Skúli Þór Jónsson fæddist í Melum á Kópaskeri hinn 21. júlí árið 1941. Hann varð bráðkvaddur á Húsavík hinn 24. júní 2015.
Skúli var sonur hjónanna Jóns Árnasonar frá Bakka og konu hans Kristjönu Þorsteinsdóttur frá Litlu-Reykjum í Reykjahverfi. Skúli Þór var fimmti í röð sjö systkina. Eldri en hann eru þau Þorsteinn, Ástfríður, Sveininna og Árni (látinn) og yngri eru þau Hólmfríður og Hafliði.
Skúli Þór ólst upp í Melum og bjó nær alla tíð á Kópaskeri. Hann gekk í barnaskóla á Snartarstöðum. Hann fór síðan í Héraðsskólann á Laugum þar sem hann lauk landsprófi vorið 1959. Ungur að árum byrjaði hann að vinna ýmis störf til lands og sjávar.
Eftirlifandi eiginkona Skúla er Heiðrún Hallgrímsdóttir frá Sultum í Kelduhverfi. Þau gengu í hjónaband á Snartarstöðum hinn 16. ágúst árið 1964. Þeim varð tveggja barna auðið: 1) Jón Skúli, f. 25. maí 1964. Eiginkona hans er Sunan Toplod og eiga þau þrjú börn, Chanee, Loga og Alex. 2) Anna, f. 8. september 1965, d. 10. október 2013. Eftirlifandi eiginmaður Önnu er Jón Finnbogason frá Fáskrúðsfirði og eru börn þeirra Finnbogi og Edda Heiðrún.
Skúli stundaði sjóinn að nokkru marki lengi vel og reri á grásleppu á vorin. Hann hóf ungur störf á Vélaverkstæði KNÞ á Kópaskeri og starfaði þar lengi og eins þótt annar aðili tæki við rekstri. Skúli Þór keypti verkstæðið ásamt tveimur öðrum í lok síðustu aldar og rak það, Vélaverkstæðið Röndina, þar til fyrir stuttu. Fluttu þau Skúli Þór og Heiðrún til Húsavíkur um svipað leyti. Skúli Þór var atkvæðamikill í félagsmálum á Kópaskeri og nærsveitum og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var lengi slökkviliðsstjóri á Kópaskeri og var fyrsti umsjónarmaður sjúkrabílsins, sem kom til Kópaskers árið 1980. Hann var mjög virkur í Kiwanisklúbbnum Faxa og Rauðakrossdeild héraðsins. Var umboðsmaður fyrir Sjóvá, OLÍS og happdrætti DAS. Skúli var formaður sóknarnefndar Snartarstaðasóknar á árunum 2009-2014.
Útför Skúla Þórs fer fram frá Snartarstaðakirkju í dag, laugardaginn 4. júlí 2015, og hefst athöfnin kl. 14.
Það var mikið áfall að fregna andlát tengdaföður míns Skúla Þórs Jónssonar, allt virtist í himnalagi þegar kallið kom. Eftir sitjum við hnípin sem þekktum þennan öðling og vitum að lífið verður aldrei eins. Skúla kynntist ég þegar við Anna dóttir hans vorum að draga okkur saman og tóku þau Heiðrún mér strax ákaflega vel. Hófust þar kynni sem aldrei bar skugga á þau 30 ár sem okkur Önnu auðnaðist að vera saman. Ótal margar áttu þær eftir að verða ferðarnar frá Fáskrúðsfirði norður á Kópasker og alltaf tilhlökkun að mæta á Skerið til þeirra hjóna og margt brallað. Ófáar voru einnig ferðarnar að Sultum í Kelduhverfi þar sem þau hjónin áttu sælureit í fögru umhverfi. Skúli var án efa besti maður sem ég hef kynnst að öðrum ólöstuðum, hafði einstaklega góða nærveru, örlátur, greiðvikinn og ráðagóður um alla hluti. Ég held að öllum sem kynntust honum hafi líkað vel við hann, bæði börnum og fullorðnum. Börnum sínum og barnabörnum reyndist hann ákaflega vel og vildi allt fyrir þau gera. Í þrautagöngu veikinda dóttur og dótturdóttur var Skúli kletturinn í lífi okkar allra, án hans hefði allt orðið erfiðara.
Aldrei verður þeim hjónum fullþakkaður sá stuðningur sem þau sýndu þegar dóttir þeirra lá banaleguna og hyldýpi sorgar og örvinglunar blasti við. Að leiðarlokum situr eftir þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo góðum dreng. Hafi hann þökk fyrir allt og allt. Heiðrúnu, Jóni, Sunan og barnabörnum færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Jón Finnbogason.
