Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst aftur leggja fram frumvarp á næsta þingi sem takmarkar aðgang almennings að upplýsingum úr skattskrám og birtingu þeirra.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst aftur leggja fram frumvarp á næsta þingi sem takmarkar aðgang almennings að upplýsingum úr skattskrám og birtingu þeirra. Verði frumvarpið samþykkt væri útgáfu tekjublaðanna sjálfhætt, þar sem hver og einn einstaklingur mætti aðeins fletta upp þremur einstaklingum í skattskrá og ekki væri hægt að fletta upp þúsundum einstaklinga eins og gert er við gerð blaðanna.

Þá skerpir frumvarpið á því að heimild skattaðila þurfi fyrir opinberri birtingu upplýsinga. Því mun ríkisskattstjóri ekki geta tekið saman og sent á fjölmiðla lista yfir „skattakónga“ hvers árs. Sigríður segir mjög nauðsynlegt að það séu tekin af öll tvímæli um það, að þessi vinnubrögð ríkisskattstjóra séu ólögmæt. Engin venja myndi rétt fyrir opinbera starfsmenn til að brjóta lögmæltan trúnað.

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, segir að það væri mjög mikil afturför ef settar væru miklar hömlur á birtingu skattupplýsinga fólks. Hann telur að í ljósi aukins ójafnaðar í tekju- og eignaskiptingu á Vesturlöndum hljóti menn að sjá að ef ekki væri veittur aðgangur að opinberum upplýsingum skattkerfisins, þá væru heilmiklar hömlur settar á upplýsingar fólks í lýðræðissamfélögum um hvað væri að gerast í samfélaginu. Hann vill líta til Noregs, þar sem hægt er að fletta upp einstaklingum allan ársins hring og slíkar upplýsingar eru álitnar sjálfsagðar. 2