[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
A níta Hinriksdóttir úr ÍR sigraði örugglega í sinni sterkustu grein, 800 metra hlaupi, á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum um helgina.
A níta Hinriksdóttir úr ÍR sigraði örugglega í sinni sterkustu grein, 800 metra hlaupi, á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum um helgina. Aníta kom í mark á 2:05,26 mínútum, en hún var ekki að reyna við lágmark inn á HM í Peking og ÓL í Ríó í hlaupinu. Til þess þarf hún að hlaupa á 2:01,00 mínútum en besti tími hennar í ár er hálfri sekúndu frá því.

Hulda Þorsteinsdóttir úr ÍR fékk gullverðlaun í stangarstökki þegar hún fór yfir 4,22 metra, sem er átta sentimetrum frá hennar besta árangri. Lágmarkið inn á HM í Peking í næsta mánuði og Ólympíuleikana í Ríó að ári er 4,50 metrar.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Í 100 metra hlaupi sigraði hann á tímanum 10,92 sekúndum og var einungis 3/100 úr sekúndu á undan Ara Braga Kárasyni úr FH og 7/100 úr sekúndu á undan Juan Ramon Borges úr FH sem fékk brons. Kolbeinn sigraði svo í 200 metra hlaupi á 21,76 sek.

Spjótkastarinn Guðmundur Sverrisson endurheimti Íslandsmeistaratitilinn þegar hann kastaði 74,19 metra, tuttugu metrum lengra en næsti maður. Guðmundur varð einnig meistari fyrir tveimur árum þegar hann varð fyrsti spjótkastarinn í háa herrans tíð sem kastaði yfir 80 metra.

Andrea Kolbeinsdóttir , ÍR, vann gull í 3.000 metra hlaupi á tímanum 10:09,74 mínútum og fékk silfur í 1.500 metra hlaupi á tímanum 4:43,16 mínútum. María Birkisdóttir úr ÍR sigraði í síðarnefndu greininni á 4:42,84 mín. og hún fékk svo silfur í 800 metra hlaupi á 2:24,84 mínútum.

Þorsteinn Ingvarsson , ÍR, var léttur á fæti og fékk tvö gull. Hann stökk 7,39 metra í langstökki og 13,80 metra í þrístökki. Ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson , einnig úr ÍR, sigraði í kúluvarpi, en hann kastaði 18,28 metra.

Sveit ÍR sigraði í heildarstigakeppninni, fékk alls 33.955 stig. FH varð í öðru sæti með 31.736 stig og Breiðablik í því þriðja með 13.572 stig, 375 stigum fyrir ofan UFA.