Við mættum á mánudeginum og sátum hjá þeim í góðu yfirlæti þar sem góðgæti var á borðum eins og ávallt þegar þau voru heimsótt.
Þau sýndu okkur nýju íbúðina með stolti og tóku fram að nú stæði til að mála húsið að utan, svo var Skúli Þór búinn að ákveða að byggja pall fyrir framan íbúðina og sýndi okkur hvernig hann ætlaði að hafa hann. Aðspurður hvort hann væri búinn að jafna sig eftir síðustu aðgerð og hvort hann væri ekki stirður eftir að hafa ekki mátt hreyfa sig svo lengi svaraði hann því til að hann væri heldur betur búinn að jafna sig og væri fær í flestan sjó. Færi reglulega út að ganga og svo væru næg verkefni framundan. Í framhaldinu stakk hann upp á því að við færum í smábíltúr, svona rétt út á nes að skoða nýja veitingastaðinn sem verið væri að byggja niðri við sjávarmál. Þetta var eins og fyrir nokkrum árum, þegar þau bjuggu enn á Kópaskeri og við vorum hjá þeim í góðu yfirlæti, „eigum við ekki að skreppa í smábíltúr“ og þá var farið fyrir Sléttu, Raufarhöfn og svo farin ný leið, svokölluð Hófaskarðsleið, til Þórshafnar, við yrðum að skoða hana. Þetta kallaði hann bara smábíltúr, fyrir utan allan þann fróðleik sem við fengum að njóta. Hann var með betri leiðsögumönnum. Þegar við kvöddumst þetta kvöld sagði Skúli að þetta væri ómögulegt svona, við yrðum að hittast fljótlega aftur þegar sumarið og sólin væru komin og gera eitthvað meira. Sumarið kom og sólin og þegar hún hafði náð hámarki og gott betur berast okkur þær harmafregnir að Skúli Þór sé látinn.
Það var eins og tíminn stöðvaðist og það dimmdi yfir. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem brutust fram. Eftir að þær fjöruðu út komu fram gleðitilfinningar, gleðin yfir öllum þeim minningum sem Skúli Þór hafði skapað í hjörtum okkar og finnst okkur, sem systur og mági, það forréttindi að hafa fengið að ganga með þeim öðlingsmanni Skúla Þór hans æviskeið og eiga með honum gleðistundir bæði hér fyrir sunnan og ekki síst norður á Kópaskeri. Það hlaut að koma að því að Skúli og Heiðrún flyttu nær sínum nánustu og eftir það var erfitt að ímynda sér Kópasker án Skúla Þórs, svo sterk voru tengsl hans við æskustöðvarnar. Þótt það sé komið að tímamótum og Skúli Þór hafi skroppið í bíltúr einn síns liðs er engin ástæða til að kveðja, því Skúli Þór og allar minningarnar um hann munu fylgja okkur það sem eftir er. Kæra Heiðrún, við viljum votta þér, fjölskyldu þinni, öllum ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð. Minningar um yndislegan mann munu ávallt lifa.
Hólmfríður og Jón H.
Ég var bara átta ára þá og man ekki betur en hann Skúli hafi alltaf verið í fjölskyldunni. Alltaf hægt að leita til hans með allt stórt og smátt og það gerðum við í fjölskyldunni óspart, enda öllu kvabbi tekið með sama hlýja brosinu. Samverustundir heima í sveitinni okkar við að koma hlutunum í betra horf eða bara að gera sér glaðan dag, dansa í hlöðunni, syngja saman, borða saman, já borða saman, þá sagði Skúli: „Þetta er ekki amalegt.“ Neikvæðni var ekki til í hans fari. Það eru forréttindi að hafa þekkt slíkan mann. Við hittumst í hinsta sinn í maí síðastliðnum við matjurtagarðinn heima.
Við hjónin að pota niður rófufræi. Heiðrún og Skúli með rófufræ líka og nokkrar forræktaðar kartöflur í mjólkurfernum. 23. júní kom ég aðeins við í Sultum, sá að hjólhýsið þeirra var komið á reitinn og gladdist mjög því ég var viss um að þá myndum við hittast um næstu helgi. Daginn eftir um miðjan dag lagði hann Skúli okkar af stað í gönguferð í dásamlegu veðri, já sumarið var loksins komið, þá kom kallið, lokaútkall. Þeir eru ekki margir sem ná fullorðinsaldri og fara í gegnum lífið án þess að vera nokkurn tímann hallmælt, en þannig tel ég að Skúli minn hafi skilið við þetta jarðlíf. Virtur og dáður af öllum. Þau hjón þurftu að þola það sem enginn á að þurfa að þola, að fylgja barni sínu til grafar. Yndisleg dóttir þeirra, Anna, var jarðsungin frá Snartarstaðakirkju hinn 19. október 2013, aðeins 48 ára. Það voru þung spor.
