Sonus viðburðir (Sonus Events) í samstarfi við Coke og Viking standa fyrir hátíð um verslunarmannahelgina sem þeir skipuleggjendur segja þá stærstu á „fasta Suðurlandinu“.
Dagskráin verður fjölbreytt þannig að flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hún hefst föstudagskvöldið 31. júlí með pub-quiz í félagsheimilinu á Flúðum en í kjölfarið leikur hljómsveitin Á móti Sól fyrir dansi á sama stað.
Laugardagurinn fer af stað kl. 14 með furðubátakeppni, en Laddi kemur fram í félagsheimilinu um kvöldið og Stuðlabandið stendur fyrir dansleik.
Á sunnudeginum kemur Leikhópurinn Lotta fram um daginn en um kvöldið stýrir Grétar Örvarsson fjöldasöng í Torfdalnum. Hátíðinni lýkur svo klukkan 23 á sunnudagskvöldið með dansleik Sniglabandsins í félagsheimilinu. Frekari upplýsingar á SnapChat: fludirumverslo