ystu æsar þau tækifæri sem opnast höfðu fyrir skákina eftir einvígið í Reykjavík. Hann varð „sexfaldur skákmeistari Bandaríkjanna“ og sá titill varð síðan ávallt tengdur nafni hans og ímynd. Burtséð frá bægslaganginum við skákborðið var hann hress og skemmtilegur náungi og einkar orðheppinn. Í frásögn minni af sögu Reykjavíkurmótanna frá viðburðum ársins 1986 stendur þetta skrifað: „Browne steig þá í ræðustól og minnti á framtak sitt til eflingar hraðskákeppni á heimsvísu og útgáfu sína á tímariti helguðu hraðskákinni og bætti svo við, að í einni hraðskák fælist yfirleitt meiri hugsun en hjá bandarísku ruðningsliði yfir heilt keppnistímabil.“
Á ferli sínum vann Browne tvisvar stórmótið í Wijk aan Zee í Hollandi. Í fyrra skiptið fór hann ómjúkum höndum um vin sinn frá Argentínu.
Walter Browne – Miguel Quinteros
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. Bb5+ Bd7 4. Bxd7+ Dxd7 5. c4 Dg4
Eftir þessa skák hefur peðsránið alltaf þótt vafasamt.
6. O-O Dxe4 7. d4 cxd4 8. He1 Dc6 9. Rxd4 Dxc4 10. Ra3 Dc8 11. Bf4 Dd7 12. Rab5
Hótar 13. Rxd6+. Nú dugar ekki 12. ... e6 vegna 13 Rxe6! fxe6 14. Hxe6+! o.s.frv.
12. ... e5 13. Bxe5! dxe5 14. Hxe5+ Be7
15. Hd5! Dc8 16. Rf5 Kf8 17. Rxe7 Kxe7 18. He5+
- og svartur gafst upp. Tærasta mátið kemur upp eftir 18. ... Kf6 19. Df3+! Kxe5 20. He1 mát.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is