Grikkland Alfreð Finnbogason er orðinn leikmaður Olympiacos.
Grikkland Alfreð Finnbogason er orðinn leikmaður Olympiacos. — EPA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Það var mjög freistandi að fara í lið sem vildi teygja sig langt til að fá mig,“ sagði Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið, en hann skrifaði undir eins árs lánssamning við gríska félagið Olympiacos um helgina. Alfreð yfirgefur þar með Real Sociedad eftir eins árs dvöl, en gríska félagið á forkaupsrétt á leikmanninum að lánstímanum loknum.

Alfreð kom til Sociedad eftir að hafa orðið markakóngur í hollensku úrvalsdeildinni árið áður með Heerenveen. Hann átti hins vegar erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili á Spáni. „Þetta var vissulega erfitt á köflum hvað varðar fótboltann, ég neita því ekki, en á sama tíma var þetta mjög gaman. Það skiptir ekki máli hjá hvaða liði þú ert, ef þú spilar ekki alla leiki þá ertu ekki 100% ánægður.

Ég meiddist snemma og var lengi að komast í gang og ég náði aldrei að komast úr fyrstu skrefunum hjá Sociedad sem gerði þetta erfitt. En tek allt það jákvæða úr reynslunni. Ég fékk að spila á móti bestu liðum og leikmönnum í heimi svo ég kem töluvert sterkari út úr þessu eftir árið,“ sagði Alfreð.

Meistaradeildin stór þáttur

Olympiacos er sigursælasta félag Grikklands frá upphafi. Liðið hefur unnið meistaratitilinn tíu sinnum á síðustu ellefu árum og er fastagestur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Sú staðreynd hafði mikið að segja í ákvörðun Alfreðs.

„Það var klárlega stór þáttur í þessu. Ef maður er ekki að spila í stærstu deildunum þá vill maður spila í Meistaradeildinni. Olympiacos er þar á hverju ári og ég hafði það sem markmið þegar ég byrjaði sem atvinnumaður að spila í Meistaradeildinni og ég er mjög ánægður að geta gert það hér,“ sagði Alfreð.

Bágur efnahagur og skuldastaða Grikklands hefur verið linnulaust í fréttum síðustu misseri, en Alfreð hefur engar áhyggjur af neinu slíku hjá Olympiacos. „Ég væri ekki að koma ef það væri einhver óvissa í kringum það hjá félaginu svo ég hef ekki miklar áhyggjur af þeirri stöðu,“ sagði Alfreð, sem heldur með sínum nýju liðsfélögum strax í dag til Hollands í tíu daga æfingaferð.

*Ítarlega er rætt við Alfreð á mbl.is/sport