Tinna Hrafnsdóttir leikkona.
Tinna Hrafnsdóttir leikkona.
Fólk víðsvegar að úr þjóðfélaginu deilir því með lesendum hvernig fullkomið íslenskt sumar er í þess huga, segir frá eftirlætisstaðnum sínum og hvað það vill lesa og hlusta á í sumarfríinu. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Fólk víðsvegar að úr þjóðfélaginu deilir því með lesendum hvernig fullkomið íslenskt sumar er í þess huga, segir frá eftirlætisstaðnum sínum og hvað það vill lesa og hlusta á í sumarfríinu.

Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Bjargfuglagargið fallegt

Íslenskt sumar er fullkomnað... með grillangan í loftinu, gróðurinn í fullum skrúða, landinn sólbrúnn og brosandi. Þá er gott að vera poppari á ferðalagi um landið.

Fallegasti staðurinn? Ég horfi á allt landið sem náttúruperlu og hver staður á sína fegurð.

Bókin og tónlistin? Njála og fuglasöngur á fögrum degi, bjargfuglagargið þar með talið.

Langidalur í Þórsmörk

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég heyri vængjaslátt hrossagauksins og eins þegar ég heyri einhvern segja að lóan sé komin. Þó að enn sé nokkuð kalt þá finnst mér alltaf eins og sumarið sé komið þegar þessir vorboðar gera vart við sig. Ég tengi sumarið meira við birtu en hita og þess vegna finnst mér ég oft eiga lengri sumur en margir aðrir.

Fallegasti staðurinn? Langidalur í Þórsmörk. Ég fæ það sterklega á tilfinninguna, í námunda við fánastöngina í Langadal, með útsýn inn í Bása og upp á Mýrdals- og Eyjafjallajökul, að ég sé á besta stað veraldar.

Bókin og tónlistin? Hringadróttinssaga, Hobbitinn, Tinnabækur og Ásgeir Trausti. Ég þarf helst að fá að hlusta á Society með Eddie Vedder ef ég keyri einn á hálendinu.

Útsýnið úr sundlaug Hofsóss

Íslenskt sumar er fullkomnað ... þegar maður gengur heim í sumarkjól seint að kvöldi til í sumarveðri. Og drekkur heitt súkkulaði í lopapeysu áður en maður leggst inn í tjald að sofa.

Fallegasti staðurinn? Mývatnssveit og útsýnið úr sundlaug Hofsóss.

Bókin og tónlistin? Harry Potter-bækur með dóttur minni, spennubók og kökuuppskriftir. Kim Larsen og Here comes the sun með Bítlunum.

Golf við Geysi

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar hrossagaukurinn hneggjar fyrir mig þar sem ég sit að morgni í heitum potti efst í Biskupstungum og sólin er að brjótast í gegnum morgunmistrið. Skömmu síðar niðar Almenningsáin við eyru þegar ég nýt þess að spila golf upp við Geysi.

Fallegasti staðurinn? Erfitt að svara. Það er lítil paradís í hverri sveit, en útsýnið út um gluggann á sumarbústaðnum er stórfenglegt. Suðurlandsundirlendið blasir við frá Langjökli að Ingólfsfjalli. Umhverfið er eins og að búa í Kjarvalsmálverki.

Bókin og tónlistin? Þarf að læra ansi stórt hlutverk í Býr Íslendingur hér sem er uppfærsla Leikfélags Akureyrar í haust. Auk þess að rifja upp einleikinn Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson. Ég hlusta á lækjarniðinn.

Löngu eftir lokun við höfnina

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég sit við höfnina fram eftir morgni með „take-away“ bjór af einhverjum skemmtistaðnum sem er löngu lokaður. Horfa á Esjuna og sólina speglast í sjónum og fylgjast með misgáðu fólki rúllandi fram hjá. Tíminn algjörlega týndur.

Fallegasti staðurinn? Ég labbaði Hornstrandir í fyrra og þótti það ólýsanlega fallegt. En uppáhaldið mitt er Álftavatn í Grímsnesi þar sem sumarbústaður fjölskyldunnar er.

