Höfuðborgarsvæðið 2040 er áhugaverð og heildstæð framtíðarsýn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um hvernig höfuðborgarsvæðið eigi að þróast næstu 25 árin.

Höfuðborgarsvæðið 2040 er áhugaverð og heildstæð framtíðarsýn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um hvernig höfuðborgarsvæðið eigi að þróast næstu 25 árin. Áætlunin er óbindandi stefnumörkun sveitarfélaganna sjö um að stilla saman strengi í skipulagsmálum. Spár benda til að á þeim 25 árum sem horft er til muni íbúum í sveitarfélögunum sjö fjölga um 70.000. Það er álíka fjöldi og býr í dag í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði til samans. Fjölgunin verður því mjög mikil, og myndi kalla á gríðarlega uppbyggingu umferðarmannvirkja og kalla á 130 þúsund ný bílastæði ef fjölgun bíla myndi haldast í hendur við fólksfjölgunina.

Mikil áhersla er þess vegna lögð á Borgarlínuna, hágæða almenningssamgöngukerfi sem verður ætlað að tengja kjarna sveitarfélaganna. Sveitarfélögin vilja eðlilega ekki verða risavaxin bílastæði og er vel að sjá þau taka höndum saman um að taka höfuðborgarsvæðið í átt frá fjölgun úthverfa yfir í að styrkja bæði núverandi úthverfi og hverfi miðsvæðis. Hugmyndirnar sem settar eru fram eru í grunninn góðar, en skortir átakanlega tvennt.

Borgarlínan á að styðjast annaðhvort við léttlestir, sem minna óneitanlega mikið á sporvagna, eða hraðvagna, strætisvagna sem „hugsa“ að sumu leyti eins og lestir – með fáum biðstöðvum og komast leiðar sinnar í umferðinni óháð því hversu þung önnur umferð er. Í ljósi þess hversu langan tíma það tæki að koma upp léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu – eins skemmtilegt og spennandi og það kynni að vera – þá er tími lestanna liðinn. Margar af bestu borgum heims, Vín, New York, London og París, styðjast að miklu leyti við lestasamgöngur. Þar er hins vegar margra áratuga hefð fyrir notkun lesta og byggð mun þéttari. Þéttingaráætlanir borgaryfirvalda í Reykjavík ganga vonandi eftir, sem mun skila betri byggð, en lestarsamgöngur eru eftir sem áður ekki raunhæfar, sérstaklega þegar hraðvagnar gætu skilað nánast sama árangri, nema með mun minni tilkostnaði.

Hinn veikleikinn í áætluninni er hversu mikið er horft til framtíðar með augum nútíðar. Í þessu samhengi er rétt að ítreka að áætlunin tekur til 25 ára. Fyrir 25 árum var árið 1990. Davíð Oddsson var enn borgarstjóri og internetið var ennþá bara bóla. Maður hefði þurft vænan bakpoka til að bera allar þær græjur sem nú rúmast í vasanum í formi snjallsíma. Eftir 25 ár er ekki ólíklegt að sjálfkeyrandi bílar muni hafa því sem næst gert ökumenn óþarfa ásamt bílastæðum, baráttunni gegn ölvunarakstri og hraðakstri í íbúðahverfum.

Í áætluninni er sett fram það markmið að í lok þess tíma sem hún nær til verði hlutdeild almenningssamgangna í ferðum á höfuðborgarsvæðinu 12% og hlutur gangandi 30%. Þessi 30% eru ágætis markmið. Ef sjálfkeyrandi bílar verða á hinn bóginn búnir að ryðja sér til rúms væri rétt að færa þessi 12% í 70%, því enginn myndi vilja eiga og reka bíl sem stendur kyrr 95% líftíma síns þegar hann getur fengið lánað nokkurs konar ökumannslausan leigubíl hvar og hvenær sem er.

gunnardofri@mbl.is

Gunnar Dofri

Höf.: Gunnar Dofri