Nú verður kletturinn okkar sem aldrei brást lagður til hinstu hvílu.
Skúli Þór verður jarðsunginn frá Snartarstaðakirkju, kirkjunni sem honum þótti svo óendanlega vænt um. Þakka þér, kæri mágur, fyrir hverja stund sem við höfum átt saman.
Fyrir traustið og hlýjuna. Fyrir brosin og tárin. Fyrir elskusemi þína okkur hjónum, dætrum og barnabörnum til handa.
Elsku Heiðrún mín, nú tínum við fram allar bestu minningarnar og yljum okkur við þær. Við Freyr, Elva, Ása Björg og þeirra fjölskyldur sendum þér og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Minning um einstakan mann lifir.
Friðbjörg Hallgrímsdóttir (Vava).
Skúli var einstakur maður, það vita allir sem hann þekktu. Þvílíkt ljúfmenni er vart hægt að finna. Alltaf stutt í hláturinn og glettnina. Skúli var mér einstakur frændi. Tók mér alltaf opnum örmum, hafði einstaklega gaman af að fylgjast með því sem við Anna brölluðum saman í æsku. Þegar aðrir fussuðu þá glotti Skúli. Hann hafði einstakt jafnaðargeð og var kletturinn sem allir gátu treyst á. Hann rétti ávallt hjálparhönd með bros á vör.
Þær voru ófáar ferðirnar sem ég fór norður bæði sem barn og síðar með fjölskyldu mína. Við reyndum ávallt að koma við hjá Skúla sem opnaði heimili sitt fyrir okkur, bauð mat og gistingu en það sem ég sótti umfram allt í var nándin við þennan einstaka frænda. Það fylgdi honum svo mikil gleði og hlýja.
Minningarnar munu lifa um aldur og ævi og er ég endalaust þakklát fyrir þær stundir sem ég fékk með þessum einstaka frænda mínum. Hans verður sárt saknað, alla tíð. Ég votta fjölskyldu Skúla mína dýpstu samúð, hugur minn er hjá ykkur öllum á þessum erfiðu tímum.
Lára.
Ég man vel þegar hann fæddist. Ég var bara fjögurra ára og var mjög hissa að sjá þetta litla kríli. Ég passaði hann stundum þegar hann komst á legg. Hann var svo sætur með sinn krullaða koll. Það var gaman að alast upp á Kópaskeri, að leika sér í fjörunni og fara bátsferðir með pabba og afa. Skúli var svolítill slysarokkur. Meðal annars datt hann tvisvar í sjóinn af bryggjunni. Í seinna skiptið óð hann í land, karlmennskan uppmáluð aðeins sex ára gamall, og varð ekki meint af.
Skúli fór í Laugaskóla en var að öðru leyti sjálfmenntaður. Fljótt kom í ljós hvað hann var mikill snillingur í höndunum. Bílaviðgerðir og hverskyns vélar og röralagnir léku í höndum hans. Hann gat gert við allt, enda rak hann lengi bílaverkstæðið Röndina. Skúli var hvers manns hugljúfi. Það geislaði af honum gleðin og hlýjan sem var smitandi, enda átti hann marga vini. Það er skarð fyrir skildi eftir slíkan mann.
Mesta gæfa Skúla var að giftast sinni yndislegu konu, Heiðrúnu Hallgrímsdóttur. Þau settust að á Kópaskeri, fyrst heima hjá foreldrum okkar á efri hæðinni á Melum, en síðan byggðu þau nýtt hús. Hann var sá eini af okkur systkinunum sjö sem bjó áfram á Kópaskeri, allt þar til hann flutti til Húsavíkur fyrir rúmu ári. Þau eignuðust tvö börn, Jón Skúla og Önnu, en urðu fyrir þeirri sáru sorg haustið 2013 að missa dóttur sína aðeins 48 ára gamla. Það er skammt stórra högga á milli. Ég vil þakka bróður mínum allar góðar samverustundir. Elsku Heiðrún, Jón Skúli og fjölskylda og Jónsi og fjölskylda, við hjónin vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Megi guð og gæfan fylgja ykkur.
Sveininna Jónsdóttir.