Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir fæddist 22. október 1962. Hún lést 6. júlí 2015.

Útför hennar fór fram 17. júlí 2015.

Elsku besta Inga Sigga, mér finnst svo óraunverulegt að ég sitji hérna heima og skrifi minningargrein um þig. Það er mikil sorg sem ríkir hjá okkur, fólkinu þínu núna. Þú barðist hetjulega við þennan ömurlega sjúkdóm sem enginn á skilið að fá. Guð hefur nú fengið þig til sín og mikið er hann heppinn með það því þú ert svo einstök manneskja. Þegar maður gengur í gegnum erfiða tíma, þá eru það minningarnar sem hjálpa manni og ég á þær óteljandi til að ylja mér. Þú hefur verið í lífi mínu síðan ég man eftir mér. Mamma tvö eins og ég kallaði þig stundum.

Ég man þegar þú hringdir í mig og bauðst mér að koma yfir til þín og læra að búa til kjötsúpu, það var sko skemmtilegt.

Ég man eftir svo mörgum kvöldum sem við fjölskyldurnar áttum saman bæði í númer 8 og í númer 3. Við Aron vorum oft að brasa ýmislegt og ég man í eitt skiptið þegar við vorum í eltingarleik og það mátti ekki snerta gólf, við hoppuðum á glerborðið í stofunni ykkar Gumma og brutum það, við vorum heldur betur skömmustuleg en þið voruð ekkert reið við okkur. Þú varst aldrei reið, alltaf svo skemmtileg og yndisleg. Ég man þegar ég fékk að gista hjá ykkur einn virkan dag, það var skóli daginn eftir og þú vaktir okkur Aron með því að syngja „Siggi fór í bæinn og Siggi fór í búð, Siggi sat á torginu og var að borða snúð.“ Ég hef aldrei vaknað jafn hress og kát eins og þennan morgun.

Ég man eftir spilakvöldunum sem við fjölskyldurnar áttum saman, mér fannst skemmtilegast að vera með þér í liði. Þá vann ég sko alltaf!

Ég man þegar ég var nýbúin í kjálkaskurðaðgerðinni og gat ekki talað, þá hlógum við mikið. Þegar við gátum hvorug talað og töluðum saman í „Dóru“. Ég get skrifað endalaust um minningar sem ég á tengdar þér því þær eru óteljandi. Þú gerðir svo ótrúlega margt fyrir mig, kenndir mér svo margt. Ég á þér margt að þakka, elsku mamma tvö.

Ég er svo þakklát fyrir það að þú hafir treyst mér í það verkefni að farða þig og gera fínt í hárið þitt þegar þú varst hætt að geta gert það. Ég mun geyma allar stundirnar sem við áttum saman vel í hjarta mínu. Stundirnar sem við hlógum og grétum saman til skiptis eru mér mikilvægar. Stundin þegar ég og Tinna komum í heimsókn til þín upp á sjúkrahús var ljúf og góð. Þegar ég lá hjá þér, fann hjartað þitt slá, þú hélst í höndina mína og kreistir hana af og til. Stundin þegar við Tinna vorum að labba út, snerum okkur við og þú gafst okkur fingurkoss. Þeirri stund mun ég aldrei gleyma.

Ég veit að þér líður betur núna. Þetta líf er svo óútreiknanlegt og skrítið stundum.

Takk fyrir allt, elsku besta Inga Sigga. Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna. Takk fyrir að vera alltaf svo frábær og yndisleg. Ég tel mig vera afskaplega lánsama að hafa fengið að tengjast þér svo vel. Þú munt alltaf eiga risastóran stað í hjartanu mínu. Ég elska þig, alltaf.

Þín,

Helga Þuríður

Hlynsdóttir Hafberg.

Það var döpur stund þegar okkur bárust fréttir af alvarlegum veikindum Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur (Ingu Siggu), kennara við Grunnskólann á Ísafirði, og síðan sorgarfregn um andlát hennar nú í byrjun júlímánaðar.

Við hjónin eigum einkar ljúfar minningar frá kynnum okkar af þeim hjónum, Guðmundi Salómoni Ásgeirsyni (Gumma Sala) og Ingu Siggu, frá Ísafjarðarárum okkar. Það var einmitt Gummi Sali sem sótti búslóðina okkar í Hrútafjörð árið 1995 og flutti okkur vestur og síðan til Reykjavíkur að sjö árum liðnum. Kynnin við Ingu Siggu voru einstaklega ljúf og gefandi þar sem hún var kennari við Grunnskólann á Ísafirði. Hún var þá að ljúka kennaranámi og horfði björtum augum til framtíðar. Inga Sigga var einn af þeim kennurum sem helga sig starfinu, stöðugt vakandi og áhugasöm um að gera betur og halda vel utan um hópinn sinn. Það var styrkur fyrir skólann að hafa Ingu Siggu í öflugum og samhentum starfsmannahópi Grunnskólans á Ísafirði þar sem lagður var grunnur að farsælli skólagöngu nemenda og góðum námsárangri.

Í byrjun ágústmánaðar á síðasta ári vorum við hjónin svo heppin að hitta Ingu Siggu og Gumma Sala ásamt börnum og tengdabörnum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þar sem þau dvöldu yfir verslunarmannahelgina. Það var sterk upplifun og ljúfsár að skynja samheldnina og kærleikann í samskiptum fjölskyldunnar. Þá var Inga Sigga söm við sig, rifjaði upp minningar úr skólanum og glettnar sögur m.a. af yngsta syninum sem fannst hann líkjast skólastjóranum þegar hann mátaði jólafötin.

Á þessum erfiðu tímum viljum við hjónin votta ástvinum Ingu Siggu innilega samúð okkar í sorg þeirra. Við þökkum vináttu og góð kynni og geymum með okkur minningu um einstakan kennara og góðan vin.

Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, fv. skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, Elísabet Kristjánsdóttir, barnabarn Sigurðar Salómonssonar úr Folafæti.