Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Eftir Hallgrím Sveinsson: "Viðræður hinna bestu manna bak við tjöldin er þrautreynd aðferð í Íslandssögunni. Án þvingunar, dóms eða laga. Gerðardómur er óyndisúrræði."

Árið 1965 gekk Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, fram fyrir skjöldu og samdi við verkalýðshreyfinguna um byggingu 1.250 íbúða fyrir láglaunafólk í Breiðholti í Reykjavík. Þær voru fyrir efnalítið fólk sem það gat keypt með áður óþekktum lánskjörum. Þetta voru bullandi sértækar aðgerðir sem margir embættismenn og sérfræðingar voru alfarið á móti. Og margir sjálfstæðismenn. En sá gamli hafði síðasta orðið og lamdi þetta í gegn. Svo segir Styrmir í bók sinni Sjálfstæðisflokkurinn, Átök og uppgjör, Veröld, Rvk. 2012. Og enn segir hann:

„Á hverjum sunnudagsmorgni í margar vikur þetta vor og fram á sumar kom Guðmundur J. í heimsókn að Marbakka í Kópavogi og ræddi við Rút um stöðuna í kjarasamningunum. Sjálfur lýsti Guðmundur J. þessum heimsóknum á þann veg að hann væri að ganga í sunnudagaskóla til Finnboga Rúts. Niðurstaðan af samtölum þeirra varð sú að Rútur bað mig (sem orðinn var tengdasonur hans, þegar hér var komið sögu) að fara með tillögu til Bjarna Benediktssonar um lausn á samningunum á þeim grundvelli að ofangreindar íbúðir fyrir láglaunafólk yrðu byggðar.“ En Bjarni tók þessum tillögum strax vel segir þar. Þessi skemmtilega frásögn er skínandi fordæmi um viðræður hinna bestu manna bak við tjöldin til að leysa erfið mál.

Nú er svo málum komið með hjúkrunarfólkið okkar að nú duga ekkert nema sértækar aðgerðir í anda gamla Bjarna Ben. og Hannibals, Björns Jónssonar, Gvendar jaka og þeirra félaga. Hækkun launa núna til hjúkrunarkvenna um fleiri tugi prósenta þýðir einfaldlega sprengingu í þjóðfélaginu. Nei, nú þarf aðrar nótur. Bjóða hjúkrunarkonum (og sjúkraliðum líka!) upp á góðan díl. Einn liður í því gæti verið sértækar lánaaðgerðir til kaupa á íbúðum með góðum lánakjörum. Líkt og þeir vinirnir gerðu forðum fyrir þá sem ekkert áttu. Nema þá bara byggðu þeir Breiðholtið. Í dag eru alls konar aðrar aðgerðir mögulegar í þeim efnum. Sérfræðingarnir munu auðvitað hlæja slíkt út af borðinu. Það hafa þeir líklega einnig gert forðum. En gamli Bjarni sá hvað klukkan sló.

Nú slær óhug að mörgum við þeim tíðindum að hjúkrunarkonurnar okkar ætli að flytja til Noregs eða annarra landa. Svo er verið að leggja drög að því að flytja erlendar hjúkkur inn í staðinn! Hvers konar rugl er þetta? Auðvitað er þetta ekkert annað en bilun. Ef hægt er að koma í veg fyrir svona vitleysu með sértækum aðgerðum, þá það. Það er ekki leiðum að líkjast. En að skattyrðast í fjölmiðlum er sértæk aðgerð sem ekki gengur upp. Það þarf að prófa einhverjar aðrar aðgerðir í þaula. Viðræður hinna bestu manna bak við tjöldin við deiluaðila er þrautreynd aðferð í Íslandssögunni. Án þvingunar, dóms eða laga. Alþingi og ríkisstjórn virðast hafa klikkað alveg á þessu. Bara gerðardómur. Sáttanefnd með valdheimildir við hlið sáttasemjara var vonlaus. Nú þarf svolítið lag eins og menn notaðu á sínum tíma þegar allt var orðið vitlaust.

Höfundur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði.

Höf.: Hallgrím Sveinsson