Fréttaskýring
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, lagði fast að íbúum lands síns í gær að hunsa skelfingaráróður Evrópusambandsins og kjósa „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fer á morgun, sunnudag.
Vonast hann til að kveikja eld í brjósti Grikkja sem margir hverjir óttast aðvaranir hinna ýmsu leiðtoga Evrópusambandsins, um að neikvæð niðurstaða í atkvæðagreiðslunni muni þýða útgöngu Grikklands úr myntbandalagi evrunnar. Undanfarna daga hafa þeir þurft að horfast í augu við gjaldeyrishöft sem hafa takmarkað daglegar úttektir í hraðbönkum við 60 evrur, eða sem nemur tæpum níu þúsund krónum.
Er samningsboðið runnið út?
Tvær síðustu skoðanakannanirnar sem opinberaðar voru í gær sýna að Grikkir eru afar tvístígandi um hvernig skuli svara spurningunni sem ríkisstjórnin varpaði til þeirra. Könnun Alco stofnunarinnar sýndi þannig 44,8% stuðning við „já“ en 43,4% svarenda vildu svara „nei“.Og svo er það annað mál. Talsmenn myntbandalagsins hafa oft og ítrekað sagt að samningsboðið sem vísað er til í spurningunni hafi runnið út síðastliðinn þriðjudag, sama dag og Grikklandi mistókst að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,5 milljarða evra. Vilja þeir þannig meina að Grikkir gangi að kjörborðinu til að svara spurningu sem, þegar öllu er á botninn hvolft, skiptir engu máli.
Juncker varar við afleiðingum
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, virðist ekki vera sammála þessari túlkun. Að minnsta kosti sé litið til þeirra orða sem hann hefur látið falla varðandi atkvæðagreiðsluna. Hefur Juncker varað við því að staða Grikklands við samningaborðið muni „versna svo um munar“ verði niðurstaðan neikvæð. Jafnvel þótt Grikkir segðu „Já“, væru erfiðar samningaviðræður framundan, bætti hann við.
Framtíð ríkisstjórnarinnar
Gríski fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis hefur lýst því yfir að hann hyggist segja af sér verði „já“ niðurstaða atkvæðagreiðslunnar. Tsipras hefur aftur á móti verið óljós í afstöðu sinni, og aðeins sagt að hann muni virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og taka „þau nauðsynlegu skref sem vísað er til í stjórnarskránni“.Varnarmálaráðherra landsins, Panos Kammenos, vakti mikið umtal í gær eftir að hann lét þau ummæli falla að hlutverk hersins einskorðaðist ekki við að verja landamærin, heldur einnig að tryggja stöðugleika innanlands. Fréttaritari breska dagblaðsins The Guardian segir að Aþenubúar spyrji sig hvað ráðherrann hafi átt við með ummælunum, en mörgum er enn í fersku minni þegar stjórn hersins framdi valdarán árið 1967.
Virkar betur í Sýrlandi
Í friðsælu Eyjahafinu hvílir gríska eyjan Kos, langt fjarri þeirri ringulreið sem einkennt hefur Aþenu undanfarin misseri. Eyjan hefur hins vegar glímt við annan vanda á sama tíma, en staðsetning hennar á útjaðri Evrópu hefur gert hana að eftirsóttum áfangastað farandfólks frá fátækum og stríðshrjáðum löndum. Gjaldeyrishöftin teygja þó anga sína víða og nú virðist sem áhrifa grísku kreppunnar sé farið að gæta á eyjunni, að því er segir í umfjöllun Financial Times .Asma Drebas, ung móðir frá Damaskus sem sigldi yfir Eyjahafið fyrir tæpum tveimur vikum, hefur ekki getað borgað hótelreikninginn sinn þrátt fyrir að fjölskylda hennar hafi sent henni pening með hjálp Western Union. Útibú þeirra eru lokuð í Grikklandi og peningarnir komast því ekki til skila.
„Þetta virkar meira að segja í Sýrlandi. Hvernig á ég að borga fyrir mat og gistingu?“ spyr konan.
Marga rekið í rogastans
„Er rétt að ganga að áætluninni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lögðu fyrir myntbandalagið 25. júní sl., í tveimur hlutum sem saman mynda eina tillögu? Fyrra skjalið er titlað „Endurbætur vegna loka yfirstandandi áætlunar og fram í tímann“ og það seinna „Undirbúningsgreining á sjálfbærni skulda“.“Þannig hljómar spurningin sem fjölmargir Grikkir munu standa andspænis á morgun, sunnudag. Heimildir AFP herma að marga hafi rekið í rogastans við lestur spurningarinnar. Líklegt má þó telja að flestir muni þegar hafa gert upp hug sinn áður en í kjörklefann er komið, alveg óháð orðalagi spurningarinnar. Því er ekki víst að hún standi í mörgum þegar loks á reynir.