Harpa Sigtryggsdóttir fæddist í Reykjavík 23. september 1994. Hún lést á Seyðisfirði 23. júní 2015.

Foreldrar hennar eru Páll Sigtryggur Björnsson, f. 10. október 1962, og Þorgerður Magnúsdóttir, f. 16. nóvember 1960. Systur Hörpu eru Anika Sigtryggsdóttir, f. 3. júlí 1992, og Sara Lind, f. 12. janúar 1983.

Útför Hörpu fer fram í Seyðisfjarðarkirkju í dag, laugardaginn 4. júlí 2015, kl. 14.

Elsku fallega stelpan mín. Ég vil byrja á að segja þér að ég sé ekki eftir neinu. Af þeim hvirfilbyl tilfinninga sem fokið hefur yfir mig síðustu vikuna er sektarkennd ekki ein þeirra. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem systur, fyrir að hafa getað sagt þér hvað ég væri stolt af þér, hvað ég elskaði þig og hvað þú skiptir mig miklu máli. Fyrir að hafa komið aftur heim í sumar og átt síðasta mánuðinn með þér.

En auðvitað vildi ég að hlutirnir væru öðruvísi. Ég er ekki undirbúin, ég er ekki tilbúin í að kveðja þig. Ég vil ekki sleppa þér. Ég var að fá þig aftur. En ég verð að gera það, því ef ég geri það ekki – ef ég sætti mig ekki við að þessi martröð er nú veruleiki minn – þá mun ég aldrei komast yfir þetta.

Það sem ég óska að ég hefði eytt fleiri stundum í fanginu á þér, að ég gæti horft á þig brosa og gleymt mér í fegurð þess. Að þú tækir í höndina á mér og í þetta skiptið myndi ég aldrei sleppa þér.

Þú kenndir mér svo margt. Þú kenndir mér að elska, að hata, að fyrirgefa og að sleppa takinu. Þú kenndir mér að lifa í dag án þess að kvíða morgundeginum. Þú ert kannski ekki ennþá hérna til að þerra tár mín, til að fá mig til að brosa þrátt fyrir að við séum báðar sorgmæddar eða til að draga mig aftur upp á jörðina þegar ég hef sokkið of langt niður. Þú andar kannski ekki og lifir eins og ég geri en þú munt aldrei yfirgefa huga minn né hjarta.

Ég veit ekki hvað ég hefði gert án þín. Ég veit ekki hvað ég mun gera án þín. Þú færðir mér gleði og þú færðir mér hamingju. Þú gladdir alla í kringum þig þótt þú gleddist ekki sjálf. Ég lofa að láta þetta ekki eyðileggja mig. Ég er svo stolt af þér. Ég elska þig, ég sakna þín og ég mun vonandi sjá þig aftur.

Þín stóra systir,

Anika Sigtryggsdóttir.

Elsku Harpa. Okkur langar að minnast þín með okkar fátæklegu orðum. Þegar við hugsum um þig kemur fyrst upp í hugann hláturinn, brosið og góðmennskan. Þú varst með hlátur sem við munum aldrei gleyma, bros sem gat lýst upp heilt herbergi og hlýja nærveru sem allir fundu fyrir. Þú varst vinkona dóttur okkar, hennar Þórdísar, og ég man ekki eftir ósætti ykkar á milli. Á einhverjum tímapunkti skildi leiðir eins og gerist og gengur en aldrei slitnaði vinakeðjan milli ykkar. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér á þinni stuttu ævi. Þú munt ávallt eiga stað í hjarta okkar. Minningin um þig yljar okkur en um leið finnum við fyrir söknuði.

Hvíldu í friði.

Nú máttu hægt um heiminn líða,

svo hverju brjósti verði rótt,

og svæfa allt við barminn blíða,

þú bjarta heiða júlínótt.

Hver vinur annan örmum vefur

og unga blómið krónu fær.

Þá dansar allt, sem hjarta hefur,

er hörpu sína vorið slær.

(Þorsteinn Erlingsson)

Megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum, kæra fjölskylda. Gerða, Sissi, Anika og Sara

Elfa, Guðmundur, Sif,

Þórdís, Atli Gunnar

og Jóna.

Ég fatta þetta ekki ennþá. Þú ert farin og kemur aldrei aftur til mín. Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tímann þurft að sætta mig við. Hvernig á ég að halda áfram eftir að hafa misst þig, heimsins bestu vinkonu, úr höndunum á mér? Ég sá þig bara klukkutíma áður en þetta skeði en lét mér nægja að veifa þér því mér datt ekki í hug að þetta yrði í seinasta skipti sem ég sæi þig. Vá hvað ég vildi að ég hefði bara stoppað bílinn og stokkið út til að knúsa þig í eitt almennilegt skipti fyrir öll.

Mér líður eins og ég hafi tapað helmingnum af mér eitthvað út í myrkrið því það þekkir mig enginn eins og þú. Þú náðir alltaf svo vel til mín og ég veit að ég gat treyst þér fyrir öllu sem mig vantaði að segja þér frá og þú vissir vel að það sama gilti fyrir mig. Allur einkahúmorinn okkar, allir rúntarnir okkar og allar þessar yndislegu minningar sem ég á um okkur saman munu fylgja mér alla ævi og ég mun aldrei nokkurn tímann gleyma þér.

Ég man ennþá svo vel eftir því þegar ég sagði þér að heimur minn myndi hrynja ef þú færir frá mér og ég er ekki frá því að hann sé hruninn. Svona falleg og einlæg sál eins og þú, elsku yndislegasta Harpa mín, á bara ekki að vera farin af þessari jörð svona alltof snemma.

Jafet Sigfinnsson.

Elsku besta Harpa mín.

Þú varst besta vinkona mín frá leikskólaaldri. Við eyddum nánast öllum dögum saman í grunnskóla og þegar við vorum komnar í menntaskóla bjuggum við saman á vistinni og vinátta okkar blómstraði með hverju árinu. Síðasta árið fórum við samt sem áður að fjarlægjast hvor aðra en eins og ég sagði eitt gott kvöld við þig á Lárunni að þrátt fyrir allt unglingadrama og vesen sem kemur upp hjá öllum, þá myndi mér alltaf þykja vænt um þig og ef það hefði ekki verið fyrir þig og okkar stundir saman, væri ég ekki manneskjan sem ég er í dag. Ég er svo glöð að hafa getað sagt þetta við þig áður en þú fórst frá mér. Ég mun sakna allra skemmtilegu, steiktu tímanna með þér, einkahúmorsins og sérstaklega gömlu kalla puttanna þinna eins og við kölluðum þá. Það er svo mikið sem mig langar að segja við þig og fæ alltaf löngun til að senda þér skilaboð eða hringja í þig og rifja upp gamlar minningar. En nú þarf ég bara að halda þessum minningum, og þér, á lífi í hjarta mínu.

En eins og við vorum vanar að segja þegar við týndum hvor annarri: Sanka, Sanka!

Ingibjörg Lárusdóttir.

Elsku Harpa. Gleymi aldrei þínu fallega brosi og yndislega hlátri.

Við unnum saman þó nokkuð mikið og betri tíma er ekki hægt að finna. Það var svo gott að hafa þig á öxlinni að kíkja í pottana og athuga hvort þú gætir hjálpað...

Þú sagðir oft að þú værir eins og skugginn minn í eldhúsinu.

Þú yndislega fallega stúlka ert farin frá okkur og við hin sitjum með tárin í augunum alla daga.

Þín er sárt saknað og takk fyrir okkar stuttu og góðu kynni.

Hvíl í friði.

Þrúður og

Guðjón (Nonni).