Pylsur á snúrunni Það var fjölmenni á tjaldsvæðinu í óundirbúinni tónlistarveislu sem nefnd var á Snúrunni.
Pylsur á snúrunni Það var fjölmenni á tjaldsvæðinu í óundirbúinni tónlistarveislu sem nefnd var á Snúrunni. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Reynir Sveinsson Sandgerði Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í Sandgerði á þessu ári eins og annars staðar á landinu.

Úr bæjarlífinu

Reynir Sveinsson

Sandgerði

Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í Sandgerði á þessu ári eins og annars staðar á landinu. Nú eru komin fjögur gistihús á tjaldsvæðinu og hafa þau nýst vel enda er tjaldsvæðið vel staðsett og stutt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nýlega hélt heimatríóið Hobb-itarnir óundirbúna æfingu á tjaldsvæðinu. Nefndu þeir dagskrána Á snúrunni enda spiluðu þeir og sungu á palli sem er undir snúrustaurum og tókst mjög vel. Margir mættu til að hlýða á skemmtilegan söng og nærast á pylsum, enda veðrið alveg einstakt

Lélegar merkingar eru á veginum sem tengir Sandgerði og Garð við veginn út á Reykjanes. Það hefur skilað litlum árangri að kvarta við Vegagerðina vegna þessara vegamerkinga en á skilti við gatnamótin stendur: Hvalsnes 11 km.

Það koma út á Reykjanes vel á annað hundrað þúsund gestir á ári. Aðeins brot af þeim kemur til Sandgerðis eftir umræddum vegi sem er nr. 45 og heitir Garðskagavegur eins og það er nú gáfulegt. Bæjaryfirvöld í Sandgerði og Garði virðast vera áhugalaus um að reyna að fá þessum merkingum breytt.

Á undanförnum árum hefur veitingastaðurinn Vitinn í Sandgerði sérhæft sig í allskonar krabbaréttum sem hafa vakið mikla athygli og fengið góða dóma. Hópar fólks koma þangað í krabbaveislu. Þess má geta að inni á veitingastaðnum eru glerbúr með lifandi kröbbum og í bakgarðinum er fjöldi kerja með lifandi kröbbum í sjó sem kemur úr borholu við húsið.

Stefán Sigurðsson, veitingamaður á Vitanum, hefur óskað eftir að merkja lendingarstað fyrir tvær þyrlur norðan við Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði. Þar er nóg pláss og stutt að ganga yfir á veitingastaðinn. Það hefur færst mjög í vöxt, að efnaðir ferðamenn heimsæki Ísland og ferðist um á þyrlum. Stefán í Vitanum hefur fengið fyrirspurnir um hvort hægt sé að koma á þyrlu til Sandgerðis og er vonandi að viðkomandi leyfi fáist.

Halldór Lárusson hefur verið ráðinn skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis. Halldór hefur verið kennari við Tónlistarskólann í 8 ár. Hann var kjörinn bæjarlistamaður Grindavíkur 2014 og tók við af Lilju Hafsteinsdóttur sem verið hefur skólastjóri í 18 ár.