Bókin og tónlistin ? „Ég er er að lesa Murakami núna. Kafka on the Shore. Sumarlagið í ár er Somebody to Lean On með MÖ og Major Lazer.

Fyrstu kartöflur sumarsins

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég er búinn að sjóða fyrstu heimaræktuðu kartöflur sumarsins. Það verður fullkomið ef mér tekst að forða blómkálinu frá sniglum! Í fyrra prófaði ég bjórgildrur sem áttu að svínvirka að sögn garðyrkjuspekinga. Það dugði ekki betur en svo að sniglarnir átu allt kálið og hafa eflaust drukkið bjórkippuna með!

Fallegasti staðurinn? Allt Ísland er fallegt en öræfin bera af. Skaftafell er krónan.

Bókin og tónlistin? Norrænar glæpasögur tilheyra sumrinu. Núna er það Davíðsstjörnur eftir Kristínu Ohlson. Lagið „Upp í sveit“ og fleiri góð af nýútkominni plötu Trúboðanna, Óskalög sjúklinga.

Kaffi kl. 5 að morgni í Árbúðum

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar hestaferðir byrja á fjöllum.

Fallegasti staðurinn? Skálinn Árbúðir við Langjökul og áin. Að sitja þar úti með kaffibollann sinn klukkan 5 að morgni og hlusta á ána og horfa á jökulinn er bara málið.

Bókin og tónlistin? Bók eftir Guðrúnu frá Lundi og tónlist með Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Stefáni Íslandi. Þó sérstaklega Ökuljóð.

Íslenskar bókmenntir í sumarfríinu

Íslenskt sumar er fullkomnað... með eilífu ljósi. Sumarbirtan á Íslandi er engu lík, hún bætir allt.

Fallegasti staðurinn? Að spyrja um uppáhaldsstað er líkt og að spyrja hvað af eigin börnum sé fallegast. Landið er svo fjölbreytt og náttúran sérstök. Hver blettur hefur sinn sjarma. Meira að segja Miðnesheiðin er falleg á sinn hátt og Seltjarnarnesið alls ekki „lítið og lágt“. En Snæfellsnesið er nú samt líklega orkumesta svæðið sem ég þekki, enda beintengt niður í jarðarmiðjuna.

Bókin og tónlistin? Íslenskar bókmenntir. Væri gaman að endurlesa bækur eins og Skálholt eftir Kamban og svo á ég eftir að renna yfir síðustu bækur Hallgríms Helgasonar og Jóns Kalmans þótt Auður Ava sé mitt uppáhald núna. Það tók mig smátíma að ná verkum hennar en í þeim er einhver séríslenskur existensíalismi. Í farteskinu eru líka ávallt krimmar Yrsu Sigurðardóttur og Arnalds Indriða. Að lokum held ég að ég verði að endurlesa bók Héðins Unnsteinssonar, Vertu úlfur. Merkileg og þörf lesning fyrir alla. Þegar maður heimsækir Ísland sækir nostalgían á og ekkert hljómar betur í bílnum en „Vegir liggja til allra átta“ með Ellý Vilhjálms. Þetta er engin dægurmúsík heldur tímalaust en á Íslandi gleymir maður einmitt tímanum.

Ísafjarðardjúp á sumarnóttu

Íslenskt sumar er fullkomnað... með smá skipulagi og endorfínum. Góður göngutúr yfir fjallaskarð þar sem borðað er saman í lok kvölds er uppskrift sem klikkar ekki. Ef hægt er að smella smá veiði inn er það himneskt.

Fallegasti staðurinn? Ísafjarðardjúpið á sumarnóttu er ótrúlega fallegt.

Bókin og tónlistin? Í sumar ætla ég að halda áfram að lesa bækur af bókasafni í Brekkuhúsinu í Hnífsdal, en þar mun ég dvelja. Í fyrrasumar voru það bækur Jakobínu Sigurðar ásamt ljóðum Davíðs frá Fagraskógi. Svo var ég svo heppin að heyra gamalt viðtal við Jakobínu á RÚV á sama tíma. Í húsinu úir og grúir af mjög vel förnum gömlum dagblöðum. Ég ætla að hlusta á finnskan tangó.

