Sigríður Ingibjörg Sigurbergsdóttir fæddist 6. september 1947. Hún lést 3. júní 2015.

Útför Sigríðar Ingibjargar fór fram 16. júní 2015.

Þó ég hafi alla tíð þekkt til Ingibjargar, þá var það ekki fyrr en seint á 10. áratug síðustu aldar að kynni okkar tóku að þróast, og þá í gegnum yngstu dóttur hennar, Þórunnbjargar. Ingibjörg tók mér vel frá fyrstu stundu og fyrir stúlku sem þá var nýflutt til Reykjavíkur var ómetanlegt að eiga hauk í horni hjá Ingibjörgu og Sigurbirni, eiginmanni hennar.

Ingibjörg barst ekki á, en í gegnum fjölskyldu hennar og fyrirtæki þá stóð hún keik og vann vel. Hún vissi vel hvað það var að berjast og allt hennar fas bar þess merki að hún trúði á að reyna sitt besta og framkvæma hluti af heilindum. Í mínum huga þá bar mest á dugnaði, væntumþykju, sanngirni og hreinskilni Ingibjargar á borði frekar en í orði. Hún var laus við öll falsheit og kom hún alltaf til dyranna eins og hún var klædd. Enda var það hennar besti kostur að mínu mati.

Það er sárt að kveðja Ingibjörgu. En sem betur fer þá eiga margir góðar minningar um hana og þær eru dýrmætar núna.

Ég votta Sigurbirni sem og börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Svanfríður E. Arnardóttir.