„Þetta gengur hægt og sígandi. Við erum nú búin að afgreiða skjöl frá 24. apríl,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, en starfsmenn þar á bæ vinna nú hörðum höndum að því að afgreiða þau skjöl sem söfnuðust upp á meðan verkfall Bandalags háskólamanna stóð yfir.
Er vinna við afgreiðslu húsaleigusamninga lengra á veg komin, eða til 11. júní, að sögn Bergþóru. „Þetta eru aðeins auðveldari skjöl og erum við með laganema í þeirri vinnu,“ segir hún, en stefnt er að því að ljúka afgreiðslu þeirra mála fyrir 16. júlí.
Átta vikna biðtími?
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir afar brýnt að flýta afgreiðslu þeirra mála sem nú liggja á borði sýslumanns enda bætast dag hvern við sífellt fleiri erindi. „Okkur er sagt að afgreiðsla skjala geti tekið allt að sex til átta vikur eins og staðan er núna,“ segir Ingibjörg og heldur áfram: „Það er í raun uppi algert ófremdarástand í þessum málum sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.“Aðspurð segir Ingibjörg talsvert mikla hreyfingu vera á fasteignamarkaði hér á landi. „Það er bæði mikið framboð og eftirspurn á markaði. Og er ég bjartsýn á að það eigi eftir að aukast enn frekar á næstu mánuðum.“
Hjalti Andrason, fræðslustjóri Matvælastofnunar, segir uppsöfnun verkefna vegna verkfallsaðgerða hafa verið mesta á inn- og útflutningsskrifstofu. „Þar biðu um 300 sendingar afgreiðslu og það er nú búið að afgreiða þær allar.“