Síðasta laugardagsgáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Harla margs er halur vís.
Á hafi mikil alda rís.
Alvott grasið gerir sá.
Gjarnan ver þann kalla má.
Lausn hans er:
Halur vís er sagnasjór.
Sjór mun vera bylgja stór.
Sjór á grasi áfall er.
Einnig sjór mun þýða ver.
Og síðan bætir hann við limru:
Þrasi húskarl á Heiði
hugðist fanga veiði
og upp úr sjó
eitt síli dró,
en sjálfur var hann skítseiði.
Mér þykir rétt að rifja upp erindi um Einar sjó Gíslason, sem uppi var um 1700:
Einar brúkar síðhempuna á sjóinn
sérdeilis þá hann er vætugróinn,
gyrtur bandi,
ginflakandi,
í góðu standi
ljóst úr landi róinn.
Hér kemur svo ný gáta eftir Guðmund:
Fagur margan fuglinn skreytir.
Fatnaður sá blautur er.
Ofsareiði útrás veitir.
Eitilharður bjargar sér.
Rétt er að minna á að lausnir þurfa að berast ekki seinna en á miðvikudagskvöld.
Hilmir Jóhannesson yrkir í framhaldi af vísunum um „að missa fótatakið“:
Stína hún lagaði lakið
lagðist niður á bakið
þar kom að Tóti
á titrandi fóti
og fast varð nú fótatakið.
Sigrúnu Haraldsdóttur hefur verið margt í huga þegar hún orti:
Hér vitnast undur, voðalega stórt,
sem vekur mikla furðu hér á Leir;
hve larfar ýmsir lengi geta tórt
þótt lemstraðir og úldnir séu þeir.
Sigurbjörg Hulda Jóhannesdóttir kallar þessa limru Tímaþjóf:
Alltaf er kjaftæðið eins,
ýmsir það telja til meins.
Farga menn tíma
í fésbók og síma,
fánýtt og ekki til neins.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is