Grilllykt og hlátrasköll

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar við erum vestur í Stykkishólmi og norður á Húsavík, við eigum afdrep þar hjá pabba mínum annars vegar og langömmum hins vegar. Svo graslykt, grilllykt og hlátrasköll í börnunum í fótbolta og á trampólínum.

Fallegasti staðurinn? Þeir eru svo margir! Snæfellsnesið ef ég á að nefna eitthvað. Stykkishólmur er fæðingarbær minn og á sérstakan stað þess vegna.

Bókin og tónlistin? Merkiskonur sögunnar og núna hlustum við unglingarnir; ég, maðurinn minn og börnin tvö, 12 og 9 ára, á FM 95,7 og Kiss FM og syngjum með.

Þegar gasið er búið

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég, sljóvgaður af frjóofnæmislyfjum, moldugur upp fyrir haus með keðjusög í annarri og snýtubréf í hinni, hálsbakaður í hægeldandi júlísól, með grillglampa í augum og bjórfroðu í nösum, kemst að því, um leið og sólin forðar sér í langtímasamband við tjaldhælsgrátt ský, að gasið er búið.

Fallegasti staðurinn? Hnífsdalurinn, þó hann fari afskaplega leynt með það. Kringlan er líka næs.

Bókin og tónlistin? Bækur eiga líka skilið gott sumarfrí. Ég hvet sem flesta til að hlusta á The Carpenters þetta sumarið. Við þurfum á því að halda.

Oftast út á Snæfellsnes

Íslenskt sumar er fullkomnað... með því að standa við Dynjanda í glampandi sól og heyra dynjandi niðinn. Það er eins og að vera umvafinn hjartslætti móður jarðar. Ekkert fær lýst því hvaða áhrif það hefur á mig. Innri og ytri Paradís.

Fallegasti staðurinn? Ég á mér uppáhaldsstaði í hverjum einasta landshluta og hver og einn er fallegastur á sinn hátt. Fer oftast út á Snæfellsnes, því þar eru svo mörg ævintýri í náttúrunni.

Bókin og tónlistin? The Dispossessed eftir Ursulu K. Le Guin og Drones með Muse eða Cocteau Twins.

Kvöldlestur í koju

Íslenskt sumar er fullkomnað... með gönguferðum í fallegri náttúru. Einnig í tjaldferðum með fjölskyldunni í Ásbyrgi, Þjórsárdalinn eða Skaftafell, sumarbústaðaferð í Borgarfjörð. Heitur pottur, kvöldlestur í koju, grillaðar lambalærissneiðar, sundferðir og útileikir.

Fallegasti staðurinn? Víknaslóðir, frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar. Og leiðin frá Austfjörðum og suður að Skaftafelli í fjólublárri kvöldbirtu. Eitt sinn sá ég þúsundir álfta í Álftafirði í þessari fjólubláu birtu. Því gleymi ég aldrei.

Bókin og tónlistin? Afleggjarinn eftir Auði Övu en fyrst er það fimmta bókin í Game of Thrones. Johnny Cash og Cesaria Evora.

Austfirðir standa upp úr

Íslenskt sumar er fullkomnað... í náttúrunni með strákunum mínum og fjölskyldu. Að veiða, tjaldútilegur og ættarmót með stórfjölskyldunni, fjallgöngur, fótboltaferðirnar með strákunum mínum, gönguvikan í Fjarðabyggð og hestaferðir. Þar slaka ég á og fyllist orku.

Fallegasti staðurinn? Landmannalaugar, Þórsmörk, Fimmvörðuháls og Skaftafell. Svæðið kringum Mývatn og Jökulsárgljúfur. Þó standa Austfirðirnir og þá Mjóeyri á Eskifirði upp úr.

Bókin og tónlistin? Harry Potter-bækurnar aftur. Okkur í fjölskyldunni finnst skemmtilegast að skella lögunum hans Sjonna Brink á. Þar hlustum við á Brosið þitt lýsir mér leið, Coming home, Waterslide, Love is you og frábæru lögin af Flavors-plötunni hans.

