Hylltur Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fékk hlýjar viðtökur hjá íbúum Kenýa þegar hann var þar í opinberri heimsókn um helgina.
Hylltur Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fékk hlýjar viðtökur hjá íbúum Kenýa þegar hann var þar í opinberri heimsókn um helgina. — AFP
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Þegar þú ferð að koma öðruvísi fram við fólk, vegna þess að það er öðruvísi, þá er farið að sverfa verulega að frelsi manna og slæmir hlutir gerast,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í gær með Uhuru Kenyatta, forseta Kenýa. Obama var í opinberri heimsókn í Kenýa, fæðingarlandi föður síns, um helgina.

Bandaríski forsetinn sagði við Kenyatta að ríkið hefði engan rétt til að refsa fólki fyrir það „hvern það elskar“. Líkti hann meðal annars fordómum gegn samkynhneigð við kynþáttamisrétti sem hann hefði sjálfur orðið fyrir í Bandaríkjunum.

Breska blaðið The Guardian segir að aldrei áður hafi áhrifamikill erlendur þjóðarleiðtogi boðið Afríkumönnum birginn með svo beinskeyttum hætti í opinberri heimsókn. Fyrir hana voru uppi getgátur um, að Obama myndi beina sjónum sínum að viðskiptum og öryggsmálum og horfa framhjá stöðu samkynhneigðra í landinu, en annað kom á daginn.

Sakaður um brot á fullveldi

Kenyatta lýsti því í kjölfarið yfir að hann væri ekki sammála Obama. „Það eru sumir hlutir sem við munum ekki ná saman um,“ sagði Kenyatta og bætti við að réttindi samkynhneigðra væru ekki framarlega í hugum landsmanna. „Það er erfitt fyrir okkur að þröngva einhverju upp á fólk sem það sjálft hefur ekki trú á.“

Í Afríku gætir mikilla fordóma gagnvart samkynhneigðum en samneyti á milli einstaklinga af sama kyni er ólöglegt í 36 af 54 Afríkulöndum og sætir dauðarefsingu í nokkrum þeirra. Þingmaður í ríkisstjórnarflokki Kenyatta lét hafa eftir sér að ummæli Obama væru smekkleysa og brot á fullveldi ríkisins. „Hann getur ekki komið hingað og sagt okkur hvað sé óviðunandi.“

Í heimsókninni fór Obama lofsamlegum orðum um efnahagslega stöðu landsins og framfarir í stjórnmálunum. Varaði hann þó við spillingu sem hann sagði hamla hagvexti og framþróun og líkti því við krabbamein.