Stjórn Lýðheilsufélags læknanema frá vinstri: Hallbera Guðmundsdóttir, Íris Kristinsdóttir, Elísabet Daðadóttir, Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sandra Seidenfaden, Arna Björt Bragadóttir og Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir.
Stjórn Lýðheilsufélags læknanema frá vinstri: Hallbera Guðmundsdóttir, Íris Kristinsdóttir, Elísabet Daðadóttir, Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sandra Seidenfaden, Arna Björt Bragadóttir og Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átta ungar konur í stjórn Lýðheilsufélags læknanema hittust eina kvöldstund og gæddu sér á eftirréttum. Umræður snerust um blóð, krufningar og yfirlið læknanema. Myndir og texti: Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það var kátt á hjalla í Grafarvoginum þegar saman komu læknar framtíðarinnar sem allar sitja í stjórn Lýðheilsufélags Læknanema. Miðað við áhugann á faginu verða landsmenn í góðum höndum þegar þær fara út á vinnumarkaðinn því umræðurnar snerust allar um blóð, aðgerðir, lyfjagjafir, hægðatregðu og fleira sem kannski heyrist ekki í venjulegum samkvæmum ungra kvenna.

Líður stundum yfir læknanema

Átta af þeim tíu sem í stjórninni eru mættu í eftirréttaboðið sem ein úr hópnum, Elísabet Daðadóttir, sá um að halda en gestir voru þær Hallbera Guðmundsdóttir, Íris Kristinsdóttir, Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sandra Seidenfaden, Arna Björt Bragadóttir og Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir. Eftir að hafa skálað í bláberja-mojito var sest til borðs. Við hliðina á kökum og kræsingum lágu bæklingar frá blóðbankanum og snerist nú umræðan um blóð. Þær ræddu hvort þær vildu fara í skurðlækningar eða lyflækningar. Ein sagði að sér liði hálfilla þegar hún sæi blóð eða væri viðstödd aðgerð og ætlaði pottþétt í lyflækningar. „Mér finnst blóð fallegt,“ sagði Anna Kristín þá alvarlega og þær hlóguallar. Þá var farið yfir hluti eins og að falla í yfirlið sem gerist stundum og þykir ekkert skammarlegt. „Ég held að læknum finnist bara fyndið ef það líður yfir læknanemann,“ sagði ein og hláturinn hélt áfram.

Minnisreglur fyrir lyfjagjafir

Stjórnin hittist einu sinni í mánuði að jafnaði til að fara yfir lýðheilsumál, en þær sjá um Bangsaspítalann á haustin og um blóðgjafamánuð í Háskóla Íslands sem er árlega í marsmánuði. Þar fyrir utan skipuleggur félagið málþing um málefni sem ofarlega eru á baugi í samfélaginu og efndu til dæmis til slíkra þinga um bólusetningar í vetur, sem og kærumál í heilbrigðiskerfinu. Þær gera sér glaðan dag annað slagið með matarboðum og eru þá stundum með þema. Síðast komu þær í búningum sem áttu annaðhvort að vera lyf eða sjúkdómar og voru þar ýmsir áhugaverðir búningar á ferð. „Það var mjög skrautlegt boð,“ segir Guðrún. „Við ræddum minnisreglur sem gott er að nota til að rugla ekki saman lyfjum. Til dæmis immovane og immodium. Það er algengt að rugla þessu saman en annað er svefnlyf og hitt er mjög stemmandi. Ekki gott að gefa svefnlyf þeim sem eru með niðurgang!“ segir Guðrún. „Arna Björt benti okkur á að hún myndi þetta þannig að immo vane er fyrir van svefta,“ segir hún. Yfir þessum pælingum gæddu þær sér á eftirréttunum sem runnu ljúflega niður með bláberja-mojito og Baileys.

Mömmu-tiramisu

6 eggjarauður

6 msk. sykur

500 g mascarpone-ostur

½ dl tía maría líkjör

1 msk. koníak

6 eggjahvítur

2-3 pakkar Lady fingers kökur

smávegis sterkt kaffi

kakó og suðusúkkulaði til skrauts

Þeytið eggjarauður og sykur mjög vel.

Setjið Mascarpone-ost varlega út í.

Smakkið með líkjörum.

Stífþeytið eggjahvítur og blandið saman við.