Birtan í Skaftafelli

Íslenskt sumar er fullkomnað... í nokkurra daga gönguferð. Maður kynnist sjálfum sér og félögum sínum og auðvitað náttúrunni. Ég pæli mikið í landslaginu og hvað mótaði það. Borgin er heldur ekki sem verst á sumrin.

Fallegasti staðurinn? Ef ég verð að velja einn er það Skaftafell. Birtan, víðáttan og andstæðurnar heilla mig.

Bókin og tónlistin? Einhvern góðan krimma, til dæmis Nesbö. Það fer eftir því hvað er að gerast og í hvernig stuði ég er hvað ég hlusta á. Síðasta plata sem ég keypti mér var með Nordic Affect. Þar á undan var það Pixies. Mér finnst best að hlusta ein í bílnum.

Magnað hálendi

Íslenskt sumar er fullkomnað... uppi á hálendinu, í göngutjaldi, með bakpoka. Gjarnan má heyrast í læk og fuglum. Enn eru margir staðir á hálendinu þar sem hægt er að ná þessari upplifun og mikilvægt að við förum vel með þessi einstöku víðerni sem við eigum.

Fallegasti staðurinn? Torfajökulssvæðið með Jökulgil og Grænahrygg í broddi fylkingar, Hornstrandir en Kverkfjöll eru í fyrsta sæti. Þar sést magnað samspil íss og elds með eitt stærsta háhitasvæði landsins við rönd Vatnajökuls.

Bókin og tónlistin? Sjálfstætt fólk, Sigur Rós og íslenskur djass, t.d. með ADHD.

Útilega ómissandi

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég er búin að fara í a.m.k. eina göngu, útilegu, sumarbústað, skrítna sundlaug úti á landi, hita blóðbergste, hjóla, grilla og helst keyra hringinn. En það byrjar um leið og glitta fer í fyrstu fíflana. Fíflarnir, kríurnar, lúpínan, lóan, hrossagaukurinn og miðnætursólin, allt er þetta ómissandi partur af íslenska sumrinu.

Fallegasti staðurinn? Mývatn og Vestfirðir eins og þeir leggja sig. Það er eitthvað seiðmagnað við þann kjálka.

Bókin og tónlistin? Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Mörk eftir Þóru Karítas og Blátt blóð eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur. Gömlu góðu slagararnir með Villa Vill, Ellý Vilhjálms, Brunaliðinu og Bubba Morthens.

Tónlistin við Þingvallavatn

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar fyrsti laxinn tekur. Og þegar trampólínið er komið upp og krakkarnir skoppa þar fram á kvöld og koma svo inn á sokkunum sem bera með sér gras og fleiri fylgifiska sumarsins en mér er alveg sama af því að ég er í rífandi góðu skapi.

Fallegasti staðurinn? Ég get ekki valið á milli Vestfjarða, innbæjarins á Akureyri, Þingvallavatns, Vitaðsgjafa í Laxá í Aðaldal eða Garðabæjar út um gluggann hjá mér. Fallegasti staðurinn hlýtur að alltaf að vera þar sem ég sé börnin mín brosa og njóta lífsins.

Bókin og tónlistin? Nú, Saga Garðabæjar var að koma út. Hún er liðlega 1.900 blaðsíður og ætti því að duga mér í sumar. Þegar ég var stelpa lærði ég að meta tónlistina sem náttúran við Þingvallavatn býður upp á og mér finnst hún alltaf best. Gjálfrið í gárunum á vatninu, söngur lóunnar, hrossagauksins, himbrimans og allra fuglanna og inn á milli hressileg mótorhljóð úr bátum.

Seyðisfjörður að sækja á

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar ég heyri: „Þegar það er gott á Íslandi er hvergi betra að vera.“ Þetta gerist við séríslenskar aðstæður. Það er gjarnan grill í gangi, hitamet á pallinum og sumarbústaðabrúnka á bringu þess sem lætur ummælin falla. Hitinn er svo kæfandi að fólk talar um að vilja liggja undir blautum handklæðum.

