Skýrsla Starfshópur kynnti niðurstöður skýrslu sinnar árið 2013.
Skýrsla Starfshópur kynnti niðurstöður skýrslu sinnar árið 2013. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svonefnda, telur að rök séu fyrir endurupptöku á máli Sævars Ciesielski, Tryggva Rúnars Leifssonar og Alberts Klahn Skaftasonar.

Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svonefnda, telur að rök séu fyrir endurupptöku á máli Sævars Ciesielski, Tryggva Rúnars Leifssonar og Alberts Klahn Skaftasonar. Áður hafði hann mælt með því að mál Guðjóns Skarphéðinssonar yrði tekið upp aftur.

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski í tengslum við endurupptöku mála þeirra, sagði í samtali við mbl.is í gær það vera mjög ánægjulegt og mikilvægt að hægt yrði að taka þessi mál upp að nýju.

„Tilraunir hafa verið gerðar til þess, en ný gögn og sjónarmið hafa verið lögð fram og á það er fallist af hálfu setts ríkissaksóknara. Bæði dómfelldi og saksóknari leggja til endurupptöku. Það er þá endurupptökunefndar að ákveða hvað á að gera,“ segir Lúðvík.

Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, var að vonum ánægður með niðurstöðuna en sagðist þó ekki hafa gert ráð fyrir öðru en að niðurstaðan yrði þessi.

Það er löngu tímabært að afmá þennan smánarblett af íslenska réttarkerfinu,“ sagði Hafþór í samtali við mbl.is í gær en hann hefur barist fyrir því að málið verði tekið upp aftur frá því Sævar lést árið 2011.

gunnardofri@mbl.is