Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorkuverkefnis Landsvirkjunar, segir möguleika Íslands á sviði vindorku vera mikla. Rannsóknir á tveimur vindmyllum séu jákvæðar en nýtingahlutfall þeirra hafi verið 44 prósent.
Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorkuverkefnis Landsvirkjunar, segir möguleika Íslands á sviði vindorku vera mikla. Rannsóknir á tveimur vindmyllum séu jákvæðar en nýtingahlutfall þeirra hafi verið 44 prósent. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Vindorka hefur verið vannýtt auðlind á Íslandi en nú eru áform um að setja upp tugi vindmyllna til að beisla krafta vindsins. Vilhjálmur Andri Kjartansson vilhjalmur@mbl.is

Vindorka er verulega vannýtt auðlind og þó að vöxtur vindorkubúa hafi verið töluverður á undanförnum árum er vindorka innan við fimm prósent af heildarorkuframleiðslu Bandaríkjanna. Því hefur stundum verið haldið fram að vindorka sé komin á endamörk tækniframfara og ekki sé hægt að gera mikið meira til að lækka kostnað og afköst vindmylla.

Þessu er Jose Zayas, framkvæmdastjóri Department of Energy's Wind and Water Power Technologies Office í Bandaríkjunum, ósammála og líkir þróun í vindorku við þróun nýrra bíla

„Á báðum sviðum er um að ræða tækni sem við þekkjum og skiljum mjög vél en hvorug tæknin er komin á endastöð þróunar. Nýjungar í bílum eru fjölmargar, allt frá myndavélatækni, þróun rafmagnsbíla og sjálfkeyrandi bíla. Það er enn nóg svigrúm til að bæta bíla. Sömu lögmál eiga við um vindmyllur og við erum enn að sjá mikla þróun á sviði vindorku og munum sjá á næstu árum.“

Nýjungar í þróun vindmylla og aukin áhersla á hreina orkugjafa hefur þó eftir allt saman fært hlutfall orkuframleiðslu frá vindorku úr 0,36 prósent árið 2004 í 4,83 prósent í byrjun þessa árs. Vindorka gæti því orðið 10 prósent af orkuframleiðslu Bandaríkjanna einhvern tíman á næstu tíu árum.

Enginn vindur á Íslandi?

Vindorkan er komin til að vera og ætlar að sækja í sig veðrið, ef svo má að orðið komast, á næstu árum og áratugum. Þessa auðlind hafa Íslendingar hins vegar lítið sem ekkert nýtt sér, þrátt fyrir að hér á landi virðist sjaldan eða aldrei gott logn.

Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorkuverkefnis Landsvirkjunar, segir helstu ástæðu þess að Íslendingar hafi hingað til ekki nýtt sér vindinn í orkuvinnslu í meira mæli hafi verið góður aðgangur að ódýrum vatnsafls- og jarðvarmaorkukostum.

„Við höfum þessa tvo frábæru kosti í annars vegar vatnsaflinu og hins vegar í jarðvarmanum sem hafa fullnægt eftirspurninni og þess vegna ekki þurft að skoða aðra kosti til þessa. Þá hefur vindorkan verið dýrari hingað til en vegna mikillar eftirspurnar eftir hreinni orku hefur tækninni fleygt fram og kostnaður hríðfallið. Þetta skýrist ekki síst af aukinni umhverfisvitund fólks um allan heim og áhuganum á því að skipta út mengandi orkugjöfum eins og t.d. kola- og gasorkuverum fyrir hreina orkugjafa. Vindorkan er svarið við því kalli og fyrir vikið er hún töluvert hagkvæmari í dag en fyrir fáeinum árum,“ segir Margrét og bendir á að víða í heiminum sé vindorka ódýrasti valmöguleikinn þegar kemur að byggingu nýrra virkjana. Einnig er Ísland meðal þeirra svæða í heiminum þar sem vindur á landi er hvað mestur.

Vel yfir heimsmeðaltali

Í desember árið 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur á hraunsléttu norðan við Búrfell í Þjórsárdal. Um er að ræða stærstu vindmyllur sem reistar hafa verið á Íslandi en mastrið sem heldur hvorri myllu er 55 metrar á hæð.

„Við settum vindmyllurnar fyrst og fremst upp til að kanna rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður ásamt því að skoða áhrif ísingar, ösku, jarðvegs og áhrif á dýra- og mannlíf. Vonir okkar stóðu til þess að nýtingarhlutfall vindmyllanna fyrir ofan Búrfell gæti náð á bilinu 35 til 36 prósent yfir árið en það er helsti mælikvarði á hagkvæmni staðsetningar. Fyrir fyrsta dagatalsárið reyndist nýtingin hins vegar vera 44 prósent sem var vonum framar og enn í dag er nýtnihlutfallið svipað.“

Orkunýting vindmylla Landsvirkjunar er því töluvert yfir heimsmeðaltali sem að sögn Margrétar er 28 prósent og telur hún þá með vindmyllur á sjó úti sem almennt skila hærra nýtnihlutfalli en vindmyllur á landi.

Hver er þá möguleiki Íslands í nýtingu á vindorku? Er þetta einhver orka sem kemur frá einni vindmyllu?

„Þessar vindmyllur sem við höfum sett upp hér eru frekar litlar á heimsmælikvarða þótt okkur kunni að finnast þær stórar. Þær vinna hvor um sig um 900 kW að hámarki og sé miðað við 40 prósent nýtingu gætu þær fullnægt orkuþörf um 700 heimila hvor.“

Mögulega fleiri vindmyllur

Vindurinn fer víða á Íslandi og mörg svæði koma til greina við uppsetningu á vindmyllum. Margrét bendir þó á að þær muni þjóna Landsvirkjun best í samspili við vatnsaflið.

„Mikil samlegðaráhrif eru með vindorku og vatnsorku. Vindasömustu mánuðir ársins eru einnig þeir mánuðir þar sem vatnsrennsli í uppistöðulón er minnst. Vindmyllurnar geta þá unnið rafmagn á meðan vatnsaflstöðvar spara vatn til að nota þegar vinda hægir. Við vinnum nú að hönnun vindlundar með allt að 200 MW uppsett afl á sama svæði og rannsóknarvindmyllurnar eru staðsettar. Fyrirhugaður virkjunarkostur gerir ráð fyrir allt að 80 vindmyllum sem eru töluvert stærri en þær sem fyrir eru.“

Spurð um frekari uppsetningu vindmyllna á Íslandi og hvort þær nýtist eingöngu til jöfnunar við aðra orkugjafa segir Margrét vindinn spennandi kost og ný tækni geri hann enn meira spennandi og vísar þá m.a. í nýja orkugeymslutækni frá fyrirtækinu Tesla.