Fallegasti staðurinn? Vestfirðirnir eru í uppáhaldi en Seyðisfjörður hefur verið að sækja á á síðastliðnum árum. Mig langar mest þangað í sumar. Borða á nýja sushistaðnum fyrir ofan Hótel Ölduna og frílista mig í bænum með fjölskyldunni.

Bókin og tónlistin? „Ég er alltaf að grúska eitthvað. Það myndi örugglega vera fræðibók, ef ekki um leiklist þá tjáskipti plantna, uppeldi barna eða hugleiðingar um handanlæga heima. Mér finnst Siggi Guðmunds alltaf vera dálítið viðeigandi í sumarfríinu. Mér finnst líka flott stemning í Hjaltalín og Ólafi Arnalds en það er kannski meira svona heilsárs.

Símaklefi fyrir útisturtu

Íslenskt sumar er fullkomnað... í nýju útisturtunni í sumó sem er gamall símaklefi. Mamma að grilla eftir langan tan-dag með tilheyrandi litríkum sumardrykkjum. Sumarið í sumar er fullkomnað með góðu, stilltu veðri og ekki rigningu þegar sirkusinn minn setur upp sirkustjaldið Jöklu, klístruðum kandíflosbörnum og jafngóðri miðasölu og í fyrra.

Fallegasti staðurinn? Reykjavík. Sérstaklega hinn leynilegi „Highline Park“ sem við erum með bak við húsið okkar.

Bókin og tónlistin? Sumarfrí er fyrir kyrrsetufólk. Ef ég tæki sumarfrí myndi ég miklu frekar upplifa, borða, tala og hlæja en sökkva mér ofan í bók. Hlusta á sirkustónlist.

Veiðivötn mögnuðust

Íslenskt sumar er fullkomnað... á pallinum mínum, nýbúinn að slá garðinn, einn kaldur og góð bók.

Fallegasti staðurinn? Við höfum verið mjög dugleg að ferðast um landið undanfarin 40 ár eða svo, og margir eru þeir fallegir staðirnir. Samt eru Veiðivötn alltaf ofan á. Magnaður staður, fer þangað á hverju sumri.

Bókin og tónlistin? Var fyrir nokkrum árum á ferð á söguslóðum Bjarts í Sumarhúsum. Þá var Sjálfstætt fólk hin fullkomna bók til að lesa í fríinu. Náðarstund verður með í sumar. Væri ekki við hæfi að taka með nýja diskinn með Of Monsters and Men?

Upp að jöklunum

Íslenskt sumar er fullkomnað... í kyrrð úti á landi í birtunni þar sem ég er umkringd fjöllum og helst hafi.

Fallegasti staðurinn? Það eru margir staðir sem mér finnst yndislegt að koma á, til dæmis Landmannalaugar, það eru svo dásamlegir litir og yndisleg vídd í landslaginu. Svo finnst mér líka alltaf yndislegt að fara upp að jöklunum, t.d. Langjökli og Snæfellsjökli, það er svo fallega lifandi orka í þeim.

Bókin og tónlistin? Ég er að byrja að lesa Thinking, Fast and Slow eftir Daniel Kahneman en úti í náttúrunni finnst mér best að hlusta bara á umhverfið.

Gerpla og Borgarfjörður eystri

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar angan lyngs og berja fyllir vitin, kyrrð sumarnátta rímar við sálarlútuna og alsæla hríslast um háræðakerfið.

Fallegasti staðurinn? Borgarfjörður eystri, í nærveru Borghildar álfadrottningar í Borg og reisn Dyrfjalla í sjónmáli.

Bókin og tónlistin? Gerpla eftir Halldór Laxness og Kölnarkonsert Keith Jarret.

Ægifagurt í Ásbyrgi

Íslenskt sumar er fullkomnað... með golfi en ég er yfirleitt sáttur við sumarið, hvernig sem viðrar. Ég ferðast ekki mikið á sumrin, hef aldrei verið útilegukarl.

Fallegasti staðurinn? Ægifagurt í Ásbyrgi. Gróður og skjólsældin sem heilla umfram annað.

