Maður var nefndur William Henry Seward, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1861-1869 og ötull landvinningasinni.

Maður var nefndur William Henry Seward, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1861-1869 og ötull landvinningasinni. Hann keypti Alaska af Rússaveldi 1867 og samdi við Dani um að kaupa af þeim nokkrar eyjar í Karíbahafi, en öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti ekki þau kaup, svo að ekki varð af þeim fyrr en 1917. Jafnframt hafði Seward hug á því að kaupa Grænland og Ísland af Dönum. Hann sneri sér til áhrifamanns í Washington-borg, Roberts J. Walkers, fyrrverandi fjármálaráðherra. Walker fékk námuverkfræðing, Benjamin M. Peirce (bróður hins kunna heimspekings), til að gera skýrslu um landkosti á Grænlandi og Íslandi eftir tiltækum heimildum.

Þegar upplýst var á Bandaríkjaþingi, að slík skýrsla væri í smíðum, skellihlógu þingmenn. Einn þeirra gerði gys að Seward fyrir að vilja nú kaupa „jarðskjálfta í Karíbahafi og ísbreiður á Grænlandi“. Treysti Seward sér ekki til að bera kaup á Grænlandi og Íslandi upp við þingið, en lét utanríkisráðuneytið prenta skýrsluna vorið 1868.

Í skýrslunni kvað Peirce erfitt að afla upplýsinga um Ísland. Þó væri landið ekki eins hrjóstugt og nafnið veitti vísbendingu um. Það væri grösugt og bæri fjölda sauðfjár. Gjöful fiskimið væru undan landi, sem yrðu mikils virði við betri tækni. Einnig væri verulegt vatnsafl í landinu, þótt það væri ekki nýtt, á meðan iðnaður væri nær enginn. Peirce nefndi einnig, að landið lægi vel við sæsíma milli Vesturheims og Evrópu.

Af frásögnum að dæma væru Íslendingar heiðarlegir, flestir læsir og betur að sér en grannþjóðirnar, en drykkfelldir. Þeir væru mjög stoltir af sögu sinni, tungu og menningu. Óstjórn Dana væri um fátækt þeirra að kenna. „Þeir hlakka til glæsilegrar framtíðar, þegar frjáls og framtakssöm stjórn beinir þeim með fjármagni og dugnaði að því að nýta auðlindir landsins og skipa þann sess meðal þjóða, sem þeim ber“ (A Report on the Resources of Iceland and Greenland, bls. 43).

Í formála lagði Robert J. Walker til, að Bandaríkjastjórn keypti Grænland og Ísland af Dönum. Nefndi hann, að þá myndu fylkin í Kanada ef til vill sjá sér þann kost vænstan að ganga í Bandaríkin. Jón Sigurðsson virtist vera eini Íslendingurinn, sem las skýrsluna, og sagði hann í bréfum, að auðvitað yrði aldrei af slíkum kaupum, en hugmyndin gæti bætt samningsaðstöðu Íslendinga gagnvart Dönum, svo að taka ætti henni vel. Voru þau viðbrögð Jóni lík.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is