Heima Einar Ben reisti Höfða árið 1909 og bjó í þrjú ár í húsinu. Hann mun standa við hlið hússins um ókomna tíð. Kostnaður var áætlaður 15 milljónir.
Heima Einar Ben reisti Höfða árið 1909 og bjó í þrjú ár í húsinu. Hann mun standa við hlið hússins um ókomna tíð. Kostnaður var áætlaður 15 milljónir. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
„Þetta er mun eðlilegri staðsetning fyrir styttuna.

„Þetta er mun eðlilegri staðsetning fyrir styttuna. Hún er loks komin úr skugganum við Miklubraut og á stað þar sem fleiri munu vonandi njóta,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem lagði til í borgarráði árið 2014 að styttu Ásmundar Sveinssonar af Einari Benediktssyni yrði fundinn nýr staður í borginni. Styttan var flutt að Höfða í vikunni en stóð áður á Klambratúni, þar sem fáir tóku eftir henni þar sem hún stóð falin bak við hávaxin tré.

Einar reisti Höfða árið 1909 og bjó þar með fjölskyldu sinni frá 1914 til 1917. Er Höfði þó aðeins eitt fjölmargra húsa í Reykjavík sem skáldið tengist á einhvern hátt.

Þann 31. október í fyrra voru 150 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar. Sama dag var hálf öld frá því að styttan var afhjúpuð. Styttan snýr í áttina að Borgartúni þannig að þegar ekið er niður Félagstún blasir hún við. Ekki var hægt að finna styttunni stað nær húsinu vegna fornleifa.

Kostnaðaráætlun við viðgerð, flutning og frágang við styttuna á nýjum stað var 15 milljónir króna. Reykjavíkurborg leggur til helming kostnaðar á móti fjármagni sem áhugahópur um styttuna safnaði.

Ekki hefur verið ákveðið hvað eigi að koma í stað Einars á Klambratúni en hverfisráði Miðborgar og Hlíða hefur verið falið að koma með tillögu í samráði við íbúa að framtíðarlausn. benedikt@mbl.is