Bókin og tónlistin? Er lítill lestrarhestur og sæki helst í ævisögur og sagnfræðirit. Er áskrifandi að Sögunni allri og kippi því með í ferðalög. Og þótt undarlegt kunni að virðast hlusta ég ekki mikið á tónlist dagsdaglega. Þess utan að vera innan um tónlist og flytja hana finnst mér þögnin góð. Talmál heillar mig jafnmikið og músík. En ég á það líka til að hlýða á kántrýtónlist, melódíska klassík og bíómúsík, ekki síst Ennio Morricone.

Vera fyndin á Twitter

Íslenskt sumar er fullkomnað ... með fólkinu mínu, drekka kaffi utandyra, borða rækjusalat sem systir mín skipar mér að búa til, reyna að sannfæra lítil börn í milljónasta sinn um að það sé komin nótt, horfa á HM í fótbolta, fara í brúðkaup, fjárfesta í íslenskum jarðarberjum og reyna að vera fyndin á twitter. Nenniði að follow-a mig, plís: @birnaanna.

Fallegasti staðurinn? Ég hef tilhneigingu til að finnast sá staður sem ég sá síðast vera sá fallegasti. Þessa dagana er það Vesturbærinn sem mér finnst fallegastur og þá kannski helst fiskborðið í Melabúðinni.

Bókin og tónlistin? Þegar maður á lítil börn er maður með ólesnar bækur í stöflum á náttborðinu. Ég fékk flensu um daginn og náði þá að lesa tvær bækur og byrjaði á þeirri þriðju: The Interestings eftir Wolitzer. Einar frændi minn er duglegur að spila á panflautusafnið sitt í lok fréttatímans hjá RÚV. Það hefur opnað nýjar víddir hjá mér í tónlistinni.

Árstíðaskiptin magnaður dans

Íslenskt sumar er fullkomnað... með dansi á mörkum árstíðanna. Það tengi ég sterkast við íslenskt sumar. Það má til sanns vegar færa að á Íslandi fyrirfinnist einungis tvær árstíðir og á mörkum þeirra ríkir ákveðin spenna, togstreita eða jafnvel valdatafl. Svo lengi sem ég man eftir hefur sumardagurinn fyrsti alltaf verið vetrarmegin í tilverunni. Það sem er afar áhugavert í mínum huga er að fylgjast með og finna fyrir hvernig Vetur konungur smám saman gefur eftir, losar tökin í áföngum, en er um leið ekki allur þar sem hann er séður og kemur okkur í opna skjöldu, með stríðnisglampa í augum, aftur og aftur og aftur.

Margt tekur breytingum á þessari vegferð inn í sumarið, sem áhugavert er að fylgjast með, áþreifanlegt og óáþreifanlegt.

Fallegasti staðurinn? Snæfellsnes. Þangað hélt ég á vit forfeðranna á hverju sumri með foreldrum mínum. Í hvert sinn er ég nálgast jökulinn í gegnum hraunbreiðuna finn ég hvernig orkan snögglega breytist, styrkist og þéttist.

Bókin og tónlistin? Wolf Hall eða Bring Up the Bodies eftir enska rithöfundinn Hilary Mantell. Og til dæmis Phantasm-hópurinn með flæði gömbunnar í öndvegi, tyrkneski tónlistarmaðurinn Merchan Dede, sænska djasssveitin EST og gríska tónskáldið Eleni Karaindrou.

Mývatn og fjöllin umhverfis

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar vakað hefur verið a.m.k. eina heila bjarta sumarnótt úti við. Fara inn á hálendið, borða holubakað lambakjöt og nýveiddan vatnasilung. Tína upp í sig ber að hausti og safna sveppum.

Fallegasti staðurinn? Allt Ísland er fallegt í sínum fjölbreytileika. Mér finnst svæðið mitt, Heiðmörkin og bakkar Elliðavatns svo fallegt því ég þekki það í ótal tilbrigðum árstíða og veðrabrigða. En Fjallabak nyrðra og syðra er ævintýralandslag í mínum huga, Mývatn og fjöllin umhverfis.

