Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir er tvítugur stangarstökkvari hjá Breiðabliki. Hún útskrifaðist úr MH í vor en mun setjast á skólabekk í Bandaríkjunum í haust, þar sem hún bjó í sex ár sem barn.

Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir er tvítugur stangarstökkvari hjá Breiðabliki. Hún útskrifaðist úr MH í vor en mun setjast á skólabekk í Bandaríkjunum í haust, þar sem hún bjó í sex ár sem barn.

Hvað varstu gömul þegar þú byrjaðir að æfa stangarstökk og hvernig kviknaði áhuginn?

Ég byrjaði að æfa stangarstökk 17 ára. Ég hef alltaf verið íþróttamanneskja og á erfitt með að vera ekki að æfa neitt. Eftir leiðinlegt bakbrot þurfti ég að enda fimleikaferilinn minn og fór að leita að einhverju nýju. Það tók mig smátíma að finna stangarstökkið en leitin var þess virði. Ég spurði stelpu sem æfði stangarstökk hvort ég mætti fara með henni á æfingu og þar kviknaði áhuginn strax. Mér fannst svo heillandi að geta flogið.

Þú varst að skrifa undir samning við háskóla í Bandaríkjunum – hvernig kom það til?

Mig langaði alltaf að snúa aftur til Bandaríkjanna eftir að ég flutti heim til Íslands. Fyrir ári byrjaði ég að skoða skólastyrki. Kærastinn minn, Sindri Hrafn Guðmundsson, sem er einn besti spjótkastari í heiminum í sínum aldursflokki, vildi skoða þetta líka en hann hafði fengið nokkur boð frá þjálfurum. Við höfðum samband við fyrirtæki sem heitir Scholarbook og er staðsett í Þýskalandi og spurðum hvort við gætum komist saman á styrk. Ég fékk hjálp hjá starfsmanni þeirra við alls konar stúss og umsóknir og að lokum fengum við tilboð frá meira en tíu skólum. Við tókum svo saman ákvörðun að skrifa undir samning hjá Utah State University og flytjum í ágúst til Logan, Utah í íbúð sem er við hliðina á æfingasvæðinu þarna. Við ætlum að læra, æfa og bæta okkur eins og brjálæðingar.

Hversu oft æfirðu?

Það fer eftir tímabili, á uppbyggingartímabili eru 6-10 æfingar á viku en á keppnistímabili eru yfirleitt bara 5-6 æfingar í viku. Svo hlustar maður á líkamann, ef ég er dauðþreytt þá tek ég léttari æfingu eða hvíli einn dag.

Hvernig heldurðu þér í formi þegar þú ert í fríi?

Þegar ég á að fara í frí eða taka mér hvíldartímabil þá á ég bara að reyna að æfa sem minnst. Þjálfarinn minn í Bandaríkjunum vill til dæmis núna að ég hvíli í tvo mánuði áður en ég kem til hans og ég má þá skokka, synda og hjóla svo lengi sem ég fer varlega. Ég þarf þá bara að passa mataræðið í staðinn. Mér finnst gott að nota fríin í að gera aðra hluti sem mér finnst gaman að. Ég fer ég oft í snjóbrettaferðir eða á hestbak. Mér finnst gott að breyta til og fá harðsperrur í nýja vöðva.

Áttu einhver áhugamál?

Snjóbretti, hestar, fimleikar, dans, lacrosse, að ferðast og ef ég kynni á brimbretti væri það klárlega áhugamál.

Leggurðu mikið upp úr heilbrigðu líferni?

Algjörlega. Maður fær einn líkama til að búa í alla ævi og maður á að gera sitt besta til að fara vel með hann. Það munar svo miklu fyrir andlega og líkamlega vellíðan að vera í góðu formi.

Hvaða freistingar áttu erfiðast með að standast?

Ef ég fæ þá tilfinningu að ég þurfi að standa á höndum þá geri ég það eiginlega alltaf, sama hvar ég er. Svo er það líka mangó, pitsa, sushi og Netflix.

Hvaða ráð hefurðu handa þeim sem eru að byrja að æfa stangarstökk eða aðrar frjálsar íþróttir?

Erfiðasta skrefið er að byrja! Svo er líka gott að muna að allir byrjuðu einhvers staðar. Stangarstökk er íþrótt sem krefst þess að maður sé mjög þolinmóður. Ekki bera árangur þinn saman við árangur hjá öðrum. Það er enginn nákvæmlega eins og þú.

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar?

Pabbi minn er fyrirmyndin mín í einu og öllu. Hann keppti fyrir meistaraflokk Fylkis í mörg ár og er ástæðan fyrir því að ég er íþróttamaðurinn sem ég er í dag. Ég var alltaf með stjörnur í augunum þegar ég horfði á hann spila. Stangarstökksfyrirmyndin mín er Demi Payne og er sú flottasta að mínu mati. Hún er 23 ára, á eins árs barn og keppir í Bandaríkjunum fyrir SFA. Hún er með sjúkan stangarstökksstíl og er yfirhöfðuð bara ótrúlega nett pía.

Hvaða áfanga fagnaðir þú síðast í íþróttunum?

Seinasta vetur bætti ég mig um 30 cm. Ég held að besta mómentið hingað til hafi verið þegar ég stökk 3,40 m á bikarmóti í mars síðastliðnum. Það er myndband af þessu á You Tube og þar sést hvað ég er glöð. Þetta eru stundirnar sem ég hleyp, lyfti og stekk fyrir á hverjum degi.

Hvað er á döfinni hjá þér næstu vikur í íþróttunum?

Ég á eina viku eftir af æfingum og svo á ég að hvíla þangað til að ég fer til Bandaríkjanna. Svo byrja ég að æfa á fullu í annarri eða þriðju vikunni í september.