Helgi Guðjón Straumfjörð Kristjánsson fæddist 18. nóvember 1939. Hann lést 17. júní 2015.
Útför Helga Guðjóns fór fram 29. júní 2015.
Árið 1996 var svolítið sérstakt ár í sögu Kiwanisklúbbsins Kötlu en þá gengu í okkar raðir nokkrir félagar, þar á meðal Helgi Straumfjörð sem nú er fallinn frá. Fljótlega kom í ljós að þetta var á við góðan lottóvinning fyrir Kötlu, því með Helga kom kraftur í klúbbinn. Lögð voru á ráðin með að efla sjóði Kötlu og þar sem Helgi var lærður kjötiðnaðarmaður lagði hann til að hafist yrði handa og halda skyldi þorrablót. Kallaði hann til liðs við sig ýmsa félaga og úr varð veglegt blót. Þetta gaf óvænta peninga í félagssjóð, þetta var síðan haldið árlega undir handleiðslu Helga og Sæunnar konu hans. Þetta efldi félagsandann þótt sumum þætti nóg um eljusemina og kraftinn í Helga. Hann t.d. mætti á alla fundi Kötlu í 10 ár samfleytt auk funda og skemmtana annars staðar í hreyfingunni. Vakti þetta athygli og fékk hann sérstaka viðurkenningu heimsstjórnar fyrir þetta. Þá var framleiðsla á Kötludúkkum fyrir Barnaspítala Hringsins honum hugleikin og vaktaði hann birgðastöðuna reglulega. Svo þegar Katla tók upp á því að færa slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu leikfangabangsa til þess að hafa í sjúkrabílunum handa börnum var Helgi farinn af stað að afla bangsa áður en menn vissu af. Það þurfti aldrei að biðja Helga tvisvar um að gera hlutina, því var oft gaman að vinna með honum að ýmsum málefnum sem komu inn á borð Kötlu. Hann tók að sér forsetaembætti Kötlu 2002 og gerði það með sóma sem og öll þau störf sem hann tók að sér. Hann var fenginn til þess að gegna embætti svæðisstjóra hjá umdæminu og skilaði því starfsári með sóma. Í minningunni þegar maður lítur yfir þessi 19 ár sem við höfum starfað saman kemur margt upp í hugann og þá það að hafa náð að kynnast þeim hjónum og starfa saman að þessu áhugamáli okkar. En nú er hann fallinn frá eftir erfið veikindi. Það er ábyggilega erfitt að finna annan eins stormsveip og Helgi var. Við Kötlufélagar vottum Sæunni og fjölskyldu okkar dýpstu samúð. Vertu sæll að sinni, Kiwanisfélagi, því það varstu svo sannarlega.
Hilmar Svavarsson.
Það sem ég kem til með að sakna allra mest eru knúsin þín.
Þú gafst mér knús, líkt og þú virkilega vildir gefa mér knús, og myndir aldrei sleppa mér.
Að búa svona langt í burtu frá þér hefur ekki alltaf verið auðvelt, en bara það að vita að þú myndir standa þarna á flugvellinum tilbúinn til að taka á móti mér, með stóra knúsið, var það besta sem ég vissi.
Þetta var meira en bara venjulegt knús, þetta var knús sem sagði mér að ég væri komin heim.
Knús sem sagði að þú myndir alltaf vera þarna og taka á móti mér og passa mig.
Það á eftir að reynast mér mjög erfitt að vita að núna munt þú ekki lengur vera þarna til að taka á móti mér þegar ég kem út úr flugstöðinni.
Ég mun aldrei aftur sjá brosið þitt eða heyra þig hlæja og ég mun aldrei fá þetta knús frá þér aftur.
Hver á núna að gefa mér þetta knús sem segir svo miklu meira en þúsund orð?
Hver á núna að minna mig á að ég er komin heim?
Þú varst, ert og munt alltaf vera elskaður.
Takk fyrir að vera afi minn.
Tárin í augum mínum get ég þurrkað í burtu.
En sársaukinn í hjarta mínu mun alltaf vera.
Hvíldu i friði kæri afi.
Kamilla Mist
Guðmundsdóttir.