Símtæki Fyrirtækin eru alltaf í sterkari stöðu en viðskiptavinurinn.
Símtæki Fyrirtækin eru alltaf í sterkari stöðu en viðskiptavinurinn. — Morgunblaðið/Kristinn
Sunna Sæmundsdóttir sunnasaem@mbl.is „Á Íslandi er staðan þannig að þú ert með sama aðila sem selur þér tækið og gerir við það.

Sunna Sæmundsdóttir

sunnasaem@mbl.is

„Á Íslandi er staðan þannig að þú ert með sama aðila sem selur þér tækið og gerir við það. Hvatningin er lögð á að þú eigir bara að kaupa þér nýtt,“ segir Bjartmar Alexandersson, hjá fyrirtækinu Grænum símum. Hann segir umboðsaðila á Íslandi vera í þeirri stöðu að geta túlkað ábyrgðarreglur sér í hag. Hjá Grænum símum er bæði rekin viðgerðarþjónusta auk þess sem endurnýttir símar eru seldir. Fyrirtækið hefur verið starfandi í sex ár og selt farsíma til stórra heildsala og einstaklinga erlendis. Í síðasta mánuði opnuðu þeir verkstæðið og verslunina fyrir einstaklinga á Íslandi.

Í viðgerðirnar eru notaðir enduruppgerðir varahlutir frá tjónatækjum. „Þessir varahlutir eru teknir af tjónatækjum en eru prófaðir og í fullkomnu lagi. Þess vegna getum við gert þetta ódýrt,“ segir hann en til dæmis kostar það 17 þúsund krónur að skipta um skjá á LG-síma hjá Grænum símum þegar þessir varahlutir eru notaðir. „Þetta er svipað og að kaupa hluti af bílapartasölu. Þig vantar eitthvað í bílinn en þú ert kannski ekki tilbúinn til þess að greiða stórfé fyrir varahlutinn hjá umboðinu,“ segir hann.

Bjartmar segist geta rekið þjónustu sem þessa á Íslandi vegna góðra samninga við erlend tryggingafélög, t.d. Gjensidige, eitt stærsta tryggingafélag í Skandinavíu.

Þá bendir hann á að umboðsaðilar á Íslandi bendi fólki á að leita til viðurkennds verkstæðis ef eitthvað kemur fyrir, s.s. skjárinn brotnar við högg. Þetta eigi að gera til þess að síminn haldist í ábyrgð. Viðskiptavinurinn þarf þannig að fara á sölustaðinn sem sendir tækið áfram í viðgerð.

Þar flækist málið þar sem fyrirtækin geta síðar litið svo á að ábyrgðin hafi í raun rofnað við höggið þegar skjárinn brotnar. Bjartmar segir suma framlengja ábyrðina þegar þeir gera við símann. Ef bilun komi upp síðar geti fyrirtækið sagt að síminn hafi áður komið inn vegna höggskemmda, bilunina megi rekja til þeirra og ábyrgðin gildi ekki lengur.

„Ef einhver trúir þessu ekki, vill annað álit og lætur kíkja á símann, hefur hann rofið ábyrgðina bara með því að láta einhvern opna símann og skoða,“ segir Bjartmar. „Þeir eru þannig í svokallaðri win-win stöðu og þrátt fyrir að þeir séu örugglega að gera allt rétt gerir ferlið það að völdum að fólk verður bara að fylgja því sem sagt er.“