Rannveig Björnsdóttir, dósent í auðlindafræðum við Háskólann á Akureyri og fagstjóri eldis og ræktunar hjá Matís, segir að fyrstu niðurstöður í rannsókn á skógarkerfli, sem gerð var í fyrra, gefi vísbendingar um að hægt væri að nýta einhvern hluta plöntunnar, vegna þeirrar háu andoxunarvirkni sem hafi fundist í plöntunni, sem er alla jafna skilgreind sem illgresi.
„Það var nemandi minn við Háskólann á Akureyri, í samstarfi við Matarskemmuna á Laugum í Reykjadal og Matís, sem gerði þessa grunnrannsókn í fyrrasumar, en til verkefnisins fékkst smá styrkur,“ sagði Rannveig í samtali við Morgunblaðið.
Rannveig segir að niðurstöðurnar úr vinnu nemandans hafi leitt í ljós að skógarkerfill er með mjög háa andoxunarvirkni. Skiptar skoðanir séu um það hversu miklu af andoxunarefnum rétt sé að bæta á sig. „Það er mjög hátt hlutfall af andoxunarefnum í bláberjum, ýmsum öðrum ávöxtum og grænmeti og m.a. vegna þessa eru bláberin svona holl,“ segir Rannveig.
Rannveig segist vonast til að hægt verði að rannsaka skógarkerfilinn frekar, en ekki hafi fengist fjármagn til þess að halda áfram rannsóknum nú í sumar. Til dæmis þurfi að kanna önnur efni í skógarkerflinum, með það í huga hvort þau gætu nýst í ýmiss konar náttúrusmyrsl.
„Það sem er málið með þessar jurtir, skógarkerfilinn, hvönnina og fleiri jurtir, er að þótt holl efni finnist í þeim, sem hafa ýmis æskileg áhrif, þá geta líka verið í þeim efni sem í of miklu magni eru eitur. Við þurfum því að skoða kerfilinn frekar,“ sagði Rannveig. agnes@mbl.is