[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.

VIÐTAL

Margrét Kr. Sigurðardóttir

margret@mbl.is

„Ég lít á fjárfestinguna sem mikilvægt skref í samfélagslegri ábyrgð okkar til að draga úr mengun í heiminum,“ segir Li Shufu, stjórnarformaður og stofnandi kínverska stórfyrirtækisins Zhejiang Geely Holding Group (Geely Group), í viðtali við Morgunblaðið. Í gær voru kynnt áform fyrirtækisins um 45,5 milljóna dollara fjárfestingu í Carbon Recycling International (CRI) næstu þrjú árin, fjárhæð sem samsvarar rúmum sex milljörðum króna.

CRI var stofnað árið 2006 með það að markmiði að framleiða umhverfisvænt eldsneyti. Fyrirtækið rekur verksmiðju í Svartsengi á Reykjanesi sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjun er breytt í endurnýjanlegt metanól sem blanda má við bensín til notkunar sem eldsneyti í bifreiðum. Hjá fyrirtækinu starfar á fjórða tug starfsmanna á Íslandi og erlendis.

Geely Group er einn stærsti bílaframleiðandinn í Kína. Fyrirtækið selur bíla í Kína og víða um heim undir vörumerkinu Geely Auto, auk þess að vera eigandi bílaframleiðandans Volvo og London Taxi Company í Bretlandi sem á og rekur svörtu leigubílana sem notaðir eru í borginni.

Mögulegar tilraunir á Íslandi

Li segir að CRI hafi náð miklum árangri í þeirri tækni sem þróuð hefur verið og hann vilji styðja fyrirtækið í að koma lausninni víðar. Hann segir að heimurinn þurfi aðra valkosti en þá hefðbundnu til að knýja ökutæki og telur að metanól sé góður orkugjafi fyrir bifreiðar, þar sem það sé einstaklega hreint auk þess sem auðvelt sé að flytja það og geyma. „Við sjáum þetta sem góða framtíðarlausn til að nota í miklu magni.“ Samstarf verður milli fyrirtækjanna um áframhaldandi þróun á metanól-framleiðslunni auk þess sem þróa á bifreiðar sem knúnar verða með metanóli.

Þegar Li er spurður hvort ætlunin sé að setja upp í Kína sambærilegar verksmiðjur og eru í Svartsengi segir hann að fyrirtæki hans sé í bílaframleiðslu og ætli sér sjálft ekki að fara í metanólframleiðslu. Hins vegar segir hann mikil tækifæri vera fyrir CRI að vaxa og koma sér fyrir á fleiri stöðum í heiminum. Lausnir þess eigi erindi víða, í Kína og annars staðar. „Heimurinn stendur frammi fyrir þeirri áskorun að draga verður úr mengun og útblæstri ökutækja. Metanól er einn af þeim orkugjöfum sem gætu dregið verulega úr því.“

En er ætlunin að breyta bílunum sem fyrirtækið framleiðir í Kína, bílunum sem eru framleiddir undir vörumerki Volvo eða svörtu leigubílunum í London? „Það gerist ekki á einni nóttu. Í framleiðsluferlinu er að mörgu að huga en við höfum áform um að halda áfram að gera prófanir. Metanól er góður valkostur en við erum einnig að prófa fleiri orkugjafa.“ Fyrirtækið hóf prófanir með metanól fyrir 10 árum og hefur einnig framleitt rafknúna bíla. Þegar Li er spurður hvort til greina komi að gera tilraunir með bíla hér á landi segir hann að það gæti vel komið til greina. „Ég er auðvitað áhugasamur um slíkt en það þyrfti að vera í samstarfi við íslensk yfirvöld. Ef slíkt væri gert gæti Ísland orðið enn grænna og sjálfbærni orðið meiri. Ég hlakka til að eiga frekara samstarf við Íslendinga.“

Mikilvæg fjárfesting

Hvaða framtíðarsýn hefur Li Shufu fyrir bílaiðnaðinn? „Við stöndum frammi fyrir því að annars vegar erum við með takmörkun á orkugjöfum og hins vegar verðum við að hafa hreinna loft. Loftlagsbreytingarnar eru mikil áskorun og því þarf að huga vel að því að í framtíðinni verði ökutæki knúin með endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fjárfestingin í CRI mikilvæg fyrir okkur, þar sem fyrirtækið er komið með lausn sem við viljum halda áfram að prófa.“ Hann nefnir einnig að jafnvægi þurfi að vera milli eftirspurnar neytenda og þeirrar tækni sem boðin er á bílamarkaðnum.

Í ræðu Li við undirskrift samninganna milli fyrirtækjanna í Hörpu í gær kom fram að hann liti á fjárfestinguna bæði sem úthugsaða viðskiptalega ákvörðun og sem tákn um skuldbindingu fyrirtækisins við sjálfbærni. Hann nefndi að kínversk yfirvöld stefndu að því að 20% af allri bílasölu framtíðarinnar yrðu bifreiðar knúnar með nýjum orkugjöfum.