Bókin og tónlistin? Ég les á hverju einasta kvöldi, vetur og sumar og engin sérstök sumarlesning. Best að hlusta á þögnina og fuglasönginn. Íslenska samtímatónlist og klassík í bílnum.

Berjamór fullkomnar

Íslenskt sumar er fullkomnað... þegar hægt er að fara í berjamó, sækja kartöflurnar í garðinn og blóðbergið er enn í blóma.

Fallegasti staðurinn? Eyjafjörður endilangur.

Bókin og tónlistin? Það hefur lengi staðið til að taka fram bókina Bör Börsson eftir Johan Falkberget í þýðingu Helga Hjörvar. Best er að hlusta á þá tónlist sem maður hefur smekk fyrir! Ég ætla að hlusta á Óratóríuna Salomon eftir G.F. Handel til undirbúnings fyrir Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju í ágúst.

Hesteyri í eftirlæti

Íslenskt sumar er fullkomnað... ef maður nær að drekka gott glas með góðum vini í miðnætursólinni og rekja raunir sínar í leiðinni. Íslenskt sumar þarf ekki mikið til að vera fullkomnað því það er svo stutt og svo lítið í samanburði við önnur sumur og okkar langa vetur að bara birta sumarsins allan sólarhringinn gerir mann betri og glaðari og þakklátan.

Fallegasti staðurinn? Hesteyri við samnefndan fjörð í Jökulfjörðum er í uppáhaldi. Sennilega af því að það er mynd frá þessum stað uppi á vegg hér heima.

Bókin og tónlistin? Hundrað ára einsemd og mig langar að lesa Sigurðar sögu þögla í sumar. Gnossiennes eftir Erik Satie og Gymnopedíurnar hans.

Jarðarber á sumarkvöldi

Íslenskt sumar er fullkomnað ... með sólríku og mildu sumarkvöldi og jarðarberjum.

Fallegasti staður á Íslandi? Svarfaðardalur, öndvegi íslenskra dala.

Bókin og tónlistin?

Bangsímon og Leonard Cohen.

Sniglabandið í sumarfríinu

Íslenskt sumar er fullkomnað þegar... sumarnóttin er björt og óendanleg. Ekkert er skemmtilegra en að vera úti í íslenskri náttúru, finna lyktina, sjá litina í flórunni og hlusta á fuglasöng

Fallegasti staðurinn? Þingvellir er staðurinn. Fegurðin, sagan og jarðfræðin heilla

Bókin og tónlistin?

Ég les ekki bækur í sumarfríi – hef ekki tíma til þess. Hlusta á eitthvað fallegt og ljúft eins og t.d. nýja útsetningu Sniglabandsins á ballöðunni „Ég er að tala um þig“ – alveg ótrúlega poppað og flott.

Grímsey galdrastaður

Íslenskt sumar er fullkomnað þegar... veðrið er fallegt og maður vaknar snemma með fjölskyldunni til að fara algerlega stefnulaust inn í daginn. Kíkja í sund, fara í kaffi til vina og vandamanna, sitja á pallinum fram á kvöld grillandi, hlæjandi og hafa ekki minnstu áhyggjur af háttatíma barnanna, þau mega þess vegna fara grútskítug og útkeyrð í háttinn.

Fallegasti staðurinn? Það er ósanngjarnt að gera upp á milli staða innanlands. En Grímsey er í mínum huga, og engan veginn hlutlaust mat, fallegasti staður jarðar yfir hásumarið.

Þegar eyjan er dökkgræn og iðar af mannlífi og fuglagargið þagnar aldrei nema í hálfa mínútu um nótt þegar sólarljósið tyllir sér niður fyrir sjóndeildarhringinn í örfáar sekúndur. Orka frá öðrum tíma. Eitthvað dularfullt og sérstakt. Mývatn líka, enda er ég svo mikill fuglapervert að það er ómögulegt að nefna það ekki.

Bókin og tónlistin? Er að lesa Öræfi eftir Ófeig, Illsku eftir Eirík Örn og Glæp og refsingu eftir Fjodor vin minn. Twitter á hverjum degi. Ég gæti haldið áfram með lista yfir tónlist í allan dag.