Sýnishorn Ragnheiður með hluta af því sem viðskiptavinum hennar býðst til að prjóna á námskeiðunum.
Sýnishorn Ragnheiður með hluta af því sem viðskiptavinum hennar býðst til að prjóna á námskeiðunum.
Ragnheiður Sjöfn Jóhannsdóttir rekur fyrirtækið Culture and Craft en hún á afmæli í dag. „Þetta fyrirtæki býður upp á menningar- og prjónaferðir og eru í boði þriggja tíma námskeið og einnig fjögurra daga og sjö daga námskeið.

Ragnheiður Sjöfn Jóhannsdóttir rekur fyrirtækið Culture and Craft en hún á afmæli í dag. „Þetta fyrirtæki býður upp á menningar- og prjónaferðir og eru í boði þriggja tíma námskeið og einnig fjögurra daga og sjö daga námskeið. Lengri námskeiðin eru í samstarfi við Esju Travel og er búið að skipuleggja þau fram í maí. Þriggja klukkustunda námskeiðin eru alla mánudaga og föstudaga allt árið um kring og eru haldin á Hótel Laxnesi í Mosfellsbæ.“

Ragnheiður hefur langa reynslu af prjónaskap og er áhugasöm um jurtalitun og vinnu með handspunnið band. „Útlendingar eru alveg ótrúlega duglegir að koma á námskeiðin, allt frá því að koma í einkakennslu og yfir í að stórir hópar mæti á námskeið. Ég hef mest verið með 70 manna hóp og þurfti þá að fá fullt af handavinnukennurum.

Það sem er séríslenskt við námskeiðin er íslenska ullin og útlendingar eru mjög áhugasamir um okkar prjónaaðferðir og ekki síst íslensku lopapeysuna. Þeim finnst gaman að takast á við íslensku ullina og sjá hvernig hún var unnin enda er hún allt öðruvísi. Kindurnar okkar eru orðnar ansi „gamlar“, komu hingað með víkingunum og hafa lítið breyst. Mér finnst íslenska ullin bara fallegri og hrárri en margar aðrar tegundir.

Í tilefni afmælisins ætla ég að skreppa til Írlands í hringferð um landið. Ég hef oft komið til Dublinar en lítið farið út fyrir borgina. Ég stend í þeirri meiningu að ég sé með írskt blóð í æðunum mínum enda rauðhærð. Ég er mjög hrifin af Írum og öllu sem írskt er. Tónlistin hentar mér vel og mér finnst ég dálítið eiga heima þar þegar ég kem þangað.“

Ragnheiður er ekkja og á tvo uppkomna syni og tvö barnabörn. Synir hennar eru Eggert Sólberg Jónsson, framkvæmdatjóri GEO Park, og Magnús Elfar Jónsson, grafísikur hönnuður hjá Gagarín.