Lilja Kristinsdóttir fæddist 8. apríl 1941. Hún lést 23. júní 2015.

Útför Lilju fór fram föstudaginn 3. júlí 2015.

Mig langar til að minnast hennar Lilju móðursystur minnar, eða Lilju frænku eins og ég kallaði hana alltaf.

Líf hennar Lilju var ekki alltaf auðvelt og má segja að hún hafi fengið mjög ríflega skammtað af mótlæti. Minningarnar eru samt sem áður margar og góðar. Sem betur fer eru það þær sem standa upp úr þegar litið er til baka.

Mamma og Lilja voru afskaplega samrýndar systur og því var samgangurinn alla tíð mjög mikill. Ég og Örn, yngsti sonur Lilju, fæddumst með mánaðar millibili. Systurnar voru mikið saman með okkur ungana og við urðum næstum eins og systkin. Mér fannst ég því eiga mitt annað heimili hjá Lilju frænku og þar var ég alltaf velkomin. Gekk inn og út eins og heima hjá mér, fékk að borða, gisti og var jafnvel skellt í bað þegar þess þurfti.

Í minningunni var mjög líflegt og skemmtilegt í Aðalgötunni hjá Lilju og Krumma. Amma Líney, Lilja og mamma að ræða um heima og geyma og lá ekki sérlega lágt rómur. Unglingarnir, Kiddi, Lauga og Líney hlaupandi inn og út, jafnan með vini með sér. Ég og Öddi fylgdumst með þeim (og fórum í gegnum dótið þeirra í laumi). Krummi sat yfirvegaður við eldhúsborðið og laumaði einstaka athugasemd í samtal mæðgnanna eða sat í húsbóndastólnum að lesa Dagblaðið. Hundurinn Tobba skottaðist kringum fólkið. Seinna bættust svo við yngri systkin mín og barnabörn Lilju og Krumma. Það var oft mjög mikið fjör og mikið hlegið.

Í seinni tíð þegar ég var flutt frá Ólafsfirði fór ég reglulega og heimsótti Lilju, sem var alltaf tilbúin með kaffi og með því þegar ég kom (jafnvel þó að komið væri fram yfir miðnætti). Þá gátum við setið við eldhúsborðið tímunum saman og rætt lífið og tilveruna. Yfirleitt byrjaði dagurinn á að Gunni frændi og Jónmundur komu í kaffi og það var gaman að fylgjast með því hversu gott samband þeirra var. Við Lilja fórum svo í bíltúr í Miðbæ þar sem við drukkum kaffi og unnum handavinnu. Lilja var, eins og reyndar þær mæðgur allar, afskaplega flink í höndunum. Saumar, hekl og prjón voru hennar ær og kýr og allt lék í höndunum á henni. Ég held að flestir afkomendur hennar og systkina hennar eigi bútasaumsteppi, sokka og vettlinga eftir hana. Ef mig vantaði aðstoð við hannyrðir hringdi ég í hana og hún leysti fyrir mig flóknustu verkefni gegnum síma. Við heyrðumst reglulega og alltaf var lokaspurningin frá henni „hvað ertu svo að gera í höndunum núna?“.

Hún Lilja hefur kennt mér margt um lífið, fjölskylduna, bakstur, matseld, handavinnu og svo margt fleira. Hún hefur verið mér sem önnur móðir alla tíð, ekki síst eftir að mamma lést. Hún fylgdist með börnunum mínum eins og sínum eigin barnabörnum enda kölluðu þau hana ömmu Lilju. Henni á ég margt að þakka og ég þakka fyrir allar góðu minningarnar.

Elsku Kiddi, Lauga, Líney og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning elsku Lilju frænku.

Valgerður Unnarsdóttir.

Þá er hún frænka mín Lilja farinn á betri stað og fær vonandi þá hvíld sem hún átti skilið. Það er stórt skarð höggvið í fjölskylduna við fráfall hennar og verður erfitt að fylla það. Mér verður óneitanlega hugsað til baka um góðar minningar sem ég átti í kringum systur hans pabba. Ég man vel eftir að sitja í stiganum hennar og Krumma og lesa bækur um Sval og Val og Fjögur fræknu eins og ég fengi borgað fyrir það. Ég var alltaf mjög hrifinn af því hve gott samband hún og pabbi áttu, og síðar meir á lífsleiðinni gerði ég mér grein fyrir erfiðleikar þeirra hefðu líklega þétt samband þeirra mikið. Hún var elst af systkinunum og þurfti að horfa á eftir þeim öllum fara á undan henni ásamt því að missa mann sinn hann Krumma, soninn Ödda og síðan barnabarnið hana Hrafnhildi. Ég dáðist að styrknum sem frænka mín hafði í gegnum þetta allt saman, það hefðu margir aðrir molnað við þennan þrýsting. Hún var sönn Miðbæjarættar kona og kraftmikil í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Ég lærði að meta hana á nýja vegu eftir að pabbi dó og varð hún táknræn fyrir þann hluta fjölskyldu minnar og hve mér þótti vænt um hann og hana.

