Dómari Teodore Albon frá Rúmeníu dæmdi undanúrslitaleik Bandaríkjanna og Þýskalands á HM kvenna í Kanada á dögunum. Bandaríkin leika til úrslita við Japan.
Dómari Teodore Albon frá Rúmeníu dæmdi undanúrslitaleik Bandaríkjanna og Þýskalands á HM kvenna í Kanada á dögunum. Bandaríkin leika til úrslita við Japan. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dómarar Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Fyrir sex árum var ég staddur í þúsund vatna landinu, Finnlandi, nánar tiltekið í Tampere. Þar var íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu með aðsetur og tók í fyrsta skipti þátt í lokakeppni Evrópumótsins.

Dómarar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Fyrir sex árum var ég staddur í þúsund vatna landinu, Finnlandi, nánar tiltekið í Tampere. Þar var íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu með aðsetur og tók í fyrsta skipti þátt í lokakeppni Evrópumótsins.

Eftir fyrsta leik Íslands, gegn Frakklandi, skrifaði ég pistil þar sem ég vitnaði í orð bálreiðrar íslenskrar landsliðskonu en í búningsklefanum eftir leikinn sagði hún, meira en stundarhátt: „Ég vil fá dómara með typpi.“

Ástæðan var frammistaða rússneska dómarans í umræddum leik. Engum sem fylgdist með honum duldist að sú rússneska var „langt frá því að vera í þeim gæðaflokki sem hæfir úrslitakeppni Evrópumóts þar sem tólf bestu þjóðir álfunnar etja kappi. Hún hafði enga tilfinningu fyrir leiknum sem slíkum, ákvarðanir um aukaspyrnur voru tilviljanakenndar og margar sérkennilegar, sem og fleiri tilburðir hennar, og það var augljóst að hún var ekki með þann bakgrunn eða reynslu í íþróttinni sem til þarf,“ eins og ég skrifaði í umræddum pistli.

Íslenska landsliðskonan vildi fá „alvöru“ dómara þegar komið var í stærsta mót Evrópu og meira í húfi en nokkru sinni fyrr.

Vafasamar vítaspyrnur

Þetta rifjaðist upp fyrir mér eftir að hafa fylgst með heimsmeistaramóti kvenna í Kanada undanfarið, sérstaklega eftir að hafa horft á undanúrslitaleikina tvo í þessari viku. Þar voru dæmdar fjórar vítaspyrnur og þrjár þeirra voru allvafasamar, svo ekki sé meira sagt. Mér dettur hinsvegar ekki í hug að fullyrða að karlkyns dómarar hefðu ekki getað gert nákvæmlega sömu mistökin. En þetta vekur spurninguna um hvort bestu knattspyrnukonur heims eigi ekki að fá bestu dómara heims – sérstaklega þegar komið er í sjálf undanúrslitin á heimsmeistaramótinu.

Það fer ekki á milli mála að miklar framfarir hafa orðið í dómgæslu kvenna á undanförnum árum, þ.e.a.s. hvað varðar þátttöku kvenna í að dæma hjá kynsystrum sínum. Konur dæma meira og minna alla alþjóðlega kvennaleiki í dag og meðal annars alla leikina á HM í Kanada. Sama er að segja um úrslitakeppni Evrópumótsins 2009 og 2013. Ég sé stóran mun á getustigi dómaranna á HM í Kanada og dómaranna sem dæmdu á HM í Finnlandi.

Þetta er skemmra á veg komið hér á Íslandi þar sem karlar dæma ennþá flestalla kvennaleikina og konum í dómarastétt fjölgar hægt, hverju sem um er að kenna. Sú mikla aukning í þátttöku stúlkna í knattspyrnunni sem hefur átt sér stað síðustu áratugina hefur því miður ekki skilað sér í umtalsverðri þátttöku kvenna í dómgæslu.

Tveir dæmdir af konum

Með því að renna yfir þá 38 leiki sem fram hafa farið í úrvalsdeild kvenna hér á landi á þessu tímabili kom í ljós að aðeins tveir þeirra hafa verið dæmdir af konum en hinir 36 af körlum. Störf aðstoðardómara í leikjunum til þessa eru 76 og fimm þeirra hafa verið í höndum kvenna.

Á lista KSÍ yfir landsdómara, þ.e. þá sem hafa réttindi til að dæma í efri deildum meistaraflokka karla og kvenna, eru 48 karlar og fjórar konur.

Í áðurnefndum pistli í ágúst 2009 velti ég eftirfarandi fyrir mér, og geri enn: „Þá er komið að stóru og viðkvæmu spurningunni. Er rétt að eingöngu konur dæmi landsleiki kvenna, og alla leiki í úrslitakeppni stórmóta? Auðvitað er það góðra gjalda verð framtíðarsýn að þannig skuli þetta vera, og engin spurning að slíkt hefur aukið áhuga kvenna á að koma að dómgæslu. Kvendómurum hefur fjölgað ört síðustu árin, sem er eðlilegt framhald af miklum uppgangi fótboltans í röðum kvenna á undanförnum árum. En er það ekki líka réttlætismál fyrir bestu knattspyrnukonur Evrópu og heimsins að bestu dómarar Evrópu og heimsins dæmi þeirra leiki – hvort sem þeir eru kvenkyns eða karlkyns?“

Spurningin er þessi: Á að kynjaskipta algjörlega í dómgæslunni eins og þróunin er hjá UEFA og FIFA? Konur dæmi hjá konum og karlar hjá körlum? Ég er efins. Eiga ekki bestu dómararnir að dæma – hvort sem þeir eru karlar eða konur – og hvort sem um er að ræða leiki karla eða kvenna? Er þessi kynjaskipting til góðs? Ég er alls ekki viss um það.

Kona í ensku karladeildinni

Þessar fáu konur sem dæma hér á Íslandi koma líka við sögu í karlaleikjum, fyrst og fremst sem aðstoðardómarar. Við sjáum líka, t.d. á Englandi, að þar eru konur komnar í hlutverk aðstoðardómara hjá körlunum. Sian Massey-Ellis er í því hlutverki á mörgum leikjum í úrvalsdeildinni. Þar hefur hún unnið sig upp í „karlaheiminum“. Margar af fremstu konum í dómgæslu í Evrópu dæma aðallega karlaleiki í heimalöndum sínum.

Er það ekki miklu eðlilegri þróun? Er það ekki besta leiðin til að útrýma fordómum í garð kvenkyns dómara? Er það ekki sanngjarnast fyrir alla – konur sem karla?