HM kvenna
Edda Garðarsdóttir
eddagardars@hotmail.com
Nú eru undanúrslitin á HM nýafstaðin, skynsamlega spilaðir leikir, mikið fyrir augað, litaðir af afdrifaríkum mistökum bæði af hálfu leikmanna og dómara. Ekkert HM er almennilegt nema það sé stútfullt af umdeildum atvikum. Nú eru bara tveir leikir eftir af þessari sumarveislu; leikur Englands og Þýskalands um þriðja sætið fer fram í kvöld og sjálfur úrslitaleikur Japans og Bandaríkjanna fer fram seint annað kvöld.
Fyrri undanúrslitaleikurinn, slagur Bandaríkjanna við Þýskaland, einkenndist af mikilli hörku, góðu skipulagi og baráttu. Framan af voru Þjóðverjar betri og með yfirhöndina á miðsvæðinu en það sem vantaði í leik þeirra var bitið og hraðinn í framlínunni, og á móti sterkri vörn varð þessi veikleiki þeirra áberandi.
Auðvitað er það klárt mál að leikurinn hefði þróast öðruvísi ef Julie Johnston, miðvörður Kananna, hefði fengið reisupassann þegar hún var aftasti maður og togaði Alexöndru Popp niður inni í teig. Dómarinn lét sér nægja að flauta fast í flautuna og teygja sig í brjóstvasann eftir gulu í staðinn fyrir að seilast eftir því rauða í rassvasann.
Komst upp með skrípaleik
Hope Solo, hin skrautlega, komst upp með skrípaleik þegar hún tafði fyrir töku vítisins með stjörnustælum án þess að fá áminningu fyrir og Sasic hin þýska klikkaði illilega með því að brenna af. Hún var greinilega að passa sig að horfa ekki á markvörðinn og gleymdi að horfa á markið, en það er betra að vita hvar það er niðurkomið áður en maður lætur vaða.Þetta var vendipunktur í leiknum, enda virtust allar lukkudísirnar eftir þessar sviptingar vera íklæddar stjörnum og strimlum. Þær bandarísku fengu víti sem var ekki víti, og kláraði besti leikmaður vallarins þann daginn, miðjumaðurinn Carli Lloyd, spyrnuna af miklu öryggi. Lloyd er miðjumaður sem hefur spilað um 200 landsleiki og verið iðin við markaskorun á ögurstundum fyrir Bandaríkin. Hvur veit nema hún haldi því áfram.
Kanarnir kláruðu svo leikinn með öðru marki sem virtist koma upp úr engu og kæruleysislegum varnarleik Þjóðverjanna.
Díva mótsins
Í seinni undanúrslitaleiknum mættust þær japönsku og ensku. Fyrir fram bjuggust sparkspekingar ekki við miklu af Englendingum, enda eru þær hvorki með söguna né tölfræðina með sér. Það sem kom á óvart í þeim leik var hversu grimmar þær ensku voru og hvernig þær náðu að brjóta niður helsta styrkleika Japana, sem er að halda boltanum með stuttu spili og miklum hreyfanleika.Englendingarnir náðu endurtekið að koma sér í skotfæri og í fyrsta skiptið á mótinu var hægt að horfa á þær spila án þess að pirrast.
Í þessum leik voru dómararnir því miður álíka áberandi og í fyrri undanúrslitaleiknum, en best finnst manni þegar dómarinn kemst í gegnum leikinn án þess að það beri mikið á honum. Tvær vítaspyrnur voru í leiknum; víti Japananna á mörkum vítateigsins og víti Englendinganna sem var týpísk ensk dýfa og verður sennilega valin „díva“ mótsins.
Fara Williams, sú sem skoraði mark Englendinga, er grjóthörð enda bjó hún á götunni um tíma. Hún hélt kúlinu og setti boltann örugglega í markið.
Skugginn af sjálfum sér
Japanir voru aðeins skugginn af sjálfum sér og frekar bitlausar, þó svo að það sé alltaf gaman að horfa á þær. Þegar þjálfari Japana var augljóslega búinn að undirbúa framlenginguna með skiptingarnar sínar klárar fyrir áframhaldandi leik náðu hans leikmenn að klára leikinn áður en viðbótartíminn rann út. Það mark mun sennilega aldrei gleymast og sú sem skoraði það, í sitt eigið mark, mun þurfa að lifa með því til æviloka. Laura Bassett, leikmaður Notts County, renndi sér í fyrirgjöf Japana á lokamínútu leiksins og smellti boltanum óverjandi framhjá Karen Beardsley í marki Englendinga.
Gott að losna við Wambach
Eftir svona leiki finnst mér líklegra að Kanarnir mæti með enn meira sjálfstraust í úrslitaleikinn, og eftir frekar slaka leiki í riðlakeppninni hafa þær spilað skynsamlega í úrslitakeppninni. Það eitt að taka stórstjörnuna þungu og fyrirferðarmiklu Abby Wambach út úr liðinu hefur breytt spilamennskunni til hins betra. Miðjan þeirra er að smella betur saman og þær ná að spila/halda boltanum betur.Besti leikmaður bandaríska liðsins á mótinu hefur án efa verið Julie Johnston miðvörður og hún getur prísað sig sæla að fá að vera með á sunnudaginn.
Kanarnir verða að spila þétt og skipulega á móti Japan, pressa á réttum tíma og reyna að koma í veg fyrir að Japanir nái miklu flæði á boltann. Kanarnir hafa mjög mikla líkamlega yfirburði (styrk og stærð) og munu eflaust reyna að nýta sér föst leikatriði í botn, ásamt því að reyna að fá fyrirgjafir og koma á átján hjóla trukkum á fullri ferð inn í boxið.
Dugar ekki að dúlla sér
Japanir verða hins vegar að lyfta sér töluvert upp til að ná að knýja fram sigur og halda heimsmeistaratitlinum. Fyrst og fremst vantar þær meira bit fram á við, að skapa sér fleiri færi og ljúka fleiri sóknum með skotum á markið. Þær eru frábærar í að halda boltanum og spila fallega á milli sín, en það dugar ekki ef þær eru bara að dúlla sér á fyrstu tveimur þriðjungum vallarins.Mín spá er að þær bandarísku taki gullið, þó svo að ég haldi með Japönum alla leið.
Bronsið fer vonandi til Englands, en það hefur verið mikill áhugi á þessu móti í heimalandinu og í fyrsta skiptið sem maður sér alvöru liðsheild og svona mikla leikgleði hjá þeim.