Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Ég velti því fyrir mér hvort eðlilegt sé að íbúar í öðrum sveitarfélögum njóti niðurgreiðslu Reykvíkinga,“ segir Ingvar Jónsson, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar, og vísar í máli sínu til þess að á fundi ráðsins, sem haldinn var 16. maí síðastliðinn, óskaði hann eftir upplýsingum um dreifingu á áskriftarhópi Borgarleikhússins eftir búsetu á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundi ráðsins hinn 22. júní síðastliðinn var lagt fram svar við fyrirspurninni og kemur þar meðal annars fram að flestir áskrifendur eiga lögheimili í póstnúmeri 105, eða 9,52%. Næstir á eftir koma íbúar í 108 Reykjavík og eru þeir 8,74% áskrifenda.

Því næst koma íbúar með lögheimili í 200 Kópavogi, alls 8,54%, og 210 Garðabæ, eða 7,79%.

Þá kemur einnig fram í svarinu að 7,51% áskrifenda býr í 112 Reykjavík, 7,01% í 101 Reykjavík, 6,13% í 220 Hafnarfirði og 5,93% í póstnúmeri 107. Þar á eftir koma svo íbúar 109 og 110 Reykjavík, sem mælast rúmlega 5,50% áskrifenda leikhússins.

Þeir íbúar höfuðborgarsvæðisins sem eru í áskrifendahópi Borgarleikhússins og mælast undir 5% eru til að mynda íbúar í 104 Reykjavík, 201 Kópavogi, 221 Hafnarfirði, 170 Seltjarnarnesi, 270 Mosfellsbæ, 203 Kópavogi og 113 Reykjavík.