Stefán Ingvar Vigfússon sat á sínu fyrsta handriti þegar hann ákvað að stofna Ungleik.
Stefán Ingvar Vigfússon sat á sínu fyrsta handriti þegar hann ákvað að stofna Ungleik. — Ljósmynd/Ísabella Katarína Márusdóttir
Ungleikur er árlegur viðburður þar sem ungum og upprennandi leikskáldum, leikstjórum og leikurum gefst kostur á að láta ljós sitt skína, en söfnun handrita er nú í fullum gangi.

Ungleikur er árlegur viðburður þar sem ungum og upprennandi leikskáldum, leikstjórum og leikurum gefst kostur á að láta ljós sitt skína, en söfnun handrita er nú í fullum gangi.

„Ég hvet öll ung leikskáld, sem luma á leynilegum handritum einhvers staðar ofan í skúffu, til að draga þau fram og senda þau til okkar. Handritin gera ekkert gagn í skúffunni,“ segir Stefán Ingvar Vigfússon, stofnandi og einn helsti skipuleggjandi Ungleiks. Hann segir hugmyndina hafa komið til þar sem hann var á ferðalagi í Austurríki fyrir nokkrum árum, þar sem hann sat á sínu fyrsta handriti.

„Mig langaði að setja það upp í Borgarleikhúsinu, en átti ekki kost á því. Mér datt í hug að fleiri væru í sömu sporum og ég, áhugaleikskáld og -leikstjórar í svipuðum hugleiðingum, og að með því að snúa saman bökum og gera úr þessu opinn viðburð gætum við sett verk okkar á fjalirnar.“

Leikskáld geta sent handrit sín til dómnefndar, og eiga þau þá möguleika á að verða sett upp á sviði, en skáldin ráða sjálf hvort þau taka að sér leikstjórn verkanna. Þá stendur Ungleikur fyrir leiklistarnámskeiðum, en leikarar verkanna eru valdir úr röðum þátttakenda þeirra námskeiða. Guðmundur Felixson er listrænn stjórnandi Ungleiks í ár og er auk þess einn þeirra dómara, sem ákveða hvaða verk skuli sett upp. Handrit skulu vera á bilinu 7-15 blaðsíður að lengd og berast í gegnum póstfangið ungleikur@gmail.com eigi síðar en 10. ágúst næstkomandi.