Gerðardómur Deiluaðilar í kjaradeilu ríkis og Bandalags háskólamanna komu saman með gerðardómi í gær í húsnæði ríkissáttasemjara.
Gerðardómur Deiluaðilar í kjaradeilu ríkis og Bandalags háskólamanna komu saman með gerðardómi í gær í húsnæði ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Kristinn
Deiluaðilar í kjaradeilu ríkisins og BHM hafa frest til föstudags til þess að skila af sér gögnum, greinargerðum og kröfum til gerðardóms.

Deiluaðilar í kjaradeilu ríkisins og BHM hafa frest til föstudags til þess að skila af sér gögnum, greinargerðum og kröfum til gerðardóms. Þetta segir Garðar Garðarsson, nýskipaður formaður dómsins, en fyrsti formlegi fundur gerðardóms var haldinn í húsnæði ríkissáttasemjara í gær þar sem deiluaðilum var gert kunnugt um þetta.

Næsti fundur á föstudaginn

Næsti fundur hefur verið boðaður á föstudaginn í næstu viku að sögn Garðars, þar sem deiluaðilar skila gögnum og rökstuðningi til dómsins. Garðar segir að í framhaldinu fari dómurinn yfir kröfurnar og reyni sættir með aðilum. „Við teljum að þrátt fyrir að það sé ágreiningur á milli þeirra, séu atriði sem þeir eru um það bil sammála um,“ segir Garðar og bætir við að dómurinn telji best að deiluaðilar nái sem lengst saman í kjaradeilunni.

„Svo á það eftir að koma í ljós hvort deilendur deila þeirri skoðun okkar,“ segir Garðar en reglur gerðardóms gera ráð fyrir að þrátt fyrir að dómurinn sé tekinn til starfa geti aðilar náð samkomulagi sín á milli um tiltekin atriði, þess vegna um allan kjarasamninginn ef vilji stendur til þess. Gerðardómur þarf að komast að niðurstöðu fyrir 15. ágúst nk.

ash@mbl.is