Hvað er það sem dregur mann að skjánum að horfa á ofursætar vinkonur sem eru óaðfinnanlega klæddar og vel málaðar alla daga, jafnvel við dagleg störf? Svik og prettir, framhjáhald og fallegar konur er formúla sem selur.
Vinkonuþættir hafa lengi verið vinsælir og eru sennilegast vinkonurnar úr Sex & the City frægastar. Nú er hins vegar hægt að sjá nýjar vinkonur á skjánum en þátturinn Mistresses er nú sýndur á Stöð 2.
Þar má fylgjast með fjórum vinkonum sem eru hver annarri fallegri. Þær eru líka klárar og skemmtilegar í góðum störfum en eiga það sameiginlegt að vera í miklum vandræðum með að festa ráð sitt. Eins og gefur að skilja lenda þær í mun flóknari ástarflækjum en almennt gerist og gengur. Karlmenn hverfa og þykjast vera dauðir, það er hlaupist á brott úr eigin brúðkaupi og sofið hjá fyrrverandi manni systur sinnar. Giftir menn eru engin fyrirstaða hjá þeim, enda heitir þátturinn Hjákonur. Já, kærastar deyja eða fara eins og gengur en vinskapurinn er eilífur. Þetta væri jú ekkert spennandi ef þær myndu allar finna draumaprinsinn strax, giftast og verða ofurleiðinlegar úthverfahúsmæður.
Ásdís Ásgeirdóttir