Silungsveiðar Sigurður við veiðar í Opnunum í Hraunholtum.
Silungsveiðar Sigurður við veiðar í Opnunum í Hraunholtum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Þorsteinn Helgason fæddist 4. júlí 1940 á Grund í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Hann var þar fyrsta árið en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. „Sumarið 1946 fer fjölskyldan í ferðalag vestur að Straumi á Skógarströnd.

Sigurður Þorsteinn Helgason fæddist 4. júlí 1940 á Grund í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Hann var þar fyrsta árið en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur.

„Sumarið 1946 fer fjölskyldan í ferðalag vestur að Straumi á Skógarströnd. Þar bjuggu þá móðursystir mín Elísabet Sigurðardóttir og hennar maður Marteinn Markússon, en þeir pabbi voru bræðrasynir. Þegar haldið var aftur suður gerðist ég afar ósáttur við að fara til baka og varð úr að ég fékk að verða eftir. Sú dvöl varði í eitt og hálft ár en þá var ég orðinn skólaskyldur og var neyddur suður í skólann. Vorið 1948 flytjast Marteinn og Elísabet að Vogatungu í Leirársveit og er ég þar hjá þeim í fjögur sumur og svo alveg eftir það fram yfir fermingu.

Skólagangan var stutt eftir að ég losnaði úr Laugarnesskólanum, fór ég í farskólann í Leirársveit og þar var tekið svokallað fullnaðarpróf. Árið 1958 fer ég að læra plötu- og ketilsmíði, er fyrri tvö árin í Landsmiðjunni og tvö seinni í Stálsmiðjunni. Síðar aflaði ég mér meistararéttinda í þeirri iðngrein.

Ég fór að vinna við járnsmíðar í Borgarnesi 1963, við hjónin flytjum að Hraunholtum vorið 1965 og höfum við verið hér síðan. Upp úr 1980 fer ég aftur að vinna við járnsmíðar í Borgarnesi. Hraunholt eru hlunnindajörð með veiðiréttindi í Hlíðarvatni. Við vorum með kúa- og sauðfjárbúskap en erum hætt bústörfum.“

Félagsstörf

Sigurður fór snemma að taka þátt í félagsmálum. „Fyrsta félagið sem ég gekk í var Æskulýðsfylkingin í Reykjavík, var í Alþýðubandalaginu og formaður svæðisfélags þess um tíma, tók þátt í að stofna Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og var fyrsti formaður þess í Vesturlandskjördæmi. Eftir að ég hóf búskap hef ég verið virkur í öllum fagfélögum í þeim búgreinum sem ég hef stundað.“ Sigurður sat í stjórn Kúabændafélagsins á sunnanverðu Snæfellsnesi, var formaður Sambands kúabænda á félagssvæði Kaupfélags Borgfirðinga, formaður Félags sauðfjárbænda á Snæfellsnesi, formaður Æðarræktarfélags Vesturlands, formaður Kornræktarfélags Kolbeinsstaðahrepps, deildarstjóri SS á Snæfellsnesi, núverandi formaður Veiðifélags Hlíðarvatns, er deildarstjóri Kolbeinsstaðahreppsdeildar Kaupfélags Borgfirðinga og er formaður eldri borgararáðs Borgarbyggðar.

„Ég sat einnig í stjórn Hjartaheilla á Vesturlandi sem varaformaður og formaður, sem er það félagsstarf sem hefur gefið mér hvað mest.

Helstu áhugamál mín fyrir utan fjölskylduna eru skotveiðar og stangveiðar. Að vera einn með sjálfum sér á góðu og fögru veiðisvæði er ákaflega gefandi. Eins hef ég gaman af að taka í spil og hef tvisvar verið bikarhafi hjá Bridsfélagi Borgarfjarðar.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Sesselja Þorbjörg Þorsteinsdóttir, f. 20.12. 1936, bóndi. Foreldrar: Þorsteinn Gunnlaugsson, f. 11.3. 1985, d. 14.10. 1958, og Þórdís Ólafsdóttir, f. 27.8. 1893, d. 27.1. 1970, bændur á Ölviskrossi í Hnappadal.

Börn: 1) Steinar Þór Snorrason (stjúpsonur), f. 7.5 1957, lögreglumaður í Kópavogi. Maki: Jóhanna Lára Óttarsdóttir, f. 1959, skrifstofumaður. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. 2) Sigríður Jóna Sigurðardóttir, f. 3.5. 1965, bóndi í Hraunholtum. Maki: Ásberg Jónsson, f. 1964, bóndi í Hraunholtum. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 3) Ásdís Ólöf Sigurðardóttir, f. 27.2. 1967, bóndi í Eiðhúsum. Maki: Siguroddur Pétursson, f. 1969, bóndi í Eiðhúsum. Þau eiga eitt barn. 4) Jódís Sigurðardóttir, f. 28.3. 1968, starfsmaður í Fákaseli. Hún á tvö börn og þrjú barnabörn. 5) Elísabet Sigurðardóttir, f. 28.3 1968, leikskólakennari í Danmörku. Maki: Guðlaugur Þór Tómasson, f. 1972, umboðsmaður fótboltamanna. Þau eiga tvö börn. 6) Helgi Sigurðsson, f. 8.11. 1969, starfsmaður í matvælavinnslu í Danmörku. Maki: Addý Guðjóns Kristinsdóttir, f. 1978, talmeinafræðingur í Danmörku. Þau eiga þrjú börn. 7) Guðmundur Marteinn Sigurðsson, f. 25.4. 1971, verkstjóri hjá GA Smíðajárni. Maki: Sólveig Einarsdóttir, f. 1971, hjúkrunarfræðingur. Þau eiga tvö börn.

Systkini: Aðalheiður Helgadóttir, f. 10.5. 1939, d. 28.5. 2003, kennari í Reykjavík; Guðmundur Helgason, f. 30.4. 1943, trésmiður, slökkviliðsmaður og trillukarl í Hvalseyjum; Skúli Magnússon, f. 5.10. 1944, d. 8.5. 2003, var ættleiddur af móðursystur hans, Jódísi Sigurðardóttir, og hennar manni. Trésmiður og fasanabóndi á Tókastöðum. Hálfsystir sammæðra: Inga Sigurlaug Þorsteinsdóttir, f. 1.11 1934, d. 26.6. 2007, hjúkrunarkona í Reykjavík.

Foreldrar: Sigríður Guðbjörg Kaprasía Sigurðardóttir, f. 22.1. 1917, d. 6.5. 1993, húsmóðir á Grund í Kolbeinsstaðahreppi og Reykjavík, fiskvinnslukona og fiskmatsmaður, og Helgi Guðjón Guðmundsson, f. 9.6. 1898, d. 8.2. 1965, bifvélavirki og bifreiðarstjóri á Grund og í Reykjavík.