Heitið á næstu viðbót í snjallsímaflóru Samsung er Galaxy A8. Síminn var kynntur í Kína síðastliðinn miðvikudag og mun hann verða þynnsti sími Samsung hingað til, eða aðeins 5,9 millimetrar á þykkt. Síminn er því lítið eitt þynnri en forveri hans, A7 týpan, sem taldi 6,3 millimetra. Því til samanburðar má benda á að einn mest seldi Samsung síminn, Galaxy S6, er 7,1 millimetri að þykkt.
Talið er að A8 týpan muni kosta tæpar 70.000 krónur. Bent hefur verið á að þrátt fyrir að síminn sé þynnri en iPhone 6 síminn frá Apple (6,9 mm) sé hann þar með ekki sagt þynnsti sími sem framleiddur hefur verið.
Þá þykir lærðum fróðlegt að næsti iPhone muni mögulega vera þykkari en þær gerðir sem Apple teflir fram í dag. Fortune sagði til dæmis nýlega frá því að næsta útgáfa iPhone myndi vera 0,2 millimetrum þykkari, eftir því sem greinendur Apple spá fyrir um.
Hér er það hins vegar útlitið sem er í forgrunni. Galaxy A8 er óneitanlega mikið fyrir augað en innbúið er ekki nema í meðallagi gott.
Vandinn er líka að þykkari snjallsímar geta geymt stærri rafhlöður og þar af leiðandi enst lengur í notkun. Þykkt getur því skipt sköpum þegar kemur að snjallsímakaupum.