[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ferðaþjónusta og landbúnaður fara vel saman. Þetta er ágæt viðbót sem skapar okkur hér á bæ ný tækifæri og möguleika,“ segir Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og bóndi á Hauksstöðum í Vopnafirði.

„Ferðaþjónusta og landbúnaður fara vel saman. Þetta er ágæt viðbót sem skapar okkur hér á bæ ný tækifæri og möguleika,“ segir Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og bóndi á Hauksstöðum í Vopnafirði.

Þau Friðbjörn Guðmundsson, eiginmaður hennar, hafa eins og margir fleiri í sveitum landsins haslað sér völl í þjónustu við ferðamenn Þau opnuðu ekki alls fyrir löngu gistihús sem er í tveimur samtengdum gámahúsum. Aðstaða er fyrir alls átta næturgesti í 70 fermetra byggingu sem þykir öll hin snotrasta.

Hauksstaðir eru í Vesturárdal, sem áður var býsna afskekktur en með nýjum vegi sem tengir Vopnafjörð við Háreksstaðaleið eru þessar slóðir komnar í alfaraleið. „Mér fellur þetta starf vel. Hér hefur verið talsverður gestagangur í sumar og þá ekki síst Íslendingar. Hópurinn er fjölbreyttur, fólk sem er gaman að kynnast og heyra viðhorf þess og skoðanir,“ segir Þórunn. Bætir við að frá Grímsstöðum á Fjöllum að Hauksstöðum liggi gönguleið um Haugsöræfi sem farin sé á þremur dögum. Hún njóti vaxandi vinsæla og sumir gesta hennar hafi einmitt verið á þeim slóðum.

„Að stússast í þessu er gjörólíkt öðru því sem ég er að sinna. Tilbreytingin er góð,“segir Þórunn sem var kjörin á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn fyrir tveimur árum. Þingstörfin segir hún útheimta mikla fjarveru að heiman – en á stundum milli stríða sé gott að skreppa heim í sveitina hvar þau Friðbjörn eru með fjárbú og sýsla við sitthvað fleira