Það var gaman að sjá hve vel hún tók því alltaf þegar dóttir mín kom í heimsókn, bæði ein og með afa sínum. Henni þætti mjög vænt um frænku sína og henni um Lilju. Það verður missir að sjá þær ekki saman, en góður hjarta vermir að hugsa til þeirra góðu tíma sem við fengum öll saman.

Það verður erfitt að geta ekki fylgt henni frænku minni síðustu sporin til ástvina hennar en ég veit að hún verður í góðum höndum alla leiðina. Ég mun kíkja á hana og pabba fljótlega og hugsa um allt það góða sem þau skildu eftir sig.

Markmið eru sett,

áföngum er náð,

tímamót verða.

Fjallið er klifið,

toppnum er náð.

Þá koma í ljós nýir toppar,

ný markmið, nýir áfangar.

Þrátt fyrir öll tímamót

og fjarlæg markmið

sem oft virðast eins og lokatakmark

þá heldur lífið áfram.

Þrátt fyrir allt mótlæti,

torfærur og brekkur,

baráttu og ósigra,

og jafnvel þótt ævinni ljúki,

jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann,

sem eru sannkölluð tímamót,

þá heldur lífið áfram,

og ekkert fær það stöðvað.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Sveinn Aðalsteinn

Gunnarsson.

Hjartans Lilja mín.

Þar sem ég sit og horfi yfir sjóinn finnst mér sjá glitta í þig í kvöldsólinni. Ég finn fyrir nærveru þinni, sem var alltaf svo hlý og notaleg.

Um hlíð og tind fer sólin löngum logum,

hún litast rjóð um býlin strjál og hlý,

um sorfin sker á silfurlygnum

vogum,

sendling í fjöru, hrafn við gullin ský.

(Bína Björns 1874-1941)

Ætli ég hafi ekki verið sirka 11 ára þegar leiðir okkar lágu fyrst saman. Ég þá afskaplega feimin og seinþroska rauðhærður táningur. Þú tókst mér strax opnum örmum, bauðst mig velkomna í fjölskylduna og lést mig aldrei finna annað en að ég væri eitt af barnabörnum þínum. Mér þykir svo ógurlega vænt um það og um þig. Það er erfitt að koma því í orð en mér fannst alltaf eins og að okkur tengdu sterk andleg bönd. Auk þess deildum við því að þykja afskaplega vænt um litla stúlku sem tengdi okkur enn frekar, systur mína og nöfnu þína.

Þú varst alveg ótrúleg kona sem ég ber óendanlega mikla virðingu fyrir. Þú þessi smáa kona sem stóðst í fæturna þrátt fyrir að lífsins ólgusjór skylli á þér hvað eftir annað en hafðir samt alltaf jafn mikla ást og hlýju til að gefa. Ég hugsaði stundum út í það að ég ætti Örn og að þú hefði átt Örn og hvort þú hugsaðir um þinn Örn þegar þú hittir minn Örn. Því miður fékk ég aldrei að hitta hann en mér þykir gott að hugsa til þess að hann taki á móti þér ásamt Hrafnhildi Lilju sem var alltaf jafn hlý og þú.

Úr ægi lyftast óskastrendur,

út eru breiddar mjúkar hendur

fuglinum þreytta friður sendur,

fegurð þreyð og dýrleg ró.

Horfið er lífsins um og ó

og röknuð böndin í báða skó.

(Snorri Hjartarson 1906-1986)

Við sem eftir stöndum getum huggað okkur við alla fallegu hlutina sem þú skildir eftir. Kiddi leggur sig til dæmis alltaf í faðmi móður sinnar í hádeginu, ef svo má að orði komast. En hann vefur sig inn í eitt af fallegu bútasaumsteppunum frá þér. Svo vekur Kappi mömmu alltaf í morgunsárið og þau lúra saman undir teppunum góðu fram að sólarupprás. Hér í Garði geymi ég síðan eitt dásamlega fallegt og grænt sem ég er vafin í, í þessum skrifuðu orðum.

Elsku Lilja mín, með söknuði í hjarta ég kveð þig en fyrst og fremst þakklæti fyrir þau forréttindi að hafa átt þig fyrir ömmu.

Hvíldu í friði.

Þín,

Una.