Raðið kökunum þétt í botn á formi og bleytið með kaffi. Setjið síðan krem yfir, svo aftur kökur, kaffi og krem að lokum.

Skreytið með rifnu suðusúkkulaði og sigtuðu kakói.

Eldheitur einleikur

200 g smjör

200 g púðursykur

200 g hveiti

170 g haframjöl

1 tsk. lyftiduft

1 egg

Í deigið má setja fræ og hnetur og sultu eftir smekk – rabarbarasulta er góð, hér var henni blandað til helminga með bláberjasultu.

Hitið ofninn í 180°C.

Setjið allt í hrærivélarskál og hrærið saman. Skiljið hnefafylli af deigi eftir en þrýstið afganginum ofan í vel smurt mót. Smyrjið sultunni ofan á og myljið restina af deiginu ofan á. Bakið í u.þ.b. 25-30 mín. Best er að baka hana eins lítið og maður kemst upp með.

Súkkulaðitrufflur

100 g suðusúkkulaði

200 g 70% súkkulaði

3 dl rjómi

50 g ósaltað smjör

1-2 msk. butterscotch-líkjör

kakóduft eftir þörfum

Saxið súkkulaðið og setjið í skaftpott með rjóma og smjöri. Hitið saman við vægan hita og hrærið í. Takið pottinn af hellunni þegar blandan er orðin slétt og samfelld. Látið kólna í nokkrar mínútur, hrærið líkjörnum út í. Hellið í skál og látið standa í ísskáp í 2-3 klst. Mótið kúlur með teskeið og veltið vandlega upp úr kakói. Raðið á smjörpappírsklædda bökunarplötu, sem svo er geymd í kæli.

Ostasalat

1 Mexíkóostur

1 Paprikuostur

1 Bóndabrie

1 dós létt majones

1 rauð paprika

rauð og græn vínber eftir smekk

Skerið ostana í litla bita og blandið saman við majonesið. Skerið paprikuna smátt og vínberin í helminga og bætið út í. Hrærið vel í salatinu. Gott að láta standa í ísskápnum í nokkrar klst. áður en borið er fram. Salatið er líka gott með púrrulauk og/eða ananasi út í. Má skreyta með jarðarberjum og vínberjum.

Skyrkaka blóðgjafans

2/3 pakki af LU bastogne-kexi

½ l rjómi

500 g vanilluskyr frá KEA

flórsykur eftir þörfum og andlegu ástandi

250 g frosin hindber

smásykur

rifið suðusúkkulaði til skrauts

Takið frá helminginn af hindberjunum og sjóðið í mauk í smávatni og sykrið eftir smekk.

Myljið kexið og setjið í botninn á fatinu sem bera á kökuna fram í.

Þeytið rjómann. Þeytið saman skyr og flórsykur í annarri skál. Blandið rjómanum varlega saman við skyrið og setjið kexmulninginn ofan á. Hellið berjamaukinu yfir kökuna og notið berin sem eru eftir í skreytingu. Rífið að lokum suðusúkkulaðið og dreifið yfir kökuna.

Bláberja-mojito

4 cl ljóst romm

2 tsk. hrásykur

5 stór mintulauf

3 msk. bláber

½ lime

Mulinn ís

7up

Setjið romm og hrásykur í stórt glas. Merjið mintu í höndum og bætið út í ásamt bláberjunum og hrærið öllu saman með skeið. Skerið lime niður í litla teninga og hver og einn teningur er kreistur áður en honum er bætt í glasið. Fyllið næst glasið barmafullt af muldum ís og fyllið svo með 7up. Setjið rör í drykkinn og notið það til að blanda.

Gamla góða súkkulaðikakan – fjölskylduuppskriftin

2,5 dl sykur

3 egg

1,5 dl olía

2,5 dl hveiti

1 dl kakó

1 tsk. lyftiduft

(gott að láta 1 tsk. kanil í)

Hrærið sykur, egg og olíu saman þannig það verður létt og ljóst. Blandið svo lyftidufti og kakó út í hveiti og blandið saman við blautefnin. Bakið við 175°C í 40 mínútur.

Krem:

flórsykur

kalt vatn

rauður matarlitur

ef vill

Sigtið flórskykur og kalt vatn í hlutföllum sem mynda mátulega þykkt krem. Bætið rauðum matarlit út í. Innblásturinn var blóð til að minna fólk á mikilvægi blóðgjafa.