Danski íhaldsflokkurinn – Det konservative Folkeparti – á sér hundrað ára sögu en rætur hans liggja meira en 150 ár aftur í tímann. Sá flokkur náði aldrei leiðandi fylgi meðal danskra stjórnmálaflokka en fylgi hans sveiflaðist um langt skeið á milli 16-17% og upp í nær 24% fylgi meðal danskra kjósenda. Stundum fór hann þó langt niður en aldrei sem nú, en fylgi hans í þingkosningunum í Danmörku var 3,4%.
Frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi, sem nú heitir að vísu Frjálslyndir demókratar, á sér glæsta fortíð, flokkur Galdstones, Asquiths og Lloyds George, en er nú ekki nema svipur hjá sjón. Verkamannaflokkurinn tók við hlutverki hans á fyrri hluta síðustu aldar.
Örlög þessara tveggja flokka í Danmörku og Bretlandi eru til marks um að flokkar geta orðið viðskila við kjósendur og misst tengslin við grasrótina í þeim samfélögum, þar sem þeir starfa, á þann veg að þeir verða nánast áhrifalausir.
Danski þjóðarflokkurinn á sér 20 ára sögu. Hann hefur náð þeirri stöðu, sem Íhaldsflokkurinn hafði áður í dönskum stjórnmálum á hægri vængnum, og er nú næststærsti flokkur Danmerkur.
Að þessu er vikið hér í framhaldi af umfjöllun á þessum vettvangi fyrir viku um þær breytingar, sem eru að verða í okkar samfélagi og hafa leitt til þess að allir hefðbundnir stjórnmálaflokkar eru í vörn, sem bendir til að þeir hafi ekki náð að fylgjast með nýju straumum, sem hér eru á ferð, hvað þá að innbyrða þá.
Í „mínu ungdæmi“, svo talað sé eins og gamlir menn gera, sveiflaðist fylgi Sjálfstæðisflokksins á milli 37 og yfir 40%. Mér er minnisstætt hvað okkur (Morgunblaðsmönum og sjálfstæðismönnum) var brugðið, þegar fylgi flokksins fór niður fyrir 37% í þingkosningunum 1971.
Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 25,7% atkvæða. Skömmu eftir þær kosningar sat ég á spjalli við unga konu, sem nú er virk í starfi flokksins, og var að reyna að sannfæra mig um að þetta væru viðunandi úrslit fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég hugsaði með mér: Hvernig getur þetta verið? Þetta er sami flokkur og fékk yfir 60% atkvæða í kosningum til borgarstjórnar 1990.
Annar viðmælandi minn hafði orð á því við mig fyrir skömmu að það hættulegasta fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri, ef hann færi að sætta sig við þá stöðu, sem hann er nú í.
En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn um það. Samfylkingin var stofnuð til þess að sameina vinstrimenn á Íslandi í einni fylkingu og skapa með því öflugt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Hún varð stærri flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn í þingkosningunum 2009 og fékk 29,8% atkvæða en Sjálfstæðisflokkurinn 23,7%. Fjórum árum síðar, vorið 2013, hrundi Samfylkingin og fékk 12,9% atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn varð aftur stærsti flokkur landsins með 26,7%.
Samfylkingin er ekki lengur samfylking allra vinstrimanna. Björt framtíð er fyrst og fremst klofningsbrot úr Samfylkingu en flokkarnir á miðju-vinstri-vængnum eru allir í uppnámi, þótt Vinstri-grænir geti kannski haldið því fram, að þeir séu nálægt sínu meðalfylgi.
Þessi þróun sýnir þó að vinstriflokkarnir eru allir í sömu stöðu og Sjálfstæðisflokkurinn að því leyti til að þeim hefur heldur ekki tekizt að fylgjast með nýjum samfélagsstraumum á nýrri öld.
Framsóknarflokkurinn er annars konar fyrirbæri. Það er alveg ljóst að í þingkosningunum 2013, þegar flokkurinn fékk 24,4% atkvæða, endurspeglaði hann skoðanir og sjónarmið almennra borgara í ríkum mæli. En það sérkennilega er að þótt hópur þingmanna Framsóknarflokksins sé enn að gera það með málflutningi á þingi og annars staðar, og þá ekki sízt í sambandi við stöðu bankanna í samfélaginu, berst flokkurinn í bökkum eins og aðrir hefðbundnir flokkar.
Líkleg skýring á því er sú, að formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er sennilega umdeildasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Hugsanleg ástæða fyrir því eru ekki skoðanir hans heldur hvernig hann setur þær fram. Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort hann nær betra talsambandi við þjóðina á síðari hluta kjörtímabilsins.
Hinir hefðbundnu flokkar hafa flestir enn tækifæri til að endurheimta fyrri stöðu. Þeir eru ekki enn komnir í þá varanlegu niðursveiflu, sem hafa orðið örlög danska Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Bretlandi.
Hvort þeim tekst að grípa þau tækifæri er annað mál. Það fer eftir því, hvort þeir ná að skilja þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu. Tími valdakjarnans („hinna ráðandi afla“) er liðinn. Það er ekki hægt að stjórna Íslandi á grundvelli þeirra viðhorfa, sem ríktu á 20. öldinni.
Það er ekki óhugsandi að valdakjarnanum í Brussel takist að hræða almenning í Grikklandi svo mjög að í kosningunum á morgun segi fleiri já en nei en það yrði Phyrrhusar-sigur.
Það var reynt að hræða Íslendinga í Icesave-kosningunum. Þar var Brussel ekki á ferð heldur valdakjarni stjórnmálamanna, embættismanna, sérfræðinga og álitsgjafa háskólasamfélagsins á Íslandi. Sú hræðsluherferð mistókst.
Reyni hinir hefðbundnu flokkar að telja fólki trú um að gamla leiðin sé betri en hin nýja, þ.e. að þeir taki allar meginákvarðanir um sameiginleg mál í stað þess að fólkið sjálft geri það, bíða þeirra sömu örlög og danska Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